Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. september 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðBjört Ólafsdóttir

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra við vígslu ofanflóðavarna á Neskaupsstað

Ágætu Norðfirðingar og aðrir gestir,

það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur á þessum tímamótum þegar lokið er frágangi ofanflóðavarna hér undir Tröllagiljum.

Við Íslendingar þekkjum flestum betur hvernig er að búa við náttúruvá. Hér verða reglulega stórir jarðskjálftar, eldsumbrot verða með nokkurra ára millibili og aftakaveður koma hér af og til.

Ofanflóð og þá einkum snjóflóð eru einnig hluti af þeirri náttúruvá sem við þekkjum mætavel. Í gegnum aldirnar höfum við misst mörg mannslíf í snjóflóðum og skriðuföllum, en það er á þessum stundum sem að samtakamáttur okkar Íslendinga birtist skýrt.

Við munum öll eftir þeirri miklu samkennd sem myndaðist í þjóðfélaginu þegar snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri féllu árið 1995 og það var einmitt í kjölfar þeirra að stjórnvöld ákváðu að hefja markvissar aðgerðir til þess að slíkir atburðir mundu ekki endurtaka sig hér á landi.

Löggjöfinni var breytt og sveitarfélögum sem bjuggu við snjóflóðahættu var gert skylt að meta áhættu á byggðum hættusvæðum og hefja á þeim grunni uppbyggingu snjóflóðavarna.

Landsmenn hafa þannig aðlagað sig þessum aðstæðum og umfangsmikið rannsóknar- og vöktunarstarf er unnið í því skyni að tryggja hér lífvænleg skilyrði til búsetu.

Markmiðið með byggingu varnarmannvirkja er að tryggja sem allra best öryggi íbúa á hættusvæðum gagnvart snjóflóðum sem og öðrum ofanflóðum. Til þessara aðgerða hafa sveitarfélögin notið fjárhagsaðstoðar Ofanflóðasjóðs.

Umhverfisráðuneytinu var falið að annast umsjón með framkvæmdinni af hálfu ríkisvaldsins og tók það formlega við verkefninu í ársbyrjun árið 1996. Jafnframt var starf Veðurstofu Íslands við hættumat og snjóflóðavarnir aukið umtalsvert, svo og vinna stofnunarinnar við vöktun vegna snjóflóða og annarra ofanflóða og rannsóknir á þessu sviði.

Strax á árinu 1996 ákvað ráðuneytið að efla verulega rannsóknir á eðli snjóflóða og var komið á öflugu eftirliti með snjóflóðahættu og gerðar rýmingaráætlanir, sem styðjast skyldi við þar til lokið yrði gerð varnarvirkja. Þá var unnin yfirgripsmikil úttekt á öllum helstu snjóflóðahættusvæðum í byggð og metnir líklegir varnarkostir á hverjum stað.

Rýming húsnæðis í þéttbýli vegna snjóflóðahættu á hins vegar að heyra til undantekninga eftir að varnarvirki hafa verið reist.

Í framhaldi af áðurnefndri úttekt var ákveðið í samráði við viðkomandi sveitarfélög að ráðast í byggingu varanlegra snjóflóðavarna og tryggja þannig öryggi fólks í byggð. Um er að ræða stórt verkefni sem mun enn taka nokkur ár að ljúka að fullu, þó nú hafi verulega miðað og öryggi verið bætt á flestum þeim þéttbýlisstöðum sem búa við snjóflóðahættu. Mörg þessara varnarvirkja hafa þegar sannað gildi sitt.

Í dag fögnum við verklokum við gerð og frágang ofanflóðavarna við Tröllagil hér í Neskaupstað. Þeir sem hér búa þekkja betur en flestir hættuna af ofanflóðum og því er það virkilega ánægjulegt að þessari framkvæmd sé nú lokið.

Næst á dagskrá er að klára framkvæmdir við varnir undir Urðarbotnum og undir Nes- og Bakkagiljum. Mati á umhverfisáhrifum er lokið vegna beggja framkvæmdanna og hönnun varna undir Urðarbotnum er hafin. Þegar hönnun lýkur verður hún kynnt bæjaryfirvöldum og íbúum.

Á næstu árum þarf einnig víða á landinu að huga að vörnum gegn aurskriðum og vatnsflóðum eins og flóð á Ísafirði, Siglufirði, Eskifirði og í Neskaupstað á síðustu árum og mánuðum hafa fært okkur heim sanninn um. Frárennsliskerfi, ræsi og ýmsir aðrir innviðir margra byggðarlaga hafa ekki verið byggðir til þess að takast á við aftakaúrkomu eins og hún verður mest hér á landi.

Íbúar og atvinnulíf sætta sig síður við þá röskun og tjón sem hlýst af flóðum í ám og lækjum nú en áður var. Þarna þarf að koma til samstarf sveitarfélaga og annarra stjórnvalda við að ákveða hönnunarforsendur og endurbæta þá innviði sem fyrir eru þó hætta á mannskæðum slysum sé miklu minni en af völdum snjóflóða.

Meðal annars þarf að huga að því að hugsanlegt er að aftakaúrkoma verði á næstu áratugum tíðari en verið hefur vegna áhrifa loftslagsbreytinga af mannavöldum sem valda nú margvíslegum breytingum á veðurfari hér á landi sem annars staðar.

Varnargarðarnir undir Tröllagiljum eru eins og vel sést hluti af bæjarlandslaginu og því var strax í undirbúningi verksins lögð áhersla á útlit mannvirkisins, uppgræðslu og gerð göngustíga þannig að framkvæmdirnar féllu sem best að umhverfinu og stuðluðu um leið að bættri aðstöðu til útivistar. Það er því von mín að íbúar Neskaupstaðar og aðrir sem sækja bæinn heim muni njóta útivistar á svæðinu.

Ég vil draga sérstaklega fram mikilvægi uppgræðslunnar og þá skoðun mína að við hér á Íslandi ættum að huga enn betur að notkun þeirra grænu innviðauppbyggingar sem felst í uppgræðslu og skógrækt. Þannig er til dæmis hægt að auka við græna innviðauppbyggingu og notast við náttúrulega geymslueiginleika gróðurs og þétts jarðvegs til að draga úr magni rigningarvatns sem annars safnast fyrir í berum og ótraustum jarðvegi. Annar ávinningur grænna innviða í því tilfelli gætu t.d. verið upptaka kolefnis sem hjálpar okkur í baráttu gegn loftlagsbreytingum, bætt loftgæði og fjölbreyttari útivistarsvæða eins og áður hefur verði nefnt.
Þá hafa rannsóknir sýnt að lausnir grænnar innviða séu ódýrari en gráir innviðir. Það er ágætt að velta þessu fyrir sér og auka við þessa þróun hér á landi þó að við séum að sjálfsögðu öll meðvituð um þær takmarkanir sem græn inniviðir búa við hér á landi vegna veðurskilyrða og landslags á mörgum þeirra staða þar sem hætta er af ofanflóðum.

Aðkoma ráðuneytisins að þessum framkvæmdum hér á Neskaupstað hefur fyrst og fremst verið í gegnum Ofanflóðasjóð sem styrkir sveitarfélög til framkvæmda á þessu sviði samkvæmt áætlun um uppbyggingu varnarvirkja. Það er mitt mat að framkvæmd þessi hafi tekist afar vel og er hún öllum þeim sem að henni koma til mikils sóma. Vil ég sérstaklega þakka ráðgjöfum, verktökum og eftirlitsaðilum þeirra störf.

Ágætu Norðfirðingar, við erum hér í dag saman komin til þess að fagna því að gerð þessara varnarvirkja sé lokið og þau tilbúin til þess að takast á við það hlutverk sitt að tryggja íbúum bæjarins aukið öryggi gagnvart ofanflóðum.

Ég vil því að lokum óska ykkur öllum til hamingju með þessi mannvirki og vona að þau verði íbúum Neskaupstaðar til farsældar um ókomna tíð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta