Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. mars 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra - Kolefnishlutlaust Stjórnarráð

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 28. mars 2018.

 

Kolefnishlutlaust Stjórnarráð

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að kolefnishlutlausu Íslandi árið 2040. Ríkisstjórnin samþykkti nýlega að setja Stjórnarráðinu loftslagsstefnu og útbúa aðgerðaáætlun sem hefur það að markmiði að gera starfsemi ráðuneyta Stjórnarráðsins kolefnishlutlausa. Verkefnisstjóri mun leiða þessa vinnu og jafnframt veita stofnunum hins opinbera fræðslu og ráðgjöf í þessum efnum. Með ákvörðun sinni sýnir ríkisstjórnin gott fordæmi í loftslagsmálum, en aðgerðin er hluti af heildaraðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sem kynnt verður síðar á árinu.

Aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, þar með talið koltvísýrings, veldur hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum. Spáð er mjög neikvæðum áhrifum á lífríki og efnahag þjóða heims ef ekki verður gripið til aðgerða. Markmiðið um kolefnishlutleysi er því skýr skilaboð um að Ísland ætlar að skipa sér í framvarðasveit í loftslagsmálum.

Til að ná kolefnishlutleysi og leggja þannig drjúgan skerf til umhverfismála þarf annars vegar að draga eins mikið og hægt er úr útlosun gróðurhúsalofttegunda frá öllum geirum samfélagsins með hugviti og tækniframförum, grænni nýsköpun og umhverfisvænni neysluvenjum. Hins vegar, til að koma útlosuninni í núllið (kolefnishlutleysi), þarf að ráðast í aðgerðir sem tengjast ekki beint viðkomandi geira eða starfsemi. Slíkar aðgerðir eru til dæmis landgræðsla og skógrækt því þar er koltvísýringur bundinn í gróðri og jarðvegi með ljóstillífun plantna. Það að moka ofan í skurði og koma þannig í veg fyrir útlosun koltvísýrings er önnur leið. Aðgerðir sem þessar geta jafnframt náð fram öðrum markmiðum í umhverfismálum og náttúruvernd, s.s. endurheimt birkiskóga, votlendis og annarra landgæða. Það er auðvitað sérlega jákvætt.

Stjórnvöld munu aldrei leysa áskoranir í loftslagsmálum ein og sér, en þau þurfa að sýna frumkvæði, kjark og elju. Frumkvæði nokkurra sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka sem hafa tekið upp stefnu um kolefnishlutleysi er til mikillar eftirbreytni. Ég vonast til að þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar komi Stjórnarráðinu fljótt og örugglega í hóp þeirra metnaðarfyllstu og við munum styðja við stofnanir okkar í þessari sömu viðleitni. Saman þarf svo samfélagið að leggjast á árarnar og róa í takt. Ég hlakka til að vinna að því markmiði með sem flestum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta