Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á kynningu á vegvísi Hafsins um vistvænan sjávarútveg
Góðir gestir,
Það er gott að fá tækifæri til að segja nokkur orð hér í upphafi kynningar á nýjum Vegvísi um vistvænan sjávarútveg. Vegvísirinn er unninn af Hafinu – öndvegissetri, sem er samstarfsvettvangur fjölmargra aðila í atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og hjá hinu opinbera. Samtal aðila úr ólíkum áttum er alltaf af hinu góða og er sérstaklega mikilvægt þegar um jafn margslungin mál er að ræða og loftslagsmál og góða umgengni við hafið.
Hér var fyrir skömmu kynntur nýr samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins um loftslagsmál og grænar lausnir. Það er mikilvægt skref, því við náum ekki árangri nema með samstilltu átaki sem flestra í samfélaginu. Það er afar ánægjulegt að sjá framsýni í forystu atvinnulífsins varðandi loftslagsmál.
Það krefst stundum skammtímafórna til að ná árangri til lengri tíma og það á vissulega við um loftslagsmálin. Með útsjónarsemi er þó hægt að lágmarka kostnaðinn og raunar felur sókn til loftslagsvænni framtíðar í sér margvíslegan ábata annan í leiðinni – betri loftgæði, endurheimt landgæða, atvinnutækifæri í nýsköpun, jákvæða ímyndarsköpun, svo dæmi séu tekin. Mér sýnist ljóst að íslenskt atvinnulíf hafi tekið ákvörðun um að vera hluti af lausninni í loftslagsmálum. „Það er þörf á nýrri hugsun og nýrri tækni til að ná árangri“, sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, við stofnun vettvangsins. Það er rétt – og það á við í sjávarútvegi jafnt sem öðrum atvinnugreinum.
En hvernig hefur sjávarútvegurinn staðið sig í loftslagsmálum? Almennt séð held ég að sanngjarnt svar sé: Vel. Lítum á tölur varðandi losun frá fiskiskipum. Hún náði hámarki árið 1996 og var þá hátt í eina milljón tonna af koldíoxíði. Losunin hélst meiri frá skipum en frá bílum allt til 2005, en hefur farið minnkandi flest undanfarin ár og er nú rúmlega hálf milljón tonna. Samdrátturinn er rúmlega 40% ef miðað er við hámarksárið.
Þróunin í fiskimjölsframleiðslu er kannski enn markverðari. Þar hafði greinin frumkvæði að því að rafvæða verksmiðjur, sem brenndu afar mengandi svartolíu. Stundum varð bakslag vegna verðþróunar á olíu og rafmagni, en slíkt má einfaldlega ekki henda aftur. Það er ekki bara loftslagsvænna að nota innlenda raforku, heldur batna loftgæði, gjaldeyrir sparast og það er betra að vinna í bræðslunum. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er gert ráð fyrir að öll fiskimjölsframleiðsla sé rafvædd fyrir 2030.
Góðir gestir,
Er sjávarútvegurinn þá í góðum málum og þarf ekki að gera meira? Stutta svarið við því er: Nei. Það er raunverulegt neyðarástand fram undan í heiminum ef við náum ekki árangri gegn loftslagsvánni og þeirri hamfarahlýnun sem er hafin. Þar verða þróuð lönd að ganga fram fyrir skjöldu. Það er krafa á okkur að ná árangri – ekki bara sums staðar, heldur á öllum sviðum.
Nýútkomin losunarspá Umhverfisstofnunar spáir aukningu í losun frá sjávarútvegi á komandi árum og að hún verði meiri árið 2030 en er nú. Aukin losun á komandi áratug, en ekki minnkun. Hvernig má það vera? Jú, árangurinn sem náðst hefur á undanförnum árum er að miklu leyti kominn til með betra skipulagi veiða og að hætt er sækja á ýmis fjarlæg mið. Orkuskipti á sjó eru hins vegar á byrjunarreit, á meðan þau eru komin á góða siglingu á landi. Ný tækni er skemmra á veg komin í skipum en í bílum.
En hún er þó til. Og við sjáum græna sprota. Nýr Herjólfur mun ganga fyrir rafmagni. Vetni hefur verið reynt á ljósavélar á skipum. Rafvæðing í höfnum hefur aukist á undanförnum árum, en þarf að styrkja. Íslenskar útgerðir hafa reynt vistvænt eldsneyti, s.s. repjuolíu og notaða matarolíu.
Við þurfum að hlúa að þessum grænu sprotum og ná árangri í orkuskiptum á sjó. Alþingi hefur samþykkt markmið um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í haftengdri starfsemi árið 2030. Ég tel okkur þurfa að ná lengra en það.
Góðir gestir,
Hvernig náum við markmiðum um minni losun frá sjávarútvegi? Jú, þar kemur vegvísir Hafsins til sögunnar. Hann er ekki unninn af stjórnvöldum, heldur af Hafinu, sem er vettvangur samtals og hugmynda ýmissa aðila. Það er von mín að hann skapi grunn að umræðu og aðgerðum til að draga úr losun frá skipum og haftengdri starfsemi. Ég vil gjarnan sjá eftirfylgni með þeim góðu hugmyndum sem hér eru settar fram og hefur ráðuneytið gert samning við Hafið um slíka eftirfylgni, með málstofum og öðru.
Stjórnvöld geta gert ýmislegt og eru að gera ýmislegt. Við höfum sett fram drög að reglugerð um hertar reglur um eldsneyti í landhelgi Íslands, sem mun í raun banna notkun svartolíu þar. Það er þó von mín að við náum settu marki með virkri aðkomu greinarinnar og í samvinnu ólíkra aðila. Það er í anda nýstofnaðs samráðsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs. Það er í anda þeirra frumkvöðla sem rafvæddu fiskimjölsverksmiðjur. Og ég vil segja að það sé í anda þeirrar hugsunar sem íslenskur sjávarútvegur vill vera þekktur fyrir – fyrirhyggju og góðrar umgengni við auðlindina.
Við stærum okkur gjarnan af því Íslendingar að stunda vísindalega fiskveiðistjórnun, þar sem langtímanýting fiskstofna er sett í öndvegi en ekki mögulegur skammtímagróði útgerða. Sú er ekki raunin alls staðar í heiminum. Það skiptir Ísland máli að hafa góða ímynd varðandi sjálfbærar fiskveiðar og að sú ímynd sé grunduð í raunveruleikanum.
Fiskveiðar eru ekki sjálfbærar ef áfram heldur sem horfir með stjórnlítilli losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsváin er ekki bundin við andrúmsloftið, hún er mikil ógn við hafið og lífkerfi þess. Hafísinn hverfur, hafstraumar breytast og fiskstofnar færa sig til. Mesta ógnin er þó kannski súrnun hafsins. Verstu spár gera ráð fyrir að kóralrif geti dáið út á heimsvísu fyrir aldarlok og að lífríki hafsins geti umturnast. Ekkert gagnast til að draga úr súrnun hafsins annað en að draga úr losun koldíoxíðs, að því að við vitum.
Í því ljósi er mikilvægt að sjávarútvegur taki skref til að vernda auðlindina sem hann byggir á. Og mér fyndist frábært ef íslenskur sjávarútvegur getur verið þar ekki bara virkur þátttakandi, heldur í forystuhlutverki. Ég hef skilning á því að sjávarútvegurinn er í alþjóðlegri samkeppni og við getum ekki breytt flotanum á augabragði, þannig að hann gangi allur fyrir lífdísel og rafmagni. Ég hef skilning á því að við getum ekki skipt út vetnisflúorefnum úr kælikerfum með því að smella fingrum. En ég vil sjá að við setjum markið hátt og reynum að tileinka okkur nýja tækni og nýja hugsun.
Við Íslendingar sýndum frumkvæði og framsýni varðandi vísindalega fiskveiðistjórnun. Við sýndum frumkvæði og framsýni við hitaveituvæðinguna. Hvort tveggja hefur fært okkur aukin lífsgæði og verðmæta ímynd. Við eigum að setja markið hátt þegar kemur að loftslagsvænum sjávarútvegi. Ég vil þakka það sem vel hefur verið gert í þeim efnum – og það er margt – en um leið hvetja til þess að við setjum markið enn hærra. Ég er sannfærður um að það muni þegar fram líða stundir skila íslenskum útgerðum og þjóðarbúi margvíslegum ávinningi, þótt auðvitað fylgi því kostnaður, einkum til að byrja með.
Ég vil gjarnan setjast niður með sjávarútveginum og ræða hvernig við getum náð auknum árangri í loftslagsmálum í greininni. Það mun ekki einungis koma sér vel fyrir umhverfi og náttúru, heldur líka fyrir ímynd og markaðssetningu sjávarafurða.
Það eina sem er ekki í boði er að gera ekki neitt. Ný kynslóð er að rísa upp og krefur okkur sem höfum völd og áhrif í stjórnkerfi og atvinnulífi um að hverfa frá helstefnu og tryggja þeim lífvænlega framtíð. Þar þurfa allir að leggja sitt af mörkum. Ég hlakka til að heyra meira um Vegvísi um vistvænni sjávarútveg í dag og í framtíðinni. Ég vil þakka Hafinu og öllum þeim sem komu að þessari vinnu og óska þess að Vegvísirinn og frekari umræða skili okkur í átt að vistvænni sjávarútvegi.
Takk fyrir,