Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á hátíðarathöfn í tilefni Dags umhverfisins 2017


Góðir gestir, ég vil þakka ykkur öllum fyrir að mæta hér í dag þar sem við fögnum degi umhverfisins. Degi umhverfisins er reyndar alltaf fagnað formlega 25. apríl ár hvert, en þar sem ég var stödd erlendis á fundi umhverfisráðherra Evrópuríkja fögnum við honum aftur í dag.

Og það er ýmsu sem má fagna þegar horft er til umhverfismála á Íslandi.

En ef við byrjum á að horfa aðeins tilbaka þá mætti líkja ferli Íslands í umhverfismálum við feril margra barnastjarnanna sem stíga fram í sviðsljósið í poppmenningu heimsins og heilla alla í kring um sig með sjarma sínum og hæfileikum.

Hitaveituvæðing Íslands er oft nefnd sem dæmi um framsækni landsins í loftlagsmálum. Þessi framsækna aðferð við að nýta jarðhitann sem við erum svo lánsöm að búa yfir heillaði umheiminn. Þar nýtti þjóðin, sem rétt var að slíta barnsskónum sem fullvalda ríki, sér auðlindir sínar til aukinnar hagsældar og dró úr brennslu innflutts eldsneytis.

Og það er mikilvægt að halda þessu á lofti, við getum verið stolt af þessum árangri.

En eins og með margar barnastjörnur sem láta glamúrlífið og hrós annarra blinda sér sýn og verða værukærar, má segja að Ísland hafi villst af leið í ýmsum brýnum umhverfismálum.

Vistspor er mælikvarði á hversu mikið af gæðum jarðar fólk nýtir til eigin neyslu og hversu miklum úrgangi eða mengun það skilar frá sér. Því meiri neysla, úrgangur og mengun….. því stærra vistspor.

Og staðan er sú að vistspor Íslendinga hefur stækkað stöðugt undanfarin ár og er með því stærsta sem gerist í heiminum.

Og í mikilvægasta umhverfismálinu, loftlagsmálunum, vöknuðu margir nýverið upp við vondan draum þegar við fengum þær fréttir að útblástur gróðurhúsalofttegunda hér á landi gæti tvöfaldast á næstu árum á sama tíma og þær þjóðir sem við berum okkur saman við eru að draga úr útblæstri.

Barnastjarnan er ekki lengur í efsta sæti vinsældalistans.

En kæru gestir,

alveg eins og með margar barnastjörnurnar sem þroskast, taka sig á og koma sterkari tilbaka hefur Ísland gríðarleg tækifæri til að standa sig betur í umhverfismálum og sýna gott fordæmi. Og það hefur margt jákvætt gerst í þessum málaflokki undanfarin ár.

Það sem er ánægjulegt varðandi umhverfismálin í dag er sú mikla vitundarvakning sem nú er í þjóðfélaginu um þessi brýnustu mál samtímans; loftlagsbreytingarnar, mengunina og sóunina sem ógna tilvist okkar hér á jörðinni. Sífellt fleiri átta sig á því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð og vilja leggja sitt af mörkum til þess að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif og hámarka jákvæð áhrif. Og það er svo sannarlega hægt.

Þessi vitundarvakning endurspeglast meðal annars í mikilli grósku í umhverfismálum sem nú er innan margra fyrirtækja og stofnana landsins. Tilnefningar til umhverfisverðlauna eins og Kuðungsins sýna einmitt að mörg fyrirtæki vilja ganga lengra í því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið en reglur segja til um. Því ber að fagna.

Og þá ber líka að nefna hið sterka grasrótarstarf innan frjálsra félagasamtaka sem vinna að náttúruvernd. Samtökum sem tala máli náttúruverndar hefur fjölgað og sífelld aukning félagsmanna sýnir að fólk lætur sig umhverfisvernd varða.

En það sem er ánægjulegast er sá mikli áhugi á umhverfismálum sem ég finn á meðal ungs fólks og barna. Til mín og í ráðuneytið berast reglulega fyrirspurnir frá ungu fólki og nemendum sem hafa áhuga á að ræða um og kynna sér umhverfismál. Umhverfisverkefni nemenda, eins og þeirra sem hljóta viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins hér á eftir, eru annað dæmi um þessa grósku meðal unga fólksins.

Að vita af þessum ungmennum og áhuga þeirra á þessu mikilvæga málefni veitir mér innblástur. Það ýtir enn frekar undir þann metnað og vilja sem ég sem umhverfis- og auðlindaráðherra hef til að vinna að framförum í umhverfismálum á Íslandi. Við þá vinnu hófst ég handa um leið og ég tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þar vega loftlagsmálin þyngst. Aukinn kraftur hefur verið settur í þau mál í ráðuneytinu og jafnframt hefur verið lögð áhersla á vinnu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í víðtækri samvinnu ráðuneyta, atvinnulífs, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og annarra. Síðar á þessu ári mun svo liggja fyrir tímasett og markmiðabundin aðgerðaáætlun í loftlagsmálum fyrir Ísland.

Ég hef einnig talað fyrir því að mikilvægt sé að beita grænum hvötum og sköttum og sem dæmi má nefna að kolefnisgjald mun hækka um 100% frá og með 1. janúar 2018.

Þá hefur það varla farið framhjá þeim sem fylgjast með umræðum um umhverfismál að ég er ekki hrifin af mengandi stóriðju og tel að ekki eigi að veita ívilnanir til þess konar starfsemi.

Enda var stigið stórt skref í umhverfismálum hér á landi þegar tekið var sérstaklega fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að ekki verði efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingar mengandi stóriðju.

Það er mér einnig sérstök ánægja að nefna að í ráðuneytinu er nú unnið að heildstæðri áætlun um vernd miðhálendisins og stefnan er sett á stofnun Hálendisþjóðgarðs. Það þarf að gera í samtali og sátt við ýmsa aðila og er sú vinna í góðum farvegi.

Kæru gestir,

Ísland hefur það í hendi sér að heilla þjóðir heims enn á ný þegar kemur að umhverfismálum. En til þess þarf samstillt átak okkar allra. Þau mál sem unnið er að í mínu ráðuneyti og ég hef rakið hér eru mikilvægur þáttur í því átaki. Ef við vinnum að þeim saman og nýtum okkur kraft þeirrar vakningar í umhverfismálum sem nú er hér á landi þá lít ég bjartsýn fram á veginn.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta