Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Tekið á tveimur brýnum umhverfismálum í Seyðisfirði

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Austurglugganum 29. maí 2020.

 

Tekið á tveimur brýnum umhverfismálum í Seyðisfirði

Þótt 76 ár séu liðin síðan þýskar orrustuflugvélar grönduðu breska olíubirgðaskipinu El Grillo í Seyðisfirði, erum við enn minnt á afleiðingar þess. Undanfarin ár hefur orðið vart við olíuleka í firðinum þegar sjór hlýnar á sumrin, með tilheyrandi skaða fyrir lífríkið. Olíu var fyrst dælt upp úr flakinu árið 1952 og aftur árið 2001 en ljóst er að það hefur ekki dugað til. Í vetur kafaði Landhelgisgæslan niður að flakinu til þess að kanna aðstæður. Þá var staðfestur töluverður leki úr olíutanki vegna tæringar, olíuleki sem heimamenn höfðu orðið varir við og vakið athygli á.

Olíuleki frá El Grillo stöðvaður í maí

Í síðasta mánuði samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að ráðast í aðgerðir til þess að fyrirbyggja frekari neikvæð umhverfisáhrif vegna leka frá skipsflakinu, enda ljóst að bregðast þyrfti við áður en sjór hlýnaði frekar í vor. Í byrjun maí var varðskipinu Þór svo siglt til Seyðisfjarðar og tekið til við lagfæringar, sem lauk um mánuðinn miðjan. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar lokuðu opinu, þar sem olía átti leið út, með því að smíða mót og steypa fyrir opið. Um leið var loka komið fyrir í steypunni, þannig að ef þörf krefur verður hægt að dæla olíu úr tankinum síðar. Stefnt er að því að kafarar Landhelgisgæslunnar fari árlega niður að flakinu til þess að kanna ástand þess og ef frekari leki geri vart við sig verði brugðist við því. Við verðum að búa svo um hnútana að lífríki Seyðisfjarðar hljóti ekki frekari skaða af olíuleka frá flaki El Grillo.

Norræna tengd rafmagni

En það gerðist fleira um miðjan maí sem er náttúru og íbúum Seyðisfjarðar í hag. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið úthlutaði 210 milljónum króna í styrki til rafvæðingar hafna á tíu stöðum á landinu – þar á meðal á Seyðisfirði. Þar á að koma fyrir búnaði svo Norræna geti tengst rafmagni þegar hún liggur við landfestar. Á heildina litið eru þetta stór og mikilvæg skref í þágu loftslagsmála, því með rafvæðingu hafna um land allt má draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum í landlegu. En í Seyðisfirði er þetta ekki síður loftgæðamál og til þess fallið að draga úr hávaðamengun, sér í lagi yfir vetrartímann þegar Norræna liggur við bryggju í nokkra daga í einu.

Með því að tengja Norrænu við rafmagn í landi er áætlað að koma megi í veg fyrir bruna á um 400.000 lítrum af olíu á ári, sem jafngildir árlegum útblæstri á að giska 400 fólksbíla. Styrkurinn sem rennur til Seyðisfjarðarhafnar nemur 8,9 milljónum króna en skipafélagið Smyril Line mun sjálft standa straum af kostnaði við breytingar á búnaði í ferjunni. Þá voru einnig veittir styrkir til orkuskipta í höfnum á Akureyri og Dalvík, í Reykjavík, Reyðarfirði, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Ólafsvík, Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.

Góð samvinna

Með þessum tveimur verkefnum taka ríki og Seyðisfjarðarkaupstaður höndum saman og sýna vilja sinn í verki. Við flýtum fyrir orkuskiptum og drögum úr mengun með því að rafvæða höfnina, sem er kostnaðarsamt verkefni en afar skynsamlegt. Við hlúum að heilbrigði hafsins sem við byggjum afkomu okkar á, með því að hindra olíumengun. Ég þakka íbúum Seyðisfjarðar fyrir að standa umhverfisvaktina og vonast til að með þessum verkefnum megi stuðla að heilnæmu umhverfi fyrir íbúa Seyðisfjarðar, bæði menn og dýr.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta