Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. október 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Róttækra breyinga er þörf

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 19. október 2018.

 

Róttækra breytinga er þörf

Hvernig verður lífið á Jörðinni árið 2118? Hækki hitastig jarðar um að meðaltali 2°C frá upphafi iðnbyltingar blasir afar dökk mynd við, samkvæmt skýrslu milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar. Meðalhiti hefur þegar hækkað um 1°C og markmiðið verður að vera að fara ekki yfir 1,5°C.

Á fundi umhverfisráðherra Norðurskautsríkjanna sem fram fór í Finnlandi í síðustu viku var umrædd skýrsla í brennidepli og sú staðreynd að Norðurskautið hitnar tvöfalt hraðar en meðaltalið á Jörðinni. Á fundinum var ekki síst áhrifaríkt að heyra fulltrúa frumbyggjasamtaka allt í kringum Norðurskautið lýsa því hvaða breytingar hafa þegar átt sér stað. Þau sögðu sögur af skógareldum, votlendi sem hefur horfið, dýrahjörðum sem hegða sér öðruvísi en áður og ám sem eitt sinn voru ísi lagðar stóran hluta árs en eru í dag orðnar farartálmar því ísinn hefur bráðnað.

Samhljómur fólks frá Alaska, nyrstu svæðum Kanada, fulltrúa Ínúíta, Sama og fólks frá Síberíu var algjör: Loftslagsbreytingar eru ekki eitthvað sem snertir einhverja aðra í fjarlægri framtíð. Þær eru nú þegar allt umlykjandi í lífi þeirra.

Jarðefnaeldsneyti verður að víkja

Skýrslan um loftslagsbreytingar er sláandi lesning en sýnir jafnframt að ef við grípum til róttækra aðgerða getum við sannarlega haft áhrif á þróunina. Jarðefnaeldsneyti verður meðal annars að víkja og binda þarf koltvísýring úr andrúmslofti í stórum stíl. Í fyrstu útgáfu af nýútkominni aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hér á landi er einmitt lögð áhersla á orkuskipti í samgöngum og kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.

Samkvæmt loftslagsskýrslunni þurfum við að ná kolefnishlutleysi á Jörðinni árið 2050. Hér á landi höfum við sett okkur það markmið tíu árum fyrr – árið 2040. Við þurfum öll að leggjast á árarnar, ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og fólkið í landinu, ég og þú. Eins og bent hefur verið á erum við sem nú lifum á Jörðinni fyrsta kynslóðin sem upplifir þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað og sú seinasta sem getur komið í veg fyrir þær.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta