Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. mars 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi ÍSOR 2018

Gott fólk, 

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ársfund ÍSOR.

ÍSOR er ein af lykilstofnunum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og gegnir veigamiklu hlutverki fyrir íslenskt samfélag. Eins og við munum fræðast um hér á eftir sinnir stofnunin fjölbreyttum grunn- og hagnýtum rannsóknum á sviði jarðrænna auðlinda, en þar undir teljast meðal annars jarðefni og grunnvatn. Ekki má gleyma jarðhitarannsóknum en óhætt er að segja að ÍSOR sé eitt fremsta þekkingarsetur heims á því sviði.

Jarðhitanum eigum við sem þjóð mikið að þakka en án hans hefði okkur ekki tekist að byggja upp nútímalegt samfélag sem reiðir sig nær eingöngu á endurnýjanlega orku til húshitunar, að ekki sé minnst á allar sundlaugarnar og heitu pottana sem ylja okkur á köldum vetrarmorgnum eins og í dag. Án þessarar orkuuppsprettu þyrftum við að reiða okkur á olíu og annað jarðefnaeldsneyti í mun ríkara mæli en nú er og leiðin að markmiðum Parísarsamkomulagsins væri önnur og erfiðari. Þetta eigum við ekki aðeins landinu okkar sjálfu og náttúru þess að þakka heldur ekki síst framúrskarandi vísindafólki sem hefur í gegnum tíðina rannsakað jarðhitaauðlindina og með þrautseigju og útsjónarsemi fundið leiðir til hagnýtingar hennar.

Núverandi ríkisstjórn lítur á það sem eitt af sínum höfuðmarkmiðum að Ísland geri enn betur en Parísarsamkomulagið segir til um. Stefnan er sett á öflugan og varanlegan samdrátt í útblæstri en einnig á kolefnisbindingu. Markmiðið er kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040. Eitt af erindunum núna á eftir mun einmitt fjalla um kolefnishlutlaust Ísland og hlakka ég til að heyra um sýn ÍSOR á það aðkallandi verkefni.

Löng leið er fyrir höndum í þeirri vegferð en ríkisstjórnin hefur þegar tekið fyrstu skrefin: Í liðinni viku kynnti ríkisstjórnin áform um að vinna að stefnu um kolefnishlutleysi Stjórnarráðsins. Í kjölfarið verður unnin aðgerðaáætlun til að tryggja að það markmið náist. Dregið verður úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í starfsemi Stjórnarráðsins og það kolefni sem út af stendur verður bundið. Vonir standa til þess að þetta verkefni verði stofnunum ríkisins til stuðnings og fyrirmyndar og einnig vonumst við til þess að einkageirinn og almenningur taki þátt í verkefninu á sínum forsendum. Nokkur fyrirtæki og sveitarfélög hafa þegar birt áætlanir sínar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Til að ná jafn umfangsmiklu markmiði og kolefnishlutleysi fyrir landið allt er þurfa allir að leggjast á eitt. Mikilvægt er að stofnanir, atvinnugreinar, fyrirtæki og sveitarfélög setji sér loftslagsmarkmið og þá stefnir ríkisstjórnin að því að allar stærri áætlanir ríkisins verið metnar út frá loftslagsmarkmiðum. Kolefnishlutleysi má ná með ýmsum aðgerðum: Varanlegum samdrætti í útblæstri eins og áður er nefnt og einnig með breyttri landnotkun.

Einnig þurfum við að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að mæta orkuþörf framtíðar og þar á íslenska þjóðin hauk í horni þar sem ÍSOR er. Betri nýting á þeim hluta auðlindarinnar sem nú þegar hefur verið nýttur hlýtur að vera keppikefli okkar. Má þar nefna bæði sjálfbærari vinnsluaðferðir og styrkingu flutningskerfis raforku.

En hvaða þátt getur og mun ÍSOR eiga í þessum breytingum? ÍSOR hefur ekki einungis sinnt hagnýtingu jarðhita hér heima og erlendis heldur hefur stofnunin sinnt grunnrannsóknum á sínu sviði. Undanfarin ár hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir á djúpborunum, þar sem borað er dýpra niður í rætur jarðhitakerfa en áður var tæknilega mögulegt. Þannig næst umtalsvert meiri orka úr hverri holu. Einnig er horft til þess að í framtíðinni verði tæknilega mögulegt að finna og virkja háan jarðhita utan eiginlegra jarðhitasvæða og draga þannig mjög verulega úr óæskilegum sjónrænum áhrifum á perlur íslenskrar náttúru, háhitasvæðin.

ÍSOR hefur einnig lagt sitt af mörkum í rannsóknum á jarðhita á svo kölluðum köldum svæðum og náð eftirtektarverðum árangri. Má þar nefna jarðhitaleitina við Hoffell í Hornafirði, sem hefur nú skilað þremur djúpum holum sem nota má til vinnslu og rannsókna. Óskandi er að viðlíka verkefni annars staðar á landinu skili sambærilegum árangri.

Náttúruauðlindir eru margskonar, m.a. það sem við köllum jarðrænar auðlindir. ÍSOR er ein mikilvægasta stofnun landsins á sviði jarðrænna auðlinda eins og ég gat hér í upphafi. Það er afar mikilvægt að mínu mati að fá yfirlit yfir jarðfræði og jarðrænar auðlindir sem stenst kröfur nútímans. Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur verið unnið að því í nokkurn tíma að koma á fót svokölluðu bókhaldi náttúruauðlinda og í stjórnarsáttmála kemur skýrt fram að ríkisstjórnin hafi fullan hug á því að halda þessari vinnu áfram. Bókhald yfir auðlindir landsins er tæki til að stuðla að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu auðlinda ekki síður en að vernda þær.

Auðlindir á hafsbotni eru ekki síður mikilvægar en auðlindir á landi. Mikið af þeim jarðefnum sem notuð eru í byggingaframkvæmdum, vegagerð og annarri mannvirkjagerð kemur af hafsbotni þar sem efnistökusvæðum á landi er farið að fækka. Fyllsta ástæða er til að fara varlega í sakirnar og rannsaka þau hafsvæði þar sem efnistaka fer fram til að tryggja að ekki verði óbætanlegur skaði á lífríki hafsins á þeim svæðum. Á yfirstandandi þingi hyggst ég leggja fram frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Meiningin er að skipulag nái til svæða utan netlaga, þ.m.t. efnistökusvæða í hafi.

Grunnvatn er ein mikilvægasta auðlind Íslands. Við eigum sum stærstu lindasvæði í heimi og fyllsta ástæða er til að huga að verndun þeirra og tryggja sjálfbæra nýtingu á þessari gríðarlega dýrmætu auðlind. Oft hefur verið sagt að næsta heimsstyrjöld muni snúast um aðgengi að hreinu vatni og Ísland ber skyldur gagnvart umheiminum að vernda vatnsauðlindina og skila henni hreinni, ómengaðri og óskertri til komandi kynslóða.

Gott fólk.

ÍSOR hefur tvímælalaust mikilvægu hlutverki að gegna hér heima. Gæði rannsókna ÍSOR eru mjög mikil og gegnir mannauður stofnunarinnar meginhlutverki í velgengni í öllu samstarfi. Rannsóknir á jarðhita og aðkoma ÍSOR að jarðhitaverkefnum erlendis er mikilvægt og verðmætt dæmi þess hvernig Ísland getur lagt sitt af mörkum á alþjóðavettvangi til að stuðla að uppbyggingu endurnýjanlegrar orku og dregið þar með verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ég óska ykkur áframhaldandi velfarnaðar og hlakka til að fylgjast með fjölbreyttum verkefnum ÍSOR.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta