Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. desember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Tækifærin á hálendinu

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 20. desember 2019.

 

Tækifærin á hálendinu

Á hálendi Íslands ægir saman beljandi jökulám, fágætum gróðurvinjum, svörtum sandauðnum og sérstæðum jarðmyndunum sem finnast hvergi annars staðar í heiminum á einu og sama svæðinu. Þar er líka að finna ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu. Miðhálendi Íslands er einstakt og í sameiginlegri eign þjóðarinnar.

Vegna þessa hefur verið bent á að miðhálendið eigi að verða þjóðgarður allra landsmanna. Þingflokkar, tvær fyrri ríkisstjórnir og fjölmargir hagsmunaaðilar hafa komið að þróun hugmyndar um slíkan þjóðgarð á undanförnum árum.

Núverandi ríkisstjórn tók þetta stórbrotna mál síðan upp með afgerandi hætti í stefnuyfirlýsingu sinni: Þjóðgarður skyldi stofnaður á miðhálendi Íslands. Við færumst nú stöðugt nær því marki að koma þjóðgarðinum á fót – með öllum þeim tækifærum sem munu fylgja. Í þessari viku voru drög að lagafrumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs sett í Samráðsgátt stjórnvalda og ég stefni á að leggja frumvarpið fram á Alþingi næsta vor.

Frumvarpið byggir á umfangsmikilli vinnu nefndar sem skipuð var vorið 2018 en í henni áttu sæti m.a. fulltrúar allra flokka á Alþingi og fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin bar hugmyndir sínar undir sveitarstjórnir og fjölmarga hagaðila, auk þess að halda fundi vítt og breitt um landið og setja verkefni sín jafnóðum í samráðsgátt. Þjóðgarðar hafa mikið aðdráttarafl.

Það býður upp á ótal möguleika til náttúruverndar og skilar um leið efnahagslegum ávinningi. Hálendisþjóðgarður myndi verða stuðningur við byggðirnar í jaðri hans og ýta undir atvinnusköpun. Í rannsókn sem Hagfræðistofnun HÍ vann að minni beiðni kom í ljós að fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila sér 23 krónur til baka. Helmingur fjármagnsins verður eftir inni á friðlýstu svæðunum eða í næsta nágrenni þeirra.

Stærsta tækifærið felst þó í því að vernda víðerni og náttúru miðhálendisins. Þjóðgarðurinn yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu, myndi styrkja ímynd Íslands og marka vatnaskil í náttúruvernd.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta