Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. ágúst 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra við setningu Gagnaþons fyrir umhverfið

Komið öll sæl.

Það er mér sönn ánægja að vera hér kominn til þess að opna fyrsta Gagnaþonið sem haldið hefur verið hér á landi. Vonin er sú að með þessu verkefni megi auka hagnýtingu og sýnileika opinna gagna í samræmi við Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um að auka nýsköpun hér á landi og er þetta verkefni eitt af mörgum verkefnum sem ráðist verður í, í þeim efnum.

Megintilgangurinn er nú samt sem áður að stuðla að því að til verði snjallar lausnir á sviði umhverfismála. Og á því sviði er af nógu að taka. Það dylst engum að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru stóra áskorun samtímans. Jafnvel þótt kórónuveiran krefjist athygli okkar og mikilla fórna núna um heimsbyggðina alla, þá megum við nefnilega ekki gleyma því að loftslagsváin fer ekkert á meðan. Þannig að, á sviði umhverfismála eru næg verkefni fram undan.

Stjórnvöld hafa sett fram markmið um að draga úr losun um að minnsta kosti 40% fram til ársins 2030. Í nýrri útgáfu aðgerða-áætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum, sem við birtum í lok júní, voru settar fram aðgerðir sem miða að þessum samdrætti og gott betur. Þar að auki er markið sett á kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Það er að segja að kolefnislosun á Íslandi verði engin,umfram það magn sem við bindum hér á landi. Og þetta er mikilvægt mark-mið. Til þess að uppfylla markmið Parísarsamningsins þarf að ná hnattrænu kolefnishlutleysi upp úr 2050,en Ísland vill ganga á und-an með góðu fordæmi og stefnir því að kolefnishlutleysi áratugfyrr.

Til þess að ná þessum markmiðum þurfum við í megindráttum að gera tvennt. Við þurfum að draga úr losun. (Það er eiginlega númer 1, 2 og 3). Og svo þurfum við að auka kolefnisbindingu. Við þurfum sem sagt að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, en við þurfum líka að binda hluta þess sem þegar er komið út í andrúmsloftið. Það er ekki bara eitthvað eitt eða tvennt sem reddar málunum fyrir okkur. Það þarf fjölbreyttar lausnir. Það þurfa að verða breytingar á öllum sviðum samfélagsins og þær þurfa að gerast hratt.

Við þurfum að breyta ferðavenjum okkar, draga úr úrgangsmyndun, koma í veg fyrir sóun á öllum sviðum, neyta minna, borða öðruvísi, stunda öðruvísi landbúnað, öðruvísi veiðar og svo framvegis. Við þurfum að byggja okkur öðruvísi hús, rafvæða hafnirnar okkar og svo fram vegis og svo framvegis.

Og þarna komum við að ykkur. Ég hef trú á því að á næstu dögum muni fæðast hugmyndir sem muni eiga þátt í því að færa okkur nær markmiðum okkar. Að færa okkur nær þeim heimi sem við viljum byggja og sem við viljum bjóða börnunum okkar upp á.

Ég hef trú á því að þegar einstaklingar með ólíka menntun, hugmyndir og reynslu koma saman, þá geti orðið til einhverjir töfrar. Þegar allir leggjast á eitt. Þegar allir stefna að sama marki; að nýta þekkingu og gögn til þess að skapa eitthvað nýtt sem gerir umhverfinu gott. Um leið gerum við okkur sjálfum og samfélaginu öllu gott.

Ég er líka sannfærður um að þetta verður virkilega gaman hjá ykkur. Það má alveg vera gaman að bjarga heiminum.

Á Gagnaþoninu býðst þátttakendum að vinna úr gögnum ýmissa stofnana og mig langar til þess að þakka þeim stofnunum sem taka þátt fyrir samstarfið og þann mikla áhuga sem þær hafa sýnt verkefninu.
Þá vil ég þakka ykkur kæru þátttakendur. Takk fyrir að setja tíma ykkar, orku og heilasellur í verkefni í þágu umhverfisins.
Mig langar líka að þakka leiðbeinendum, skipuleggjendum og dómurum – og Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem hefur leitt verkefnið ötullega áfram.

Ykkur, kæru þátttakendum, óska ég skemmtilegrar og afkastamikillar viku. Og ég hlakka sannarlega til að sjá afurðirnar!

Ég segi hér með Gagnaþon fyrir umhverfið sett.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta