Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. júlí 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Óþarfa einnota plast bannað

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 11. júlí 2020.

 

Óþarfa einnota plast bannað

Hvaða vit er í því að nota einnota plastáhöld í nokkrar mínútur og síðan aldrei meir? Áhöld sem endast samt í mörghundruð ár eftir það, þ.e.a.s. plastið í þeim, oft með alvarlegum áhrifum á lífríkið, ekki síst í hafi? Hvað ætli hvert og eitt okkar hafi t.d. notað margar plastskeiðar um ævina? Og hversu margar þeirra (sem ekki hafa verið endurunnar) ætli að séu ennþá til?

Einnota óþarfi

Við þinglok á Alþingi í síðustu viku varð frumvarp mitt um bann við sölu ýmiss konar einnota plastvara að lögum. Yfir því gleðst ég einlæglega. Plastskeiðar eru á meðal þessara vara, en líka plasthnífar, -gafflar, -diskar, -sogrör, -blöðrustangir, -hræripinnar og bómullarpinnar. Í öllum tilfellum eru fáanlegar á markaði aðrar sambærilegar vörur sem eru margnota eða búnar til úr öðrum hráefnum en plasti.

Ekki bannað í blindni

Það er engin tilviljun að frumvarpið tók til einmitt þessarar vöru. Frumvarpið byggði á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um að draga úr áhrifum tiltekinnar plastvöru á umhverfið sem rannsóknir höfðu sýnt að væri hvað líklegust til þess að finnast sem rusl á ströndum. Um 80-85% rusls á ströndum í Evrópu er úr plasti, þar af um helmingurinn einnota plastvörur.

Við erum þannig ekki að banna í blindni hvaða plast sem er, heldur einnota óþarfa sem veldur skaða í náttúrunni. Rétt er að taka fram að undanþágur eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.

Stuðlum að hringrásarhagkerfi

Þessi nýju lög leiða líka til þess að matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti verða óheimil. Þar að auki verður ekki lengur leyfilegt að afhenda einnota plastílát undir skyndibita ókeypis. Með þessu er stutt við myndun hringrásarhagkerfis og dregið úr myndun úrgangs. Auðlindir jarðar eru ekki óþrjótandi. Við megum ekki umgangast þær eins og þær séu það.
Auk þess komum við í veg fyrir óþarfa plastmengun í náttúrunni, með því einu að neita okkur um einnota óþarfa úr plasti. Það þykir mér lítil fórn með miklum ávinningi.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta