Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. apríl 2020 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi GuðbrandssonUmhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Tveggja milljarða innspýting í umhverfismál

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Kjarnanum 20. apríl 2020.

 

Tveggja milljarða innspýting í umhverfismál

Því fer fjarri að kórónuveiran sé aufúsugestur í samfélaginu okkar. Stjórnvöld munu halda áfram að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að milda höggið fyrir samfélagið. Það gera þau með því að leggja traust á mat sérfræðinga, efla heilbrigðiskerfið og styrkja stoðir efnahagskerfisins eins og hægt er, svo íslenskt samfélag komist á réttan kjöl sem fyrst. En það felast líka tækifæri í því að endurskipuleggja og endurmeta ákveðna þætti.

Alþingi samþykkti í lok mars sérstakt fjárfestingaátak á árinu 2020, þar sem milljörðum verður varið í ýmiss konar opinbera fjárfestingu. Tilgangurinn er að vega upp á móti kólnandi áhrifum kórónuveirunnar í hagkerfinu og á vinnumarkaði. Vegna þessa munu heilir tveir milljarðar renna aukalega til verkefna á ábyrgðarsviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Og munar um minna. Fjárframlög til umhverfismála hafa að vísu aldrei verið meiri en í tíð þessarar ríkisstjórnar, og hafa fyrir þetta átak þegar aukist um 32% miðað við upphaf kjörtímabilsins. En lengi má gott bæta.

Loftslagsmál: flýting orkuskipta, aukin kolefnisbinding og efling nýsköpunar

Í fjárfestingaátakinu felst meðal annars að fjárframlög til kolefnisbindingar og orkuskipta aukast um hálfan milljarð á árinu sem gerir okkur kleift að flýta nauðsynlegri innviðauppbyggingu fyrir orkuskipti. Þannig verður styttra þar til jarðefnaeldsneyti víkur fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum í samfélaginu okkar. Hér verður sérstaklega horft til rafvæðingar hafna, vistvænni bílaleigubíla og þungaflutninga. Hér er því tækifæri til endurskipulagningar. Hvað kolefnisbindinguna varðar eru fjöldi verkefna á teikniborðinu sem ráðist verður í strax á þessu ári. Til dæmis aukin endurheimt votlendis, aukin landgræðsla, birkisáning og grisjun í skógrækt. Þá verður ráðist í verkefni til að nýta moltu í auknum mæli við landgræðslu, í takt við hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Loftslagssjóður fær síðan 50 milljónir króna aukalega, til viðbótar við þær 140 milljónir sem sjóðurinn hafði til ráðstöfunar á þessu ári. Hlutverk sjóðsins er að styrkja nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og fræðslu. Aftur, hér eru tækifæri til að breyta í umhverfisvænni átt.

Uppbygging á friðlýstum svæðum

Fjárfestingaátakið verður líka til þess að hægt verður að veita ríflega 650 m.kr. til uppbyggingar á friðlýstum svæðum, til viðbótar við heilan milljarð króna sem áður hafði verið ráðstafað til þess málaflokks á þessu ári og kom af landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Þess munu sjást merki víða um land, ekki síst við Jökulsárlón, á Þingvöllum, við Dyrhólaey og innan Friðlands að Fjallabaki. Mjög mikilvægt er að vernda náttúru þessara fjölsóttu svæða með styrkingu innviða þannig að ferðamenn geti notið þeirra án þess að náttúran hljóti skaða af.

Langþráð átak í fráveitumálum hefst

Fjárfestingaátakið verður einnig til þess að ríkið getur hafið stuðning sinn við úrbætur í fráveitumálum sveitarfélaga á þessu ári, fyrr en ráðgert hafði verið. Alls verður 200 milljónum króna varið í stuðning vegna þessa í ár, sem er bara byrjunin á brýnu verkefni. Með aukinni hreinsun skólps drögum við úr mengun vatns og sjávar og ég mun leggja áherslu á að fá aukinn fjárstuðning fyrir fráveitumál á næstu árum.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta