Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. janúar 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis og auðlindaráðherra á ráðstefnu Gallup um loftslagsmál

Góðir gestir,

Því miður hafði ég ekki tök á að vera viðstaddur í eigin persónu hér í dag, en er ánægður með að fá tækifæri til að ávarpa þennan fund með hjálp tækninnar. Ég tók við embætti í síðasta mánuði og það hefur verið í mörg horn að líta á þeim stutta tíma. Í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna er umhverfismálum gert hátt undir höfði og metnaðarfull markmið sett þar. Ég hyggst vinna á þeim grunni og kynna ýmis verkefni á næstu mánuðum sem eiga að hrinda sýn ríkisstjórnarinnar í framkvæmd.

Það er ekki síst í loftslagsmálum þar sem markið er sett hátt. Stefnt er að því að ná kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040. Forsætisráðherra tilkynnti það markmið stjórnvalda á alþjóðlegum fundi sem Macron Frakklandsforseti hélt í desember í tilefni tveggja ára afmælis Parísarsamningsins. Við vitum að þetta markmið er metnaðarfullt og að brekkan er brött. Það er hins vegar brýnt að þjóðir heims gangi fram af alvöru gegn loftslagsvánni og sérstaklega þurfa ríkustu löndin að ganga vasklega fram.

Það sem fær fólk kannski helst til að hika í loftslagsmálum er ótti við að kostnaður við aðgerðir verði of mikill. Þróunin á heimsvísu undanfarin ár er þó sú að kostnaður við endurnýjanlega orku og loftslagsvænar lausnir hefur hríðfallið. Margar aðgerðir í loftslagsmálum borga sig hreinlega fyrir budduna, eins þótt umhverfisávinningurinn sé ekki tekinn með. Þegar minni heilsuspillandi loftmengunar, vernd skóga og lífríkis og annað slíkt er tekið með breytist reikningsdæmið enn, grænum lausnum í vil.

Við Íslendingar eigum að skilja þetta kannski flestum betur. Við gumum okkur gjarnan af hitaveituvæðingu og nýtingu endurnýjanlegrar orku – og með réttu. Það kostaði þó drjúgan skilding að koma upp hitaveitu – í rannsóknir, þróun og framkvæmdir. Engum dytti í hug að sjá í þann aur nú og fáir sakna kolakyndingar. Við eigum sama tækifæri varðandi rafvæðingu samgangna. Hún hreinlega borgar sig fyrir budduna, samkvæmt útreikningum og hún er góð fyrir loftslagið og umhverfið. Að sama skapi eru aðgerðir í að endurheimta landgæði, svo sem votlendi og skóga, sem kannski má kalla landlækningu, mikilvæg til að ná árangri í loftslagsmálum og náttúruvernd á sama tíma. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að þetta gangi hratt og vel nema stjórnvöld og almenningur grípi tækifærið, en hiki ekki í hjólfari gamallar hugsunar.

Stjórnvöld ná takmörkuðum árangri – í umhverfismálum sem öðrum málaflokkum – ef ekki er skilningur og stuðningur hjá almenningi við markmið þeirra og leiðir. Almenningur bregst hins vegar ekki endilega vel við gagnvart góðum markmiðum ef stjórnvöld setja ekki lög og leikreglur sem styðja við þau. Þarna þarf að vera stöðugt samtal – slíkt er aðalsmerki virks lýðræðis og góðs samfélags.

Það eru aðeins nokkrar vikur síðan ég sat við hinn enda borðsins, sem framkvæmdastjóri félagasamtaka sem leituðust við að tala máli umhverfisverndar og náttúru Íslands. Ég tel mig því þekkja og skilja þessa nauðsyn á samtali og samvinnu stjórnvalda við félagasamtök, almenning, atvinnulíf og aðra haghafa. Það auðveldar mjög alla vinnu á þessu sviði að þekkja viðhorf almennings. Ég vona mér auðnist að halda þeirri tengingu vakandi. Mér finnst þetta framtak sem hér er kynnt vera afar gott og ég hlakka til að sjá niðurstöður úr því.

Ég skynja almennt viðhorfsbreytingu í samfélaginu hvað varðar umhverfisvernd. Það var algengt að horfa á hana sem andstæðu við atvinnuuppbyggingu, ef ekki þröskuld í vegi framfara. Viðhorf af því tagi eru held ég á undanhaldi. Okkar sérstæða náttúra og óbyggð víðerni eru líklega helsta auðlind okkar – hvort sem það er mælt í beinhörðum peningum eða í unaðsstundum og út frá tilfinningum. Þetta kallar á aukna vinnu við að byggja upp þjóðgarða og verndarsvæði, sem tryggja vernd viðkvæmrar náttúru og að við getum tekið vel á móti straumi náttúruunnenda, sem eru nú helsta gjaldeyrisuppspretta landsins. Allar forsendur varðandi náttúruvernd og atvinnuuppbyggingu hafa í raun gjörbreyst með auknum fjölda ferðamanna, en hugsun okkar og aðgerðir stjórnvalda hafa stundum verið skrefi á eftir.

Þannig skynja ég viðhorfsbreytingu hvað varðar loftslagsmál, plastmengun, matarsóun og mikilvægi þjóðgarða og friðlýstra svæða, svo eitthvað sé nefnt. Áhuginn sést hve best á aukinni þátttöku almennings og félagasamtaka sem átt hefur frumkvæði með verkefnum eins og Plastlausum september, Hreinsum Ísland, og því að koma hugmyndinni um miðhálendisþjóðgarð á kortið. Ég vona að almenningur haldi stjórnvöldum með þessu móti áfram við efnið.

Umhverfismálin snúast ekki um einhverja óljósa og fjarlæga framtíðarógn, heldur um hvað við getum gert í dag til að gera jörðina okkar lífvænlega fyrir næstu og þar næstu kynslóð. Það er skylda okkar.
Viljinn er mikill. Ég hef ekki verið þekktur fyrir að vera mikill virkjanasinni, og því skal það upplýst að viljann og kraftinn í umhverfis- og náttúruvernd vil ég þó virkja þannig að stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur geti tekið höndum saman um góð verkefni á sviði umhverfismála. Ég þakka þeim kærlega sem stóðu fyrir þessu góða framtaki og vona að hér verði góð og gagnleg umræða um mál sem brenna á mér og stórum hluta íslensku þjóðarinnar.

Takk fyrir,


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta