Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein umhverfis- og auðlindaráðherra - Stórauknar fjármheimildir til umhverfismála

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 25. apríl 2018.

 

Stórauknar fjárheimildir til umhverfismála

Dagur umhverfisins er í dag haldinn hátíðlegur í tuttugasta sinn. Því er ekki úr vegi að víkja að áskorunum og tækifærum sem framundan eru í umhverfismálum. Ég hef einsett mér að setja nokkur mál á oddinn í ráðherratíð minni: Loftslagsmál, náttúruvernd, plastmengun, neyslumál og aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku í umhverfismálum. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða framlög til umhverfismála aukin um 35% á næstu fimm árum miðað við árið 2017. Hér geri ég loftslagsmál og náttúruvernd að umtalsefni.

Stærsta áskorun samtímans er að halda meðalhlýnun jarðar á þessari öld innan við 2°C og helst innan við 1,5°C. Ríkisstjórn Íslands setur markið hátt og hyggst ná fram 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Í júní tekur Loftslagsráð til starfa, Loftslagssjóður verður settur á laggirnar á árinu til að styrkja nýsköpun og rannsóknir og unnið er að heildstæðri aðgerðaáætlun til að draga úr útlosun og binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Á næstu fimm árum verður varið tæpum sjö milljörðum króna til loftslagsmála.

Náttúruverndin mun skipa stóran sess á kjörtímabilinu. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um átak í friðlýsingum og stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Nýverið skipaði ég þverpólitíska nefnd um miðhálendisþjóðgarð. Mörg tækifæri fyrir byggðaþróun eru fólgin í þessari ráðstöfun, enda hafa rannsóknir sýnt að þjóðgarðar skila miklum tekjum í þjóðarbúið og til hinna dreifðu byggða. Samtímis verður að hlúa að ferðamannastöðum sem eru undir stöðugu álagi ferðamanna. Um það vitna nauðsynlegar lokanir svæða nú þegar frost er að fara úr jörðu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er áætlað að auka fjárframlög til náttúruverndar um rúma sjö milljarða króna á næstu fimm árum og fer stór hluti fjármunanna til uppbyggingar innviða til verndar náttúru á ferðamannastöðum, í landvörslu, þ.m.t. heilsárslandvörslu og til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands svo eitthvað sé nefnt.

Til hamingju með Dag umhverfisins.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta