Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. desember 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2017

Starfsfólk og stjórn Úrvinnslusjóðs, góðir ársfundargestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Úrvinnslusjóðs.

Það var mikil framför þegar forveri Úrvinnslusjóðs, spilliefnanefnd, var sett á fót á sínum tíma og spilliefnagjald lagt á sem hvati til að tryggja að spilliefni færu í réttan farveg en ekki beint út í umhverfið eins og venjan var þá. Stórt skref var líka stigið með úrvinnslugjaldinu og stofnun Úrvinnslusjóðs fyrir 15 árum og ekki síst því að tryggð var söfnun, flokkun, endurnýting og rétt förgun fjölda vara og hluta sem lokið hafa hefðbundnu hlutverki sínu. Já það hefur verið unnið mikið og gott starf á þessum vettvangi. Áfram þarf þó að taka ný skef fram á við. Nú eru áskoranirnar aðrar og veita þarf nýjum straumum og stefnum í umhverfismálum brautargengi. Sömuleiðis þurfum við sem störfum við þessi mál frá degi til dags að vera opin fyrir því að hlutirnir breytist og sjá tækifærin í verkefnunum.

Nauðsynlegt er að huga að breyttri hugsun í úrgangsmálum; mikilvægt er að huga að aukinni nýtni og draga sem mest úr myndun úrgangs. Að sögn kunnugra er úrgangsmagnið að aukast í takt við aukna hagsæld þjóðarinnar á síðustu misserum. Áskorun framtíðarinnar er að rjúfa - og það sem allra fyrst - þessi tengsl hagvaxtar og myndunar úrgangs því það þarf ekki að vera og á ekki að vera samasemmerki á milli aukningar í landsframleiðslu og aukningar úrgangs. Um leið og við nýtum hráefni betur þarf sömuleiðis að gæta að því að hættuleg efni slæðist ekki með inn í hringrás hráefnanna aftur.

Eins og fundarmönnum er vel kunnugt um hafa Evrópusambandsgerðir mikil áhrif á málaflokk úrgangsmála á öllu EES-svæðinu enda mikilvægt að sinna framkvæmd EES-samningsins vel. Næsta áskorun þar verður innleiðing á tillögum ESB um hringrásarhagkerfið sem hefur það meginmarkmið að stuðla að bættri nýtingu auðlinda. Í þessum tillögum er sérstök áhersla lögð á framleiðendaábyrgð. Á því sviði hefur Úrvinnslusjóður mikla þekkingu og gegnir lykilhlutverki hér á landi, t.d. varðandi rafgeyma, rafhlöður og raftæki.

Tillögum Evrópusambandsins um framlengda framleiðendaábyrgð er ætlað að lækka kostnað við kerfin, bæta afköst og forðast hindranir á markaði. Jafnframt er ætlunin að gera ráð fyrir kostnaði við úrvinnslu við verðlagningu viðkomandi vöru og innleiðingu hvata fyrir framleiðendur til að hanna vörur sem henta sem best til endurnotkunar og endurvinnslu. Mér skilst að þetta hafi allt verið til sérstakrar umfjöllunar á síðasta ársfundi Úrvinnslusjóðs þegar fundinn sótti fulltrúi Der Grüne Punkt í Þýskalandi. Þegar tillögur Evrópusambandsins verða samþykktar í sinni endanlegri mynd, væntanlega nú fljótlega eftir áramótin, þarf að ráðast í nákvæma greiningu á því hverju þurfi að breyta hér á landi til að uppfylla hinar nýju kröfur að fullu. Hér er um að ræða mikilvægt tækifæri til að fara yfir núverandi stöðu mála hér á landi og leggja til breytingar til batnaðar fyrir vörur með framleiðendaábyrgð.

Annað mál sem áberandi hefur verið í starfi ráðuneytisins síðustu misseri eru að sjálfsögðu loftslagsmálin. Í tíð fyrri ríkisstjórnar var blásið til góðrar aðgerðaráætlunar um loftslagsmál. Núverandi ríkisstjórn leggur mikla áherslu á þennan málaflokk og mun halda verkinu áfram. Áætla má að Ísland þurfi að minnka árlegan útblástur gróðurhúsalofttegunda um allt að milljón tonn koldíoxíðs fyrir 2030.

Aðgerðir á sviði úrgangsmála eru mikilvægar til að okkur Íslendingum takist að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Sérstakur faghópur um minni sóun og úrgang starfaði að gerð tillagna á þessu sviði. Lykilaðgerðir sem faghópurinn setti fram fela í sér kolefnisskatt á urðun úrgang, sem yrði þá í raun eðlileg samræming á grænum sköttum, og bann við urðun lífræns úrgang innan fárra ára. Áætlað er að eingöngu þessari síðari lykilaðgerð gæti skilað samdrætti í útstreymi upp á 90 kílótonn af CO2. Allir eru þó sammála um að mikilvægast sé að koma á hringrásarkerfi þar sem markvisst er komið í veg fyrir myndun úrgangs og þar með útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Núverandi ríkisstjórn leggur áherslu á að ráðist verði í langtímaátak gegn einnota plasti, m.a. með sérstakri áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Þetta rýmar vel við úrgangsforvarnastefnuna okkar þar sem plast verður í fyrirrúmi á næsta tímabili. Þá samþykkti forveri minn í starfi ásamt norrænum kollegum sínum ráðherrayfirlýsingu um að draga úr umhverfisáhrifum plasts sl. vor. Ég hlakka til að vinna að þessum mikilvæga málaflokki sem plastið er og þar þarf ég að eiga gott samstarf m.a. við Úrvinnslusjóð.

Ágætu ársfundargestir.

Það er svo sannarlega spennandi að vinna að umhverfismálum í dag og finna hvað áhugi almennings, sveitarfélaga og atvinnulífsins á úrgangsmálum hefur aukist mikið síðustu misseri.

Ég þakka starfsfólki og stjórn Úrvinnslusjóðs fyrir þeirra góða starf á liðnum árum og ykkur fundargestum, fyrir ykkar framlag til bættra úrgangsmála. Ég hlakka til góðs samstarfs við ykkur öll í þessum mikilvæga málaflokki.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta