Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. maí 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á málþingi um landnotkun og loftslagsmál

Kæru gestir,

Ég vil byrja á því að lýsa sérstakri ánægju minni með frumkvæði Landbúnaðarháskóla Íslands að halda fræðsluráðstefnu fyrir almenning um tengsl landnotkunar og loftslagsmála – loftslagsmálin eiga að vera skiljanleg okkur öllum, ekki bara vísindamönnum. Við þurfum öll að hafa góða innsýn inn í hvað liggur að baki loftslagsbreytingum af mannavöldum og hvernig við getum brugðist við þeim.

Þegar kemur að umfangsmiklum málum eins og ástæðum loftslagabreytinga, áhrifum þeirra og af hverju við hreinlega verðum að sporna við af meiri þunga en hingað til – þá reynir mikið á að vísindaheimurinn nái að miðla upplýsingum til okkar allra, skýrt og skilmerkilega.

Mér finnst reyndar kominn tími á að orðræðan um loftslagsmál snúist úr: „þetta eru flókin mál sem bæði er erfitt að útskýra og skilja“ yfir í eitthvað eins og: „loftslagsmálin eru margbrotin – en í grunninn eru þau einföld – loftslagsbreytingar af mannavöldum eiga sér stað vegna þess að við höfum raskað jafnvægi jarðarinnar.

Við þekkjum að þegar líkami okkar eða hugur virkar ekki sem skyldi þá er eitthvað úr jafnvægi og við leitumst við að laga það með öllu tiltækum ráðum. Það sama á við um náttúruna. Allir ferlar hennar byggja á að viðhalda jafnvægi. Hringrásir kolefnis, niturs og vatns innan vistkerfa þurfa að haldast heilar og nýting þeirra má aldrei verða svo ágeng að kerfin nái ekki að viðhalda sér og jafnvel hrynji.

Því miður hefur maðurinn ekki unnið mikið með þessum grunnstaðreyndum í gegnum tíðina og frá upphafi iðnbyltingarinnar höfum við raskað jafnvægi jarðarinnar freklega. Með gríðarlegri vinnslu og notkun á jarðefnaeldsneyti höfum við til dæmis aukið útstreymi gróðurhúsalofttegunda langt umfram það sem vistkerfi jarðar gátu tekið upp á móti.

Því til viðbótar höfum við umbreytt allt að 50% af landvistkerfum jarðar; við höfum rutt skóga, grafið skurði og tekið frjósöm svæði til þaulræktar með tilheyrandi notkun á tilbúnum áburði og plöntu- og skordýraeitri, ofnýtt beitilönd og malbikað og steypt yfir restina – svo ekki sé minnst á meðferð okkar á ferskvatni og endalausum áveitum til að rækta vatnsfrekar plöntur á þurrum svæðum sem þeim er ekki eðlislægt að þrífast á.

Eyðilegging Aralvatns í mið-Asíu er þannig eitt af verri dæmum nútímans af stórkarlalegum áveituframkvæmdum sem eyðilagði vatnsbúskap á stóru svæði og þurrkaði að mestu upp vatnið sem fjöldi manns lifði á að veiða fisk úr. Dæmin eru víða – og Ísland þar engin undantekning. Um 50% af vistkerfum landisins okkar eru eydd eða alvarlega röskuð vegna ósjálfbærrar nýtingar í gegnum aldirnar. Erum við fyllilega meðvituð um það? Ég held ekki.

Sem sagt – samhliða því að auka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 40% frá upphafi iðnbyltingar hafa jarðarbúar dregið verulega úr möguleikum vistkerfa á að binda og geyma kolefni – gleymum ekki heldur að eyðing jarðvegs og gróðurs hefur losað gríðarlegt magn af koldíoxíð aftur í andrúmsloftið og haft neikvæð áhrif á ástand hafsins.

Talandi um hafið, þá er ástæða að minna á að aukin hlýnun og súrnun sjávar af völdum loftslagsbreytinga er beintengd ástandi vistkerfa á landi enda kerfi jarðar öll tengd innbyrðis. Það er til dæmis ekki sérstök kolefnishringrás fyrir hafið annars vegar og fyrir landið hinsvegar.

Hafið er stærsta vistkerfi og kolefnisforðabúr jarðar og því augljóst að við þurfum að vernda það með öllum tiltækum ráðum. Það vill hins vegar allt of oft gleymast að jarðvegurinn er næst stærsta kolefnisforðabúrið og löngu komin tími á að við förum að vernda moldina og lífríki hennar – Ef vatnið er bláa gullið þá er moldin brúna gullið!

Hafið og landið eru þar að auki matarkistur jarðar og með ólíkindum að við skulum ekki hugsa betur um þessar auðlindir sem við byggjum alla okkar afkomu á. Þess frjósamari sem moldin er – þess hærra er kolefnisinnihald hennar – er það ekki „win – win“ útkoma sem ætti að stefna á að ná sem víðast?

Kæru gestir,

Í grunninn er þetta einfalt. Við í þessum sal erum líklega öll meðvituð um að án súrefnis lifum við aðeins í örfáar mínútur, við getum verið án vatns í nokkra daga og, ef við höfum súrefni og vatn, getum við verið án matar í mánuð eða tvo. Þökk sé vistkerfum jarðar, þá höfum við í flestum tilfellum aðgengi að þessum lífsnauðsynlegum auðlindum. Þau framleiða fæðuna, sjá til þess að súrefni sé til staðar í andrúmsloftinu og miðla heilnæmu drykkjarvatni.

Heilbrigð og virk vistkerfi taka upp og binda, bæði í jarðvegi og gróðri, gríðarlegt magn kolefnis úr andrúmslofti – Þar liggja mörg tækifæri til að bregðast við loftlagsvánni; ekki síst fyrir land eins og Ísland sem er mjög ríkt af illa förnu og röskuðu landi.

Gildir einu hvort um er að ræða aðgerð eins og endurheimt framræsts votlendis, endurheimt birkiskóga og annarra eyddra gróðurlenda eða aukna útbreiðslu ræktaðra skóga. Bætt meðferð beitilands á hálendi og láglendi er annar þáttur sem þarf að taka á í samhengi við verndun og nýtingu lands og ég vona að það verði til umfjöllunar hér í dag.

Ég vil að lokum nota tækifærið og nefna að eins og þið vitið kannski mörg nú þegar, eru loftslagsmálin forgangsmál á mínu borði. Það er alveg ljóst að við þurfum að halda vel á spöðunum til að standast skuldbindingar Íslands í Parísarsamningnum til 2030.

Ég hef fylgt þessum málum fast eftir frá því ég tók við embætti í janúar síðastliðnum og það var því mjög ánægjulegt þegar ég og fimm aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar skrifuðum nýverið undir samstarfsyfirlýsingu um gerð nýrrar aðgerðaáætlunar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu.

Áætlunin verður unnin undir forystu forsætisráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, en fjármála- og efnahagsráðuneytið, samgönguráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið munu einnig taka fullan þátt í gerð hennar ásamt fjölskipuðum samráðsvettvangi.

Áætlunin á að miða að því að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum til 2030 og varða veginn að róttækri minnkun losunar til lengri tíma í samræmi við leiðsögn fræðasamfélagsins um hvernig hægt sé að ná markmiðum um að halda hlýnun andrúmsloftsins vel innan við 2°C.

Það er samt ekki nóg að stjórnkerfið ætli sér stóra hluti. Samfélagið allt þarf að taka fullan þátt í að móta loftslagsvæna og græna framtíð Íslands og fær til þess tækifæri í gegnum opna vinnufundi og heimasíðu aðgerðaáætlunarinnar sem mun verða opnuð fljótlega.

Gerð áætlunarinnar er aðeins fyrsta skref af mörgum – við þurfum öll að vera tilbúin að breyta siðum okkar og venjum svo aðgerðir hennar verði árangursríkar. Það eru reyndar ekki neinar stórkostlegar breytingar sem við þurfum að leggja á okkur til að ná því. Við þurfum bara að tileinka okkur grænni lífstíl, hætta þessari gengdarlausu auðlindasóun og fara að ganga um náttúruna með virðingu hún er jú það sem tilvist okkar byggir á.

Takk fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta