Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra á Skipulagsdeginum 2019

Sæl öll,

Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hér í dag.

Yfirskrift dagsins í dag er „skipulag til framtíðar“. Með skipulagi mótum við umgjörð um daglegt líf okkar til langrar framtíðar. Skipulag er mikilvægt stjórntæki til að takast á við sameiginlegar áskoranir og þar eru loftslagsmálin mér efst í huga.

En við þurfum kannski fyrst að ræða málin út frá sýn. Af sýn okkar taka stefnumið, markmið og aðgerðir mið. Því er mikilvægt að móta sameiginlega sýn eins og samfélög hafa ítrekað gert í gegnum mannkynssöguna. Það er t.d. ákveðin sameiginleg sýn og stefna og markmið sem stjórnvöld móta hverju sinni í gegnum stjórnarsáttmála og stefnulýsingar, hvort sem er ríki eða sveitarfélög. Síðan er unnið úr því og útfært.

Ég tel mikilvægasta leiðarljósið okkar og mikilvægustu sameiginlegu sýn mannkyns vera heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar hafa ríki heims sammælst um að útrýma hungri og fátækt, vinna gegn eyðingu lands og lífríkis, takast á við hamfarahlýnun og svo mætti lengi telja. Það er í raun stórkostlegt að þessi markmið hafi hlotið samþykki ríkja heims.

Ef ég fer hingað heim og skoða stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, þá er þar að finna stóraukna áherslu á loftslagsmál og náttúruvernd. Þannig á að vinna að kolefnishlutleysi árið 2040, m.a. með því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda samkvæmt Parísarsamkomulaginu fyrir árið 2030. Það er stefnt að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, friðlýsingar í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, og aðrar mikilvægar friðlýsingar á svæðum sem lengi hafa beðið.

Allt er þetta dæmi um stefnu til langs tíma og lýsir ákveðinni sýn til lengri tíma.

En aftur að skipulagsmálum, sem eru gríðarlega mikilvægt stjórntæki á mörgum sviðum, t.d. á sviði loftslagsmála. Ákvarðanir dagsins í dag munu hafa áhrif langt inn í framtíðina og þess vegna er langtímahugsun svo mikilvæg – hugsun sem birtist sem dæmi í langtímaskipulagi samgangna á höfuðborgarsvæðinu og viðamiklu neti hleðslustöðva sem nú er verið að koma upp út um landið til að hlaða rafbíla framtíðarinnar. Þetta eru dæmi um langtímahugsun og langtímaskipulag. Loftslagsváin krefst þess að við breytum grundvallaratriðum í samfélagi okkar og það gerum við ekki nema með breyttu skipulagi til framtíðar.

Eitt af því sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á í loftslagsmálum er kolefnisbinding en hún gegnir einmitt lykilhlutverki til framtíðar. Í sumar kynntum við forsætisráðherra viðamiklar aðgerðir sem þegar eru hafnar og áætlun um aðgerðir til næstu ára. Við munum tvöfalda umfang landgræðslu og skógræktar og tífalda endurheimt votlendis. Til að ná sem mestum ávinningi fyrir loftslagið horfum við sérstaklega á aðgerðir sem beinast að landi þar sem kolefni er að tapast úr jarðvegi.

Áætlað er að þær aðgerðir sem við munum ráðast í einungis næstu fjögur ár muni skila um 50% meiri árlegum loftslagsávinningi árið 2030 en núverandi binding. Og hvað gerist ef við horfum til lengri tíma? Því hér er jú framtíðin til umræðu. Jú, árið 2050 erum við að tala um 110% aukningu frá núverandi kolefnisbindingu. Einungis vegna þeirra aðgerða sem við réðumst í nú í ár og sem farið verður í næstu þrjú árin munum við þannig binda árlega 2,1 milljón tonn af CO2 árið 2050. Til samanburðar var losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda 2,9 milljón tonn árið 2017. Við erum þannig að tala um gríðarlega viðamiklar aðgerðir í kolefnisbindingu sem hafa áhrif langt inn í framtíðina og af þeim er ég stoltur.

En, er þá bara alveg sama hvernig þessi kolefnisbinding fer fram? Þarf kannski skipulag um slíkt? Ó, já, svo sannarlega. Einmitt þess vegna er nú unnið að gera skógræktaráætlunar og landgræðsluáætlunar til næstu 10 ára. Það má kannski segja að það sé of stuttur tími, en um mikilvægar áætlanir er að ræða eftir sem áður. Í þessari vinnu er líka mikilvægt að sýn og stefna séu skýr. T.d. þarf að huga að samspili kolefnisbindingar við líffræðilega fjölbreytni. Þess vegna er það eitt af leiðarljósum þessarar vinnu að ekki megi nota ágengar framandi tegundir sem ógnað geta lífríki og líffræðilegri fjölbreytni. Áhrif á landslag er líka mikilvægt. Þessar áætlanir eru unnar þannig að fyrst birtist lýsing og áhersla er á víðtækt samráð úti í samfélaginu.

Eitt af því sem nú er unnið að undir merkjum aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum er mótun landsskipulagsstefnu um loftslag, landslag og lýðheilsu. Gert er ráð fyrir að Landsskipulagsstefna 2015-2026 gildi áfram en að umræddir þættir verði mótaðir nánar í henni. Hvernig má til dæmis beita skipulagsgerð til að draga úr losun eða stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda? Eða til að bregðast við og aðlagast þeim loftslagsbreytingum sem eru óumflýjanlegar? Hér síðar í dag fáum við að heyra af þessari mikilvægu vinnu sem ég fól Skipulagsstofnun í fyrra að ráðast í og er nú í fullum gangi hjá stofnuninni.

Kæru gestir,

Skipulagsákvarðanir dagsins í dag fela í sér umgjörð um líf komandi kynslóða langt inn í framtíðina. Undirtitill dagsins í ár er „samspil skipulags við aðra áætlanagerð um byggð, samgöngur og nýtingu lands“. Þær fjölmörgu áætlanir sem unnið er að vítt og breitt í stjórnkerfinu þurfa nefnilega að fléttast saman og vinna að sama marki – með loftslagsmálin sem grunnstoðina. Landsskipulagsstefna, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, aðalskipulag, deiliskipulag, Samgönguáætlun – allt þarf þetta að tala saman. Það er ekki endilega létt verk en það er verðugt verkefni.

Ég vona að dagurinn í dag verði okkur öllum gagnlegur, skemmtilegur og áhugaverður.

Takk fyrir og góðar stundir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta