Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Samorkuþingi 2017

Góðir gestir,

Ég hugsa stundum um það hvernig það hafi verið að búa á Íslandi áður en við virkjuðum jarðvarmann til að hita íverustaði okkar og áður en við virkjuðum fallvötnin til að rafvæða. Breytingin hlýtur að hafa verið alveg gríðarleg fyrir þær kynslóðir sem upplifðu orkuskiptin úr kolum og olíu yfir í endurnýjanlega orkugjafa. Ég velti einnig stundum fyrir mér hvort við tökum þessar auðlindir okkar og gnótt þeirra sem svo sjálfsögðum hlut að við vanrækjum að umgangast þær af virðingu og með varúð?

Við eigum mikið af auðlindum. Dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar er líklega ferskvatn. Ég leyfi mér að efast um að margir Íslendingar velti því mikið fyrir sér hversu marga vatnslítra þeir nota daglega né hversu mikil lífsgæði það eru að hafa aðgang að ómeðhöndluðu grunnvatni til drykkjar.

Það er skiljanlegt. Við erum vön gæðum. En þau eru ekki sjálfsögð. Jafnvel ekki á Íslandi. Við vitum að við þurfum að vernda vatnsbólin. Vatn sem einu sinni var jafnvel partur af iðandi straumi gruggugrar jökulár, hreinsast með tíð og tíma gegn um jarðlög og berg og endar sem ferskasta vatn sem um getur.

Já það þarf að vernda meira en stórfengleg náttúruundur á Íslandi einmitt til að við höldum áfram að lifa við gæði eins og hreint vatn til framtíðar.

Góðir gestir,

Orkumál eru eitt af mikilvægustu málum sem við sem þjóð stöndum fyrir á hverjum tíma. Ykkar aðgerðir hafa mikil áhrif á samfélagið. Orkuskipti úr olíu og kolum fyrir jarðhita er gott dæmi þar sem sparnaður fyrir samfélagið og umhverfisvernd fóru hönd í hönd. Svo líður tíminn og Ísland sækir fram fyrir tilstilli margra þátta. Þjóðin verður menntaðari, innviðir byggjast upp og blómlegt atvinnulíf líka. Þar eiga orkumál stóran sess, sem og aðrir samverkandi þættir.

En nú er ný kynslóð að taka við á Íslandi. Þessi kynslóð er alþjóðavædd, menntuð, (og kokhraust myndi kannski einhver segja, en kynslóð sem veit sem betur fer að vatnið mun ekki renna sjálfkrafa hreint út krananum algjörlega óháð því sem við annars gerum.

Það er áhersla á að byggja á sjálfbærni svo að við getum sannarlega byggt til framtíðar hér á Íslandi. Umhyggja fyrir framtíðarhagsmunum er ekki ný af nálinni, líklega einhverskonar Darwinsimi í ungu fólki á hverjum tíma. Það er þetta með að vilja koma DNA-inu sínu áfram og búa í haginn svo að afkomendurnir spjari sig líka og lifi góðu lífi. Þetta breytist ekki milli kynslóða. Mannkynið vex hratt, álag á jörðina eykst, og vandamálin - til dæmis er varða loftslag verða stærri- en þekking á því hvernig við getum brugðist við hefur sem betur fer líka aukist.

Hér í þessum sal er nóg af fólki sem hafði þau áhrif, áræðni og þekkingu sem þurfti til þess að skapa mér og mínum börnum græna og góða framtíð – í gegnum þrotlausa vinnu og hugkvæmni á sviði orkumála. Má þar nefna Jónas Matthíasson, Þorkell Erlingsson, Ólaf G. Flóvenz, Kristján Sæmundson, Albert Albertson, Guðna Axelsson, Guðmund Hagalín, Stefán Arnórsson - listinn er langur.

En hvert er næsta skref í raforku og atvinnumálum Íslendinga og á hvaða forsendum á að taka það skref. Í mínum huga er það einungis einn þáttur sem ræður því.

Sjálfbærni,

Hringrásin stóra sem er undirstaða alls lífs á jörðinni verður að fá að virka náttúrlega og af yfirvegun. Þetta eru okkar stærstu virkjunaráform gott fólk. Virkjunin sem felst í sjálfbæru hringrásarhagkerfi sem tekur til sín orku nýtir auðlindir, þó aldrei meira en þarf hverju sinni og skilar svo líka tilbaka. Hring eftir hring gengur það.

Já sjálfbærni. Þetta er kannski orðið hálf froðukennt og e.t.v. of háfleyt orð í allri þessari umræðu um umhverfi og samfélag.

Leyfið mér að þýða það yfir á orkugeirann.

  • Til að vera sannarlega græn og sjálfbær , þá á raforkusala á Íslandi að fókusera á endakaupendur. Orkufyrirtækin verða að velja að selja fyrirtækjum sem uppfylla kröfur okkar um framleiðslu á grænum vörum og að fyrirtækin geti boðið samfélaginu upp á fjölbreytt og góð störf.
  • Sjálfbærni samfélagsins snýst líka um það að áhætta orkuverkefna sé metin raunsætt og að við ræðum um þjóðhagsleg áhrif þeirra opið. Það kemur almenningi við ef að tekin eru erlend lán fyrir 200 megawatta virkjun á Íslandi. Það einfaldlega hefur áhrif á efnhagsreikninga víðar en í bókhaldi viðkomandi fyrirtækis. Skuldir orkufyritækja koma okkur við sem og arðsemi.
  • En stærsta málið varðar sjálfbærni orkugeirans á Íslandi er auðvitað að við verðum alfarið sjálfbjarga um okkar eigin orku og að bílar, skip og önnur farartæki geti gengið fyrir orku sem framleidd er innanlands.

Horfandi yfir sviðið þá er hægt að byggja á mörgu. Þar lít ég sérstaklega til tveggja fyrirtækja sem mér finnst hafa gert vel á undanförnum árum. Fyrst vil ég nefna HS orku:

Ef mér reiknast rétt þá er HS orka að komast á það stig að vera nánast skuldlaus. Þeirra sýn sem hefur verið bein nýting jarðhitans hefur gert það að verkum að þeir hafa ekki einungis bara búið til orku fyrir notendur sýnar heldur hafa þeir hjálpað fyrirtækjum að búa til þekkingarstörf sem skila miklu fyrir samfélagið. Störf í ylrækt, fiskeldi, ferðaþjónustu og metanolframleiðslu svo eitthvað sé nefnt. Þetta módel hefur sannað sig. Þarna er á ferðinni fyrirtæki sem skilar til samfélagsins hugsun sem snýr að sjálfbærni. Þeir stóðu í lappirnar þegar átti að knýja þá til afleiddra samninga og í dag höfum við til umráða orku sem annars hefði farið til verkefnis þar sem fleiri egg hefðu enn og aftur farið í sömu körfuna.

Næst vil ég nefna Orkuveitu Reykjavíkur:

Undir stjórn Bjarna Bjarnasonar hefur fyrirtækið tekið stakkaskiptum. Fyrirtækið sat uppi með stóra virkjun þar sem komið hefur í ljós að orkuöflunin var of hröð og uppi voru rekstarerfileikar. Fyrirtækið hefur unnið á þessu til að skapa sér sjálfstæði frá lánadrottnum sínum en hefur á sama tíma unnið vel að því að virða óskir nærumhverfisins þegar kemur að loftgæðum, uppgræðslu á landi og endurheimt raskaðra vistkerfa svo eitthvað sé nefnt. Skýr sýn þeirra við lagninu lagnar frá Hverahlíð til Hellisheiðar gefur skarpa mynd af því þegar stjórnendateymi tekur tillit til áhættu og rekstraröryggis í stað þess að hugsa bara um að bora.

Það á að tala um það sem vel er gert og íslensk orkufyrirtæki eru svo sannarlega að gera það.

Góðir gestir, það sagði einhver um daginn, við eitthvað tilefni sem ég er nú bara alveg búin að gleyma,að ráðherrar ættu að hætta að hafa skoðun eftir að þeir tækju við embætti. Þið heyrið kannski að þið eruð ekki alveg svo heppin.

Eins og þið heyrið þá tel ég að við þurfum að umgangast auðlindir okkar af meiri virðingu og átta okkur á því að um takmörkuð gæði getur verið að ræða, ekki bara hvað magn varðar, heldur hvað varðar aðgengi og notkunarrétt að þeim.

Ég tel að orkufyrirtæki eigi að greiða sanngjarnt verð fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Ég stefni því á, í samráði við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, að láta leggja mat á þann möguleika að taka upp auðlindagjöld. Það verður þó ekki gert á einni nóttu. Fyrst þarf til að mynda að greina hvernig réttindum til nýtingar náttúruauðlinda er háttað og tryggja gagnsæi í úthlutun réttinda og sjálfbærni nýtingarinnar m.a. í samhengi við ákvæði um auðlindamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

En þá að léttara hjali – yfir í loftlagsmálin.

Þau eru sannarlega mál málanna þessi misserin. Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun. Við þurfum að gera víðtækar, langtímabreytingar á samfélaginu okkar til að draga með stórfelldum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er því verulega gott að finna þessa mánuðina hvernig meðbyr með breytingum í átt að loftslagsvænni framtíð kemur alls staðar frá.

Segja má að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem út kom í febrúar síðastliðnum, hafi hreyft duglega við umræðunni. Í skýrslunni er m.a. birt spá sem sýnir fram á mikla aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis á næstu árum. Þar kemur einnig fram að ef við brettum ekki upp ermar og grípum í taumana sé ólíklegt að Ísland muni ná að standa við skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðlegum samningum árin 2020 og 2030.

Í síðustu viku sótti ég fund evrópskra umhverfisráðherra þar sem við ræddum m.a. loftslagsmál, en viðbrögð og aðlögun að loftslagsbreytingum eru nú skilgreind sem mikilvægasta umhverfismál heimsins í dag.

Á fundinum kom skýrt fram að allar þjóðir Evrópu búa sig undir aðgerðir til að koma í veg fyrir frekari hlýnun jarðar. Það var einróma samhljómur um að óumflýjanlegt væri að grípa til umfangsmikilla aðgerða vegna loftslagsbreytinga, ekki síst þar sem reiknað hefur verið út að kostnaður við aðgerðaleysi er mun meiri en kostnaður við aðgerðir. Þá var undirstrikað mikilvægi þess að horfa til aðgerða sem líka geta falið í sér efnahagslega hvata.

Möguleikar Íslands til að draga úr losun eru miklir og við þurfum einfaldlega að taka höndum saman og vinna að sameiginlegum markmiðum í átt að loftslagsvænni framtíð. Samhliða þurfum við að aðlaga samfélagið okkar að breyttum forsendum til framtíðar – til dæmis mun hækkandi sjávarstaða hafa áhrif á byggð við strendur, bráðnun jökla mun hafa áhrif á raforkuframleiðslu, hlýnun sjávar mun hafa áhrif á fiskistofna okkar og svo framvegis. Við verðum að ganga bjartsýn til verks en þó raunsæ um leið. Með það að markmiði erum við komin af stað með gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem miðar að því að Ísland nái að standast skuldbindingar sínar undir hatti Parísarsamningsins.

Helstu tækifæri landsins til að draga enn frekar úr losun liggja í samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og landnotkun. Það þarf að ráðast í aðgerðir sem eru hagkvæmastar, út frá til að mynda greiningu HHÍ á möguleikum til samdráttar í losun, en skila þar að auki fjölþættum ávinningi, s.s. minni loftmengun, endurheimt jarðvegs og gróðurs, aukinni nýsköpun og jákvæðri ímynd atvinnugreina og Íslands. Við gerð áætlunarinar verður lögð sérstök áhersla á að skoða hvar hægt er að beita grænum hvötum og umhverfissköttum til að ýta undir þróun íslensks samfélags í átt að lágkolefnishagkerfi.

Þetta kallar á samstillt átak innan stjórnkerfisins og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, félagasamtaka og almennings. Samfélagið allt þarf að taka fullan þátt í gerð áætluninarinnar og setja sér markmið um að fylgja innihaldi hennar.

Það verður samt ekki nóg að setja markmið um samdrátt frá einstökum geirum eða um bindingu koltvísýrings í bergi eins og gert er á Hellisheiði, eins frábært og Carbfix verkefnið er. Við þurfum líka að setja okkur langtímasýn í átt að mun minni auðlindasóun og uppbyggingu og þróun lágkolefnishagkerfis.

Hlutverk orkugeirans í þessari framtíðarsýn er gríðarlega mikilvægt – græna orkan okkar er gullegg sem þarf að fara vel með. Hvernig höldum við áfram að nýta auðlindirnar okkar án þess að ganga á þær eða skerða önnur náttúrugæði tengd þeim? Sjálfbærni er þar lykilinn og ég treysti ykkur til að leiða geirann áfram inn á þær brautir við allt skipulag og framtíðarnýtingu auðlindanna.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta