Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. febrúar 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á Umhverfisráðstefnu Gallup 2020

Ágæta samkoma.

Á þeim tveimur árum sem ég hef verið ráðherra hef ég fylgst með því hvernig umhverfismál hafa fengið byr undir báða vængi. Þau eru orðin eitt af helstu málum samfélags okkar og allir hafa skoðanir á þeim. Þau koma reglulega til umræðu í fréttatímum, blöðum, samfélagsmiðlum, alls staðar. Loksins. Loksins. Enda stöndum við frammi fyrir fordæmalausum áskorunum í umhverfismálum.

Í niðurstöðum umhverfiskönnunar Gallup, sem verða kynntar í hörgul hér á eftir, kemur fram að loftslagsbreytingar og umhverfismál eru í öðru sæti yfir þær áskoranir sem fólk telur að Ísland standi frammi fyrir í dag. Árið 2018 voru þau númer þrjú. Árið þar áður númer fimm.

6 af hverjum 10 sem svöruðu könnuninni eru umhverfismálin mjög hugleikin. 99% eru á því að loftslagsbreytingar eigi sér stað, sem er gott að fá upplýsingar um, því við höfum ekki tíma til þess að takast á um augljós vísindi. Samkvæmt könnuninni eru ekki nema 3% sem segjast ekkert hugsa um áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar. Það eru góð tíðindi og sýnir hversu meðvitað fólk er orðið um áhrif loftslagsbreytinga.

Það breytir því hins vegar ekki að í niðurstöðum könnunarinnar í ár, sjást breytingar. Þeim fækkar t.d. sem telja að loftslagsbreytingar séu aðallega af mannavöldum og þeim fjölgar sem telja fréttir af alvarleika hlýnunar jarðar almennt ýktar.

Það er mikilvægt að upplýsingum sem þessum sé safnað, svo við getum brugðist við með réttum hætti.

Samkvæmt könnuninni eru 90% fólks tilbúin til þess að breyta hegðun sinni til þess að minnka áhrif sín á umhverfi og lofslagsbreytingar. Þannig kemur fram skýr vilji almennings til breytinga. En þegar fólk er spurt að því hvað komi í veg fyrir að það geri breytingar á hegðun sinni þá nefnir það í fyrsta lagi að það sem það geri hafi lítil áhrif. Í öðru lagi að það skorti stuðning frá stjórnvöldum. Að það vanti umgjörð. Hana geta stjórnvöld skapað. Geta, vilja, ætla og eru að vinna að því.

Mig langar að nefna nokkur dæmi:

• Nú á vorþingi mæli ég fyrir lagabreytingum sem gera kröfu um að flokkun sorps verður samræmd á landsvísu og bann verði lagt við urðun lífræns úrgangs. Um 7% útblásturs á ábyrgð íslenskra stjórnvalda kemur nefnilega frá urðuðum úrgangi.

• Það styttist í að ýmiskonar einnota og óþarfa plastvörur verði bannaðar hér á landi, til að mynda plasthnífapör og -diskar, sogrör og eyrnapinnar úr plasti. Ég mæli fyrir frumvarpi þess efnis á næstu vikum á Alþingi.

• Og á árunum 2019 og 2020 verður fjárfest fyrir milljarð króna í innviðum vegna orkuskipta – innviðum sem munu sjá til þess að það verði raunhæfur kostur fyrir fólk að fara öðruvísi á milli staða en með því að brenna jarðefnaeldsneyti. Og ekki bara milli bæjarhluta, líka milli landshluta. Orkuskipti í samgöngum eru lykilatriði í því að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Við höfum enda lagt mikið kapp á það að flýta fyrir þeim og ýta undir breyttar ferðavenjur. Ef þú ert sá eða sú sem er alltaf á leiðinni að fara að leggja jeppanum og fara að hjóla í vinnuna þá myndi ég segja að nú væri þinn tími kominn: um áramótin var afnuminn virðisaukaskattur af öllum rafhjólum og reiðhjólum. Og ef þig vantar heimahleðslustöð – þá gildir það sama um hana.

Góðir gestir.

Haustið 2018 kom út fyrsta fjármagnaða aðgerðaáætlunin stjórnvalda í loftslagsmálum, þar sem settar voru fram 34 aðgerðir um hvernig draga mætti úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og auka bindingu kolefnis stórlega. Fjölda aðgerða hefur þegar verið hrint í framkvæmd og innan nokkurra vikna munum við birta uppfærða aðgerðaáætlun. Þar verður enn skerpt á áherslum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og ýmislegt gert til þess að auðvelda fólki að leggja lóð sín á vogarskálarnar.

Það á nefnilega að vera auðvelt, einfalt og sjálfsagt að velja umhverfisvænni kostinn. Öðruvísi verður þetta ekki gert.

Við höfum skýr markmið. Árið 2030 ætlum við að geta sagt að við höfum staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu, að árið 2040 verði Ísland orðið kolefnishlutlaust og árið 2050 muni losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verða mjög lítil og við munum binda meira kolefni en við losum. Eins hef ég falið Loftslagsráði undirbúning að vinnu við aðlögunaráætlun fyrir Ísland, því það er ekki nóg að reyna að hægja á þeim breytingum sem eru að verða á heiminum – það þarf líka að búa sig undir breyttan heim.

Góðir gestir.

Þau atriði sem einna helst knýja fólk til þess að breyta hegðun sinni til þess að sporna við loftslagsbreytingum er löngunin til þess að hjálpa næstu kynslóð og að það sé að vernda Ísland og náttúru þess til lengri tíma. Þar er ég sannarlega sammála.

Það er ánægjulegt að fá að vera með ykkur hérna í dag. Viðfangsefnið hefur alvarlegan undirtón. Það er gríðarlega mikilvægt að vita hvernig viðhorf og þekking fólks á þessum málaflokki hefur þróast. Niðurstöðurnar sýna að fólk hefur trú á því að við getum náð árangri í loftslagsmálum og það eru afar mikilvæg skilaboð. Fólk efast um áhrif eigin gjörða, einna og sér, en það gerir sér grein fyrir samtakamætti fjöldans. Hann þurfum við að virkja.

Við getum þetta saman.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta