Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi NÍ 2018

Settur forstjóri, ágætu starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands og aðrir góðir gestir.

Það er mér bæði heiður og ánægja að fá að ávarpa ykkur hér á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka ykkur á Náttúrufræðistofnun fyrir afar góðar móttökur þegar ég heimsótti ykkur í vetur í framhaldi þess að ég tók við starfi umhverfis- og auðlindaráðherra. Það var sannarlega upplýsandi og áhugavert að heimsækja stofnunina og fá þannig frekari innsýn í ykkar fjölbreytta starf í þágu aukins skilnings og þekkingar á íslenskri náttúru.

Náttúrufræðistofnun Íslands gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Öll umgjörð starfseminnar er til fyrirmyndar í Urriðaholtinu og eins eruð þið öflugur hópur sérfræðinga með mikla sérþekkingu á flestu sem lítur að náttúru landsins. Vísindaleg þekking á náttúrunni er grundvöllur allrar ákvarðanatöku um vernd og nýtingu hennar og þar gegnið þið á Náttúrufræðistofnun lykilhlutverkefni.

Ágætu gestir;
Ég vil víkja að nokkrum áherslumálum, sem ég hyggst stuðla að á næstu árum og tengjast náttúru Íslands. Sérstök áhersla verður lögð á loftslagsmál og málefni náttúruverndar og eru ýmis mál komin þegar í ákveðna vinnslu í ráðuneytinu. Tengjast þau mörg jafnframt ákvæðum í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Vík ég hér að málefnum náttúruverndar sérstaklega.

Í fyrsta lagi má nefna áherslur sem tengjast friðlýsingum. Þar vil ég nefna vinnu við stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sem nú er að hefjast; sérstakt átak í friðlýsingu svæða sem þegar hafa verið ákvarðaðar s.s. skv. rammaáætlun og náttúruverndaráætunum og svo framlagningar þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár (B-hluta), sem ég stefni að næsta vetur á grunni tillögugerðar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þessi verkefni eru komin í ákveðinn undirbúning í ráðuneytinu, en kalla á samræmingu, þar sem ýmis þessara verkefna skarast. Jafnframt vil ég nefna að samhliða þessu er ætlunin að vinna að verkefnum sem lúta að því að draga betur fram hvaða efnahagslegu tækifæri geta falist í friðlýsingu svæða og styrkingu byggðar. Í sumar verða unnar rannsóknir á efnahagslegum áhrifum valinna friðlýstra svæða til að draga betur fram efnahagsleg áhrif þeirra og mikilvægi. Í náttúruvernd felast nefnilega fjölmörg tækifæri fleiri en verndun náttúrunnar, ólíkt því sem stundum er haldið fram. (Hef ég í þessu sambandi oft nefnt dæmi af nýlegri rannsókn á efnahagslegum áhrifum af þjóðgarðinum Snæfellsjökli).

Í öðru lagi stefni ég að því að sameina verkefni náttúruverndar undir einn hatt, en slíkt tekur til starfsemi núverandi þjóðgarða og friðlýstra svæða hið minnsta. Vonast ég til að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis á haustþingi. Slík stofnun er afar mikilvæg til að styrkja utanumhald, skipulag og framkvæmd náttúruverndar hérlendis.

Í þriðja lagi verður landvarsla og umsjón með náttúruverndarsvæðum og þá sérstaklega þeim sem eru undir miklu álagi vegna aukinnar umferðar ferðamanna, efld til muna. Gerist það á grundvelli nýs stjórntækis sem við erum að innleiða og heitir landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Í fjórða lagi hef ég í hyggju að vinna að eflingu á verkefnum tengdum vöktun og rannsóknum á náttúru landsins. Vöktun er verkefni sem oft vill verða útundan, en bæði náttúruverndarlögin og aukinn ágangur ferðamanna kalla beinlínis eftir þessu. Í þessu sambandi sé ég m.a. fyrir mér sóknarfæri fyrir Náttúrustofur í landinu, en ég tel afar mikilvægt að geta eflt þær í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Eins vil ég nefna áhuga minn á að efla þekkingu á sviði jarðfræði og jarðminja landsins og mun leita leiða til að efla þá starfsemi. Ísland býr yfir svo ótrúlega fjölbreyttri og sérstæðri jarðfræði sem þarf að vinna með á skipulegan hátt. Því tengist auðvitað hið metnaðarfulla verkefni að tilnefna Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO, fyrst og fremst vegna jarðfræðilegar sérstöðu á heimsvísu. Það verður áhugavert að fylgjast með framgangi þess, en væntanlega liggur niðurstaða fyrir úr því um mitt næsta ár.

Í fimmta lagi verður ráðist í endurskoðun á villidýralögunum sem tengist mjög starfsemi ykkar. Þar er og leitað í smiðju ykkar á Náttúrufræðistofnun, ásamt fleiri aðila. Stefnt er að því að hefja þá vinnu í síðasta lagi næsta vetur með það að markmið að tryggð verði betur vernd, stjórnun og sjálfbær nýting á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Í sjötta lagi hyggst ég taka sérstaklega upp vinnu við málefni sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni. Ber þar fyrst að nefna markmið í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og endurgerð framkvæmdaáætlunar um stefnumörkum í málaflokknum.

Í sjöunda lagi verður rík áhersla lögð á að styrkja innviði á ferðamannastöðum, svæðum og leiðum í íslenskri náttúru. Á mánudag mælti ég fyrir stefnumótandi landsáætlun um uppbyggingu innviða í tengslum við náttúru- og menningarminjar á Alþingi sem mótar umgjörð fyrir þessi mál til næstu tólf ára. Samhliða þessu hef ég sett fram þriggja ára verkáætlun um innviðauppbyggingu og aukna landvörslu. Sem hluti af þessari áætlun ákváðum ég og ferðamálaráðherra að setja sérstakt fjármagn í að styrkja faglega getu til að passa að innviða uppbygging sé í sem mestri sátt við landslag og náttúru landsins.

En eru þetta bara fögur orð á blaði? Nei, ekki eingöngu. Og sný ég mér þá að fjármögnun hluta þeirra verkefna sem hér hafa verið listuð upp. Á fjárlögum ársins 2018 komu inn 36 milljónir króna til þriggja ára í átaksverkefni til að takast á við friðlýsingabunkann sem safnast hefur upp á undanförnum árum. Í fjármálaáætlun sem lögð var fram á Alþingi eftir páska kemur fram að aukning til náttúruverndar á næstu fimm árum verður 7,5 milljarðar. Stærstur hluti þess fer til verndar íslenskrar náttúru á ferðamannastöðum, þ.m.t. til uppbyggingar innviða, faglegra málefna í tengslum við það, vöktunar og frekari friðlýsinga. Nokkur hluti fjármagnsins er sérstaklega ætlaður til að efla landvörslu og hluti fer í að byggja upp þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Ég hygg að ekki hafi áður sést viðlíka aukning til þessa málaflokks, þó svo að eftir sé að tryggja hluta þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan fjármuni.

Góðir gestir;
Hagur framtíðar veltur á skynsömum ákvörðunum í nútíð og fortíð. Þau atriði sem ég nefndi hér að ofan eru öll dæmi um stefnumið og ákvarðanir sem mikilvægar eru fyrir framtíðina. Þjóðgarður á miðhálendinu er dæmi um slíka ákvörðun að mínu mati. Ég er sannfærður um að hún mun skila meiru í ríkiskassann og meiru fyrir hinar dreifðu byggðir landsins en mörg önnur landnýting á svæðinu. Og slík ákvörðun mun skila miklu fyrir hjartað í okkur. Ferðaþjónustan hefur reynst okkur mikilvæg í efnahagslegum skilningi og hún hefur skilað meiri skilningi á mikilvægi náttúruverndar. Þess vegna er líka góð ákvörðun að veita fjármagni í uppbyggingu innviða þar sem það á við.

Ég vil endurtaka þakkir fyrir boðið hingað á ársfundinn og hlakka til að vinna með ykkur að góðum verkum í þágu náttúru landsins og samfélagsins alls á komandi árum,
Takk fyrir,


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta