Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á Skipulagsdeginum 2017

Ágætu fundargestir,

Umhverfismál eru allt umlykjandi og tengjast öllum okkar athöfnum.

Mikilvægur hluti umhverfismála er sá þáttur sem snýr að skipulagi. Ef við hugsum nánar út í það þá eru skipulagsmál líka allt umlykjandi. Það, hvernig við leysum úr áskorunum sem fylgja því að ákveða hvernig landi skuli ráðstafað, til dæmis fyrir íbúðarbyggð, verslun og landbúnað, eða hvernig skipuleggja skuli náttúruverndarsvæði getur allt haft mikil áhrif á lífsgæði okkar og velsæld samfélagsins.

Þema skipulagsdagsins í ár er skipulag miðhálendisins og skipulag borgar og bæja. Um er að ræða tvö af fjórum viðfangsefnum Landsskipulagsstefnu 2015-2026 sem samþykkt var með þingsályktun á Alþingi 2016.

Bæði málefnin eru mikilvæg þar sem tekist er á við framtíðarsýn stórra heilda. Annað þemað hefur þó verið nokkuð mikið í umræðunni upp á síðkastið, þar er ég að tala um friðlýsingu miðhálendisins sem meirihluti flokka á Alþingi er sammála um að sé mikilvægt verkefni.

Við Íslendingar í okkar stóra og fallega landi ættum að nýta okkur betur friðlýsingar sem stjórntæki. Stjórntæki til skipulagningar á okkar náttúruperlum. Þetta á við um miðhálendisþjóðgarð en þar eigum við einmitt að horfa til heildræns skipulags fyrir svæðið með tilliti til verndar, sjálfbærrar nýtingar í formi veiða og beitar, þróun aðstöðu og þjónustu fyrir þá sem sækja svæðið heim, sem og markvissrar stýringar ferðamanna þar sem þess þarf.

Nefnd hagaðila hefur á undaförnum mánuðum fjallað um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu og skilaði áfangaskýrslu til umhverfis- og auðlindaráðherra síðastliðið vor. Skýrslan felur í sér greiningu á núverandi stöðu miðhálendisins auk kortlagningar svæðisins. Í henni er einnig tekið saman heildstætt yfirlit um miðhálendið, m.a. náttúru svæðisins, stefnumörkun, verndun, nýtingu og innviði innan miðhálendisins.

Þessi sama nefnd er nú að leggja lokahönd á lokaskýrslu fyrir ráðuneytið um forsendur fyrir þjóðgarði á miðhálendinu. Vinnan þar hefur snúist um að greina þau tækifæri og áskoranir sem felast í hugmyndum um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins mun fara nánar yfir þá vinnu í erindi sem hún heldur hér á eftir.

Kæru gestir,

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er líka risastórt skipulagsmál þar sem við þurfum að horfa gagnrýnum augum á hvernig við ætlum með markvissum aðgerðum að skipuleggja heilt samfélag með tilliti til þeirra áskorana sem fylgja því að takast á við og draga úr áhrifum okkar á hlýnun jarðar. Þar er m.a. verið að horfa til rafvæðingar hafna, rafbílavæðingar, öflugri almenningssamgangna, tilheyrandi orkuskipta í samgöngum og hvernig við byggjum vistvænni byggingar.

Í þessu sambandi má nefna að unnið er að því innan ráðuneytisins að sett verði í byggingarreglugerð bindandi ákvæði um að í nýbyggingum og við endurbyggingu húsnæðis skuli gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla. Mikil aukning hefur orðið í framboði og sölu rafbíla að undanförnu, og það þarf að búa svo um hnútana að skipulagið sé í stakk búið til að taka á móti væntanlegum breytingunum og tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta.

Hér í dag verður einmitt fjallað um skipulagsáherslu við uppbyggingu þróunarsvæða meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Með Borgarlínu verður hægt að mæta fyrirsjáanlegri fólksfjölgun án þess að auka bílaumferð í sama hlutfalli og án þess að brjóta óbyggt land í sama mæli og gert hefur verið undanfarna áratugi. Þar skiptir máli gott samstarf ríkisins og sveitarfélaga um allt land við uppbyggingu samgöngumannvirkja í samræmi við þarfir íbúa.

Af öðrum stórum skipulagsmálum má nefna landgræðslu og skógrækt. Þarna komum við að mikilvægri tengingu skipulagsmála og loftlagsmála við okkar náttúrulegu innviði.

Ísland stefnir á að draga verulega úr þeirri losun sem enn á sér stað frá rofnu landi og framræstu votlendi og stórauka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri með fjölbreyttum leiðum.
Þetta þýðir það að við þurfum að horfa vandlega til þess hvernig við ætlum að útfæra þessi atriði- skipuleggja þessi mál: Hvaða aðferðum ætlum við að beita til að græða upp landið, hvar ætlum við að rækta skóga, hvernig skóga ætlum við að rækta, o.s.frv.

Kæru fundargestir,

Ég hef stiklað á stóru og rætt hér ýmis mikilvæg skipulagsmál. Framundan er áhugaverð dagskrá, ég vona að Skipulagsdagurinn 2017 verði ykkur bæði fróðlegur og ánægjulegur.
Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta