Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. mars 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðRæður og greinar Bjartar Ólafsdóttur

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um vistgerðir á Íslandi

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flutti eftirfarandi ávarp á málþingi um vistgerðir á Íslandi sem haldið var 17. mars 2017.

Kæru gestir,

Ég vil byrja á því að óska þér, Jón Gunnar, til hamingju með þetta frábæra starfsfólk sem stendur að baki vistgerðaflokkuninni!
Náttúrufræðistofnun: innilega til hamingju með þetta vel unna verk.

Það eru líka margir aðilar utan stofnunarinnar sem tóku þátt í að gera þessa úttekt að veruleika. Mér finnst það verulega ánægjulegt og sýna í hnotskurn mikilvægi samvinnunnar í fámennu þjóðfélagi eins og okkar. Bestu hamingjuóskir til ykkar allra sömuleiðis!

Gildi stofnunar eins og Náttúrufræðistofnunar er gríðarhátt fyrir íslenskt samfélag og jafnvel mun meira en við flest gerum okkur grein fyrir. Við byggjum afkomu okkar að stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda og ættum þannig að vera meðvituð um mikilvægi þess að sinna grunnrannsóknum því þær eru jú, undirstaða þekkingar á samsetningu vistkerfa, ástandi þeirra og hvaða möguleikar eru á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Eða - hversu mikið getum við nýtt án þess að raska jafnvæginu?

Ég kýs fjölbreytileika umfram fábreytni. Fjölbreytileiki í mannlífi ýtir undir fleiri skoðanir og sjónarmið. Einsleitni af ýmsum toga hefur hamlandi áhrif og leiðir til þess að samfélög hafa lítið þol gegn áföllum. Ég nefni sem dæmi sjávarpláss sem missir fiskikvótann, lífæð íbúanna, út úr þorpinu.

Annað dæmi gæti verið lítil eyja norður í Atlantshafi sem selur yfir 80% af öllu græna rafmagninu sínu til örfárra stórkaupenda. Það er alltaf betra að hafa fleiri stoðir til að treysta á ef eitthvað kemur upp á.

Sama gildir um vistkerfin og mikilvægi þess að vernda líffræðilega fjölbreytni þeirra. Flestar þjóðir heimsins eru meðvitaðar um þetta og eru þátttakendur í samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem var gerður í Ríó árið 1992.

Skipuleg skráning og vöktun á lífríkinu er forsenda náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. Flokkun lands í vistgerðir er þar lykilatriði. Í náttúruverndarlögunum er vistgerð skilgreind sem: staðir eða svæði með ákveðnum einkennum til dæmis hvað varðar gróður og dýralíf, jarðveg og loftslag. Sem sagt – svæði sem falla undir sambærilegar skilgreiningar eru þannig af sömu vistgerð.

Þegar svæði eru flokkuð í vistgerðir er lögð áhersla á vistkerfisnálgun svo tryggt sé að jafnvægið sem þarf að ríkja á milli náttúruverndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar sé alltaf í fyrirrúmi.

Vistgerð er grundvallareining í vistkerfisnálguninni sem þjóðir heims með ríki Evrópu í fararbroddi eru sammála um að beita til að varðveita líffræðilega fjölbreytni og ná markmiðum sjálfbærrar þróunar.

Vistkerfisnálgun er einnig eitt af leiðarstefum í markmiðum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til næstu ára því ég vil undirstrika mikilvægi þess að horft sé til líffræðilegrar fjölbreytni og annarra grunnþátta náttúruverndar í allri auðlindanýtingu.

Íslenska vistgerðaflokkunin á sér fyrirmynd í viðurkenndri flokkun á vistgerðum í Evrópu og á klárlega eftir að nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi, námsfólki og almenningi við alla skipulagsgerð, skynsamlega landnotkun, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og ekki síst við vernd náttúrunnar. Það er sérstakt fagnaðarefni og framför fyrir allar ákvarðanir um landnotkun og framkvæmdir hér á landi að fá aðgang að þessum upplýsingum á stafrænu formi.

Vistgerðaflokkunin nýtist okkur ekki aðeins við framkvæmd laga um náttúruvernd heldur er hún ein af skyldum okkar gagnvart framfylgd samningsins um líffræðilega fjölbreytni þar sem okkur er falið að kortleggja náttúruna með tilliti til lífríkisins og þeirra tegunda sem hér finnast. Vistgerðakortin munu einnig skila okkur hraðar fram á við í ákvarðanatöku um landnýtingu varðandi friðlýsingar og verndun mikilvægra og sjaldgæfra búsvæða og vistkerfa.

Ég sé endalausa möguleika opnast með tilkomu þessara upplýsinga, þá ekki síst vegna þess hve auðvelt er að nálgast þær á stafrænu formi. Þær munu nýtast vel til náttúrufræðikennslu á öllum skólastigum, við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaganna, náttúruverndaráætlunar eða í verkefnum tengdum mati á umhverfisáhrifum.

Þá munu þær líka nýtast frábærlega við alla aðra áætlanagerð og ákvarðanatöku um landnotkun í framtíðinni, svo sem varðandi skógrækt, akuryrkju, landgræðslu eða uppbyggingu ferðamannastaða.

Ekki má gleyma að hér er í fyrsta skipti verið að leggja fram kort af öllum fjörum landsins og það mun sömuleiðis nýtast vel, til dæmis við skipulagningu á meðferð og nýtingu strandsvæða.

Kæru gestir,

Vistgerðakortin gera okkur ekki bara kleyft að sinna grunnskyldum okkar varðandi náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda á heimavettvangi. Þau gera Íslandi einnig kleyft að sinna alþjóðlegum skyldum sínum á sviði náttúruverndarmála og að taka þátt í samvinnu ríkja um vernd líffræðilegrar fjölbreytni í Evrópu. Ég er verulega stolt af þessu veglega framlagi Náttúrufræðistofnunar og samstarfsaðila og segi enn og aftur; innilega til hamingju!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta