Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. júní 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Blaðinu snúið við í loftslagsmálum

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Mannlífi í júní 2020.

 

Blaðinu snúið við í loftslagsmálum

Ísland mun uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, það sýnir ný útgáfa Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, sem gefin var út í lok júní. Stjórnvöld setja samt markið enn hærra.

Stefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er skýr í loftslagsmálum. Stefnt er að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um 40% árið 2030 í samstarfi við Noreg og ESB, og kolefnishlutleysi árið 2040.

Með þeim aðgerðum sem við höfum ráðist í og hyggjumst ráðast í, munum við ná mun meiri árangri en alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt Parísarsamkomulaginu krefjast af okkur. Því ber svo sannarlega að fagna. Samkvæmt áætluninni mun samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 verða 35%, miðað við viðmiðunarárið 2005, en skuldbindingar okkar kveða á um 29% samdrátt. Til viðbótar við þetta eru aðgerðir sem enn eru í mótun taldar geta skilað 5-11%, eða samtals 40-46% samdrætti.

Byggt á mati sérfræðinga

Að baki þessari nýju útgáfu áætlunarinnar liggja umfangsmiklir útreikningar á ávinningi allra þeirra aðgerða sem unnt var að meta. Matið var í höndum teymis vísindafólks við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og sérfræðinga umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Það er vegna þessa mats sem við treystum okkur til þess að segja að skuldbindingum verði náð.

Það er ekki þar með sagt að við séum komin í mark. Stjórnvöld, atvinnulíf og einstaklingar verða núna að hjálpast að við að fylgja aðgerðum eftir, útfæra fleiri og breyta hegðun okkar þannig að hún samræmist sjálfbærri framtíð. Það er eina leiðin fram á við, því loftslagsbreytingar eru og verða stóra áskorun samtímans.

Fjölbreyttar aðgerðir

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum samanstendur af 48 aðgerðum, en rúmur helmingur þeirra er þegar kominn til framkvæmda. Fimmtán nýjar aðgerðir hafa bæst við frá fyrri útgáfu áætlunarinnar og má þar til dæmis nefna aðgerðir til þess að auka innlenda grænmetisframleiðslu, fjölga vistvænum bílaleigubílum og styðja við orkuskipti í þungaflutningum. Þá verður áfram unnið að því að kanna möguleika stóriðjufyrirtækja á Íslandi til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni með niðurdælingu koltvísýrings (CarbFix). Ráðist verður í aðgerðir til þess að gera opinber innkaup umhverfisvænni, meta loftslagsáhrif frumvarpa og draga úr loftslagsáhrifum byggingariðnaðarins.

Engin ein aðgerð mun leysa vandann í heild sinni, en með því að grípa til fjölbreyttra aðgerða á mörgum sviðum samfélagsins náum við árangri.

Fjárfestum í grænum innviðum

Íslensk stjórnvöld munu halda ótrauð áfram að tryggja þau umskipti sem nauðsynleg eru í samfélaginu til að sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Í því skyni munum við meðal annars greina áhrif áætlunarinnar á mismunandi tekjuhópa.

Við eigum enn inni fjölda tækifæra í grænni nýsköpun og fjárfestingum í grænum innviðum. Orkuskipti á öllum sviðum samfélagsins, minni sóun og frekari kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis geta leitt til mikils ávinnings fyrir samfélagið.

Markmiðið er skýrt: mun minni losun gróðurhúsalofttegunda og lífvænlegri heimur til lengri tíma litið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta