Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðindaráðherra viðburði á vegum Stofnunar Sæmundar fróða og fl. um borgir og loftslagsbreytingar

Kæru fundargestir,

Loftslagsváin er stóra mál okkar tíma. Hamfarahlýnun af mannavöldum hefur nú þegar áhrif á lífríki Jarðar og lífskjör almennings víða um heim.

Margar nýjar skýrslur frá alþjóðasamfélaginu á síðustu misserum. Stórkostleg hreyfing almennings, sérlega ungs fólks, hefur ýtt við heimsbyggðinni á undanförnu ári.

Vísindin eru með öðrum skýr: Alvarlegar breytingar eiga sér nú stað. Þau eru enn fremur afar skýr með það að við verðum að bregðast við. Tafarlaust.

En þótt ógnin sé raunveruleg og rækilega staðfest af vísindafólki þá eru lausnirnar það líka. Nú þegar eru einfaldlega fjölmargar lausnir þarna úti. Lausnir sem við vitum að virka. Hversu langt náum við með því að taka þær og nota þær annars staðar – sem allra víðast?

Einmitt til að hjálpa til við að svara þessu er verkefnið „Green to scale“ afar mikilvægt. Við þurfum ekki öll, alls staðar, að finna upp hjólið. Þvert á móti getum við náð miklum árangri með því að hlusta hvert á annað, fræðast og vinna saman. Nota hugmyndir og lausnir hvert frá öðru.

Þær þrjár skýrslur sem þegar eru komnar út á vegum „Green to scale“ hafa sýnt að við getum farið miklu lengra, miklu hraðar, með lausnum sem þegar eru til og hægt er að nýta víðar.

Tvennt sem nefnt er í skýrslunni sem Ísland getur litið til eru betri almenningssamgöngur og auknar hjólreiðar. Annað er að draga úr urðun og koma á betri flokkun. Ég geri ráð fyrir að koma betur inn á þessa þætti í pallborðinu á eftir og hvað ríkisstjórnin er að gera í þessum málum.

En hvað hefur Ísland þá fram að færa – annað en það sem nefnt er í skýrslunni sem kynnt verður hér á eftir og tengist hitaveitunni okkar? Ég vil nefna tvennt sem kemur í hug mér.

Í fyrsta lagi búum við á Íslandi yfir gríðarlegri reynslu þegar kemur að endurheimt vistkerfa. Landgræðsla hefur lengi verið stunduð á Íslandi, með góðum árangri. Landgræðslan hét fyrst því táknræna nafni Sandgræðslan og var þá barist við þann geigvænlega uppblástur og sandfok sem enn fór hamförum um vistkerfi landsins. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og í dag hefur Ísland sögu fram að færa varðandi endurheimt vistkerfa.

Á alþjóðavettvangi hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að horft sé til samlegðaráhrifa mismunandi aðgerða sem ráðist er í til að mæta áskorunum í umhverfismálum. Þetta höfum við til að mynda gert í formennsku okkar í norrænu ráðherranefndinni. Þannig voru samlegðaráhrif loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni til dæmis til umfjöllunar á fundi norrænu umhverfisráðherranna sem haldinn var í Reykjavík í vor. Og á fundi okkar sem ég stýrði nýlega var samþykkt að láta skoða helstu tækifæri Norðurlandanna til að samþætta endurheimt vistkerfa á Norðurslóðum við markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og aukna kolefnisbindingu. Allt stemmir þetta vel við þá auknu áherslu sem alþjóðlega er lögð á náttúrumiðaðar lausnir við loftslagsvánni.

Annað verkefni þar sem Ísland hefur sannarlega lausn fram að færa er síðan að finna á Hellisheiðinni. „CarbFix“-aðferðin sem Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila er ekki einungis sniðug og frábær hugmynd – hún virkar.

Eins og þið vafalaust þekkið felst aðferðin í að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður í basaltjarðlög þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. „CarbFix“- aðferðina þarf einfaldlega að nýta hvar sem hægt er.

Í þessu samhengi vil ég nefna að þörf er á víðtæku samstarfi til að takast á við loftslagsvána og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda getur haft mikil áhrif, bæði hér á landi og á alþjóðavísu. Stóriðjufyrirtækin á Íslandi, stjórnvöld og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í vor viljayfirlýsingu sem felur meðal annars í sér að kannað verði hvort „CarbFix“-aðferðin geti orðið raunhæfur kostur til að draga úr losun CO2 frá stóriðju á Íslandi. Það myndi marka vatnaskil.

Að lokum vil ég nefna að aukin áhersla hefur verið á loftslagsmál í norrænu samstarfi á undanförnum misserum og hefur Ísland haft þau sem sitt áherslumál í formennskutíð sinni. Má hér nefna sameiginlega yfirlýsingu Norðurlandanna um kolefnishlutleysi sem undirrituð var í Helsinki í byrjun ársins, nýja framtíðarsýn Norðurlandanna þar sem þau stefna að því að verða sjálfbærasta svæði heims og sameiginlega yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna og hóps norrænna forstjóra um samstarf um að sporna við loftslagsbreytingum.

Ég vil þakka öllum þeim sem koma að gerð þeirrar viðamiklu skýrslu sem kynnt verður hér á eftir. Takk fyrir ykkar mikilvæga framlag til að takast á við loftslagsmálin.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta