Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á vorfundi Landsnets

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á vorfundi Landsnets 14. mars 2018

Kæru ársfundargestir.

Ég vil þakka Landsneti innilega fyrir að bjóða mér að ávarpa fundinn. Ég er mjög áhugasamur um það sem nafni minn forstjórinn sagði um stýringu á því hvenær við notum orkuna, um orkusparnað og um loftslagsmálin. Ég er ánægður að sjá áherslu á þau mál.

Ég ætla að koma stuttlega inn á þrjá þætti sem ég tel að skipti máli til að ná meiri sátt um flutningskerfi raforku á Íslandi.

Í fyrsta lagi um umhverfisáhrif.
Umhverfisáhrif af rafmagnslínum má kannski einfalda niður í annars vegar sjónræn áhrif og hins vegar rask, sérlega jarðrask. Sjónrænu áhrifin má nær losna við með jarðstrengsvæðingu, eins langt og tæknilegir annmarkar leyfa, en loftlínur og jarðstrengir hafa hvoru tveggja í för með sér jarðrask. Slíkt jarðrask er misalvarlegt eftir undirlagi. Þannig hefur verið bent á að jarðstrengir valdi óafturkræfum áhrifum í hrauni því það þarf að brjóta það til að setja strenginn niður. Það er alveg rétt. En það hefur minna farið fyrir því í umræðunni að loftlínur hafi eyðileggjandi áhrif á slík fyrirbæri þó svo að það sé augljóst því vegur er lagður meðfram loftlínum og að hverju mastri (sem ekki þarf með öllum jarðstrengjum erlendis a.m.k.), auk þess sem stög loftlína eru steypt niður í undirlagið. Höldum því þess vegna til haga að hvoru tveggja, loftlínur og jarðstrengir valda óafturkræfum áhrifum í hraunum. Þetta skiptir máli við gerð mats á umhverfisáhrifum.

Kæru- og dómsmál sem staðið hafa um lagningu háspennulína Landsnets hafa snúist um umhverfismál, eða í stuttu máli sagt um það að jarðstrengir hafi ekki verið metnir til jafns á við loftlínur í umhverfismati. Í lögunum um mat á umhverfisáhrifum er nokkurskonar „gildistími“ umhverfismats og er hann 10 ár eftir að álit Skipulagsstofnunar er gefið út. Á þeim tíma geta stjórnvöld ekki ákveðið að endurskoða beri umhverfismatið sama þó svo að það geti verið orðið úrelt um einhverja þætti, þó svo að framkvæmdaraðili geti auðvitað alltaf ákveðið að endurgera eigið umhverfismat. Í kæru- og dómsmálum hefur einmitt reynt á það að umhverfismat hafi ekki tekið inn mat á áhrifum jarðstrengja og því hafi matið verið orðið úrelt þó svo að tíu árin hafi ekki verið liðin. Því sé ekki um að ræða samanburð allra raunhæfra valkosta. En svona lærum við af reynslunni. Mikilvægt er að taka á þessari 10 ára reglu í lögunum og stytta tímann. Þetta er nú til skoðunar í ráðuneyti mínu.

Að lokum undir umhverfisáhrifum vil ég benda á að jarðstrengir í meginflutningskerfinu eru takmörkuð auðlind því ekki er hægt að setja það allt í jörðu. Þess vegna þarf Landsnet í samráði við sveitarfélög á fleiri en einni línuleið að útdeila þessari takmörkuðu auðlind. Um þetta er gerð tillaga í þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra um uppbyggingu raforkukerfisins sem nú liggur fyrir Alþingi. Það ætti að skapa meiri sátt.

Í öðru lagi um kostnað.
Kostnaður er þáttur sem nokkuð hefur verið þráttað um frá ýmsum sjónarhornum. Ég hef í þeirri umræðu undrað mig nokkuð á því hvers vegna ekki er gert meira af útreikningum sem snúa að þjóðhagslegri hagkvæmni stórra framkvæmda eins og 220 kV raflína, þar sem tekið er tillit til s.k. umhverfiskostnaðar eða umhverfistjóns. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði hefur m.a. bent á að gera verði þá kröfu til opinberra fyrirtækja að þau leitist ávallt við að haga starfi sínu í samræmi við þjóðarhag. Ég velti því fyrir mér hvort að slíkar greiningar ættu að vera hluti af mati á umhverfisáhrifum stórra og umdeildra framkvæmda. Slíkt gæti stuðlað að meiri sátt um framkvæmdir. Mun ég líta til þess í vinnu að heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum sem ég hyggst ráðast í snemma á kjörtímabilinu. Þá er umhverfiskostnaður eitt af því sem orkustefna sem iðnaðarráðherra nefndi mun líta til.

Í þriðja lagi langar mig að koma inn á eignarhald á Landsneti.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2015 og í eftirfylgniskýrslu hennar frá í febrúar á þessu ári er komið inn á mikilvægi þess að tryggja þurfi sjálfstæði Landsnets gagnvart aðilum á raforkumarkaði. Ég tek heilshugar undir þetta og umræðuna um eignarhald þarf að hefja og leiða til ákvarðana. Ég tel að fyrirtækið eigi að vera í almannaeigu og að Landsneti sé sett eigendastefna.

Að lokum vil ég nefna það að ríkisstjórnin vill að raforkuöryggi verði styrkt og það er forgangsverkefni að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í því sambandi þarf að tengja betur lykilsvæði og þar þarf að skoða sérstaklega að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi. Ég hef litið til þess að tveimur svæðum eigi að forgangsraða þegar kemur að þessum málum, annarsvegar að efla raforkuöryggi á Vestfjörðum, þ.m.t. með aukinni jarðstrengjavæðingu en ljóst er að válynd veður hafa mest áhrif á raforkuöryggi á svæðinu. Hitt er að auka framboð raforku á Eyjafjarðarsvæðinu og þar hefur verið litið til sterkari tenginga við Kröflu (og þar með Þeistareyki) og áfram í Fljótsdal.

Að lokum lokum vil ég nefna það að ég tel bráðnauðsynlegt að stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur sameinist um það að leita leiða til að styrkja þátttöku almennings fyrr í ferli ákvarðanatöku. Þessu hafa fyrirtækin kallað eftir og þessu hafa almenningur og félagasamtök kallað eftir. Ég vona svo sannarlega að þær tilraunir Landsnets að fá fleiri að borðinu snemma í ferlinu muni skila meiri sátt. Ég mun jafnframt beita mér fyrir því að við getum með einhverju móti styrkt þessa snemmþátttöku í samræmi við Árósasamninginn og heilbrigða skynsemi.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta