Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. september 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á ársfundi Landgræðslunnar


Þann 21. desember 2018 voru samþykkt á Alþingi ný lög um landgræðslu. Þetta var löngu tímabært eins og oft hefur komið fram, eldri lög frá árinu 1965 voru að mörgu leyti ágæt en báru þess óneitanlega merki að viðfangsefni á landi voru ekki síst landbúnaðartengd. Síðan hefur samfélagið breyst mikið og hagsmunir ólíkir. Stór hluti alþjóðlegra samninga á sviði umhverfismála hefur komið fram síðan og þróun á því sviði verið mjög hröð. Hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, landeyðing og loftslagsbreytingar eru risastór viðfangsefni heimsins alls.

Landgræðsla tengist þessum viðfangsefnum öllum. Með landgræðslu má bæði vernda og efla líffræðilega fjölbreytni. Það má endurheimta horfin vistkerfi votlendis, mólendisvistkerfi eða kjarr- og skóglendi og auka þannig viðnámsþol vistkerfa gagnvart umhverfisbreytingum og ýmsum áföllum. Með landgræðslu má stöðva losun kolefnis úr jarðvegi, sem er ein megin orsök loftslagsbreytinga auk notkunar jarðefnaeldsneytis. Ekki bara það, heldur má auka bindingu kolefnis í gróðri og til lengri tíma í jarðvegi til að vega á móti loftslagsbreytingum. Þetta getur því allt farið saman sé rétt að landgræðslu staðið.

En hvernig á að standa að landgræðslu?

Landgræðsluáætlun

Nú stendur yfir vinna við mótun nýrrar landgræðsluáætlunar. Þetta er starf sem byggir á nýjum lögum. Þar á að koma fram framtíðarsýn og stefna stjórnvalda í landgræðslu. Þessi áætlun mun marka tímamót því aldrei áður hefur verið unnin landgræðsluáætlun byggð á skýrum fyrirmælum í lögum og í víðtæku samráði. Ég bind miklar vonir við að landgræðsluáætlun skerpi á því um hvað landgræðsla snýst og virði hennar fyrir okkar samfélag.

Fyrir fáeinum áratugum varð veruleg breyting á starfi Landgræðslu ríkisins þegar samstarf við bændur og aðra landeigendur var aukið. Komið var á stuðningi við landgræðslustarf þessara aðila, bæði í formi fjárhagslegs stuðnings og ráðgjafar. Þessi þróun hefur haldið áfram. En má gera betur hvað þetta varðar? Getum við samþætt betur verkefni á sviði umhverfismála sem þarf að vinna? Er hægt að þróa áfram núverandi verkefni með það að markmiði að ná heildstætt yfir þau viðfangsefni sem tengjast landnotkun og umhverfismálum. Ég held það.

Við höfum mótað verkefni sem heitir Loftslagsvænn landbúnaður þar sem komið hefur verið á samstarfi Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, um heildstæða ráðgjöf til bænda um loftslagsmál og hvernig ná megi árangri við að draga úr losun frá rekstri og vegna landnotkunar. Við höfum einnig unnið að þróun verkefnis þar sem leitað er samlegðar og samþættingar landbúnaðar og náttúruverndar, kallað LOGN. Það hefur sýnt fram á að verulegur áhugi er hjá landeigendum, hvort sem þeir eru bændur í einhverjum skilningi eða ekki, á að skoða umhverfismálin á sinni jörð. Þetta er mjög spennandi að þróa áfram því það er mikilvægt að virkja sem flesta til góðra verka, hvort sem það snýr að loftslagsmálum, náttúruvernd eða uppbyggingu auðlinda eins og skóga.

Landgræðsla er best stunduð með því að efna til samstarfs við sem flesta um fjölbreytt verkefni.

Hvað varðar hagrænu hliðina þá er samstarf einnig lykill að því að ná hagkvæmum rekstri verkefna og góðri nýtingu fjármuna. Við eigum að leita leiða til að bæta nýtingu og mögulega auka stærðahagkvæmni verkefna. M.a. þess vegna hef ég skipað hóp frá stofnunum þriggja ráðuneyta, sveitarfélaga og bænda, sem á að leggja fram tillögur um hvernig megi hagræða í stofn- og viðhaldskostnaði vegna girðinga í eigu hins opinbera, og einkaaðila. Sá starfshópur mun leita svæðisbundinna lausna eins og gert var á sínum tíma á Reykjanesskaga og umhverfis höfuðborgarsvæðið. Þar er allt sauðfé t.d. innan beitarhólfa.

Ef við náum árangri í þessu starfi, sem ég bind miklar vonir við, þá gætu myndast risastór tækifæri til endurheimtar vistkerfa, ekki síst skóglendis. Sem leiðir mig inn í að ræða um Bonn áskorun.

Bonn áskorunin

Bonn áskorunin er átak um endurheimt skóga (forest landscape restoration) skipulagt af Alþjóða náttúruverndarsamtökunum (IUCN) í samstarfi við fleiri aðila. Markmiðið er að áskorunin nái til 150 milljóna hektara fyrir árið 2020 og 350 milljóna hektara á heimsvísu fyrir árið 2030 miðað við viðmiðunarárið 2010. Nú þegar liggja fyrir skuldbindingar sem samsvara rúmlega 170 milljónum hektara. Ég vil setja Íslandi markmið innan Bonn áskorunar t.d. um að auka þekju birkiskóga úr 1,5% í 5%. Hekluskógar eru að mörgu leyti verkefni sem passar vel innan Bonn áskorunar.

Bonn áskorunin snýst um endurreisn skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum. Landnotkun innan svæðanna getur verið fjölbreytt, s.s. landbúnaður, hvers kyns skógrækt og endurheimt vistkerfa, byggð, vegir og orkuvinnsla. Áhersla er á að efla virkni vistkerfa innan landslagsheilda auk þess að skapa lífvænlegri skilyrði fyrir íbúa á svæðinu. Hvetja á til þátttöku hagsmunaaðila og íbúa og aðgerðir verða sniðnar að aðstæðum á hverjum stað, byggt á bestu þekkingu og staðbundinni reynslu. Bonn áskorun felur því í sér nálgun og aðferðafræði sem smellpassar við það sem við erum og eigum að gera í landgræðslu.

Ég hef því áhuga á, innan ramma Bonn áskorunar, að stórauka verkefni á sviði endurheimtar skóga, með því að nýta aðferðafræði sjálfsáningar birkis og annars trjágróðurs. Og að leita samstarfs við fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og bændur um slík verkefni sem víðast. Þetta kallar á skýra stefnumörkun sem ætti að birtast í landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt og það kallar einnig á náið samstarf stofnana.

Lífrænn áburður

Og nú kem ég inn á stórt viðfangsefni. Það er hvort við eigum að stefna á að minnka stórlega eða jafnvel hætta að nota tilbúinn áburð í landgræðslu. Ég hef áhuga á að við stóraukum notkun á lífrænum áburði til landgræðslu. Hvort það er molta, kjötmjöl, seyra, gor eða bokashi haugur, er ekki aðalatriði heldur að greina möguleikana á notkun þessara efna, samstarfi við sveitarfélög eða byggðasamlög, fyrirtæki, bændur og aðra sem þurfa að koma að slíkri stefnumótun.

Loftslagsbókhald

Ísland er nú í samstarfi við Evrópusambandið um að draga sameiginlega úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamninginn. Þetta samstarf hefur dregið betur fram hversu flókin fræði eru að baki samspils lands og loftslagsmála. Gróðurhúsalofttegundir losna frá landi og eru einnig bundnar í gróðri og jarðvegi. Hversu mikið, hvar og af hverju eru stórar spurningar sem við þurfum að leita svara við m.a. í ljósi þeirra skuldbindinga sem við höfum gengist undir. Þess vegna þurfum við að stórefla þekkingu okkar á þessu sviði. Ég hef því ákveðið að styrkja Landgræðsluna, Skógræktina og Umhverfisstofnun á þessu sviði á næstu árum, til að byggja upp þekkingu á samspili landnotkunar og loftslagsmála, svo við getum uppfyllt þær skuldbindingar gagnvart samstarfinu við Evrópusambandið sem okkur ber og til að gera okkar starf í landgræðslu, skógrækt og við skipulag landnotkunar markvissara.

Loftslagsmálin skipa nú stærri sess innan umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem stofnuð hefur verið sérstök skrifstofa loftslagsmála. Þetta er liður í að styrkja stjórnsýsluna á sviði loftslagsmála. Ég sé fyrir mér að þær stofnanir sem fara með stórt hlutverk á sviði loftslagsmála skerpi á því í sínu skipulagi.

Landgræðsluverðlaun 2020

Hérna alveg í lokin langar mig að fá að minnast á handhafa Landgræðsluverðlaunanna í ár. Í eðlilegu árferði hefðum við verið einhverstaðar öll saman komin í sal og horfst í augu og tekist í hendur og svona. Og mér hefði gefist tækifæri til þess að óska verðlaunahöfum til hamingju augliti til auglitis.
Þannig er það víst ekki núna, en mig langar samt til þess að óska þeim til hamingju með verðlaunin og um leið að þakka þeim fyrir dugnað, elju og vel unnin störf. Í hópi verðlaunahafa er fólk sem hefur varið drjúgum tíma og orku í endurheimt votlendis og uppgræðslu gróðurvana lands. Það er þakkarvert. Svo ég segi takk – og til hamingju.

Ég hef hér farið yfir ýmislegt sem gert hefur verið á þessu kjörtímabili en að sama skapi er margt eftir sem mig langar að ná að koma í verk. Ég treysti því þess vegna að ég muni áfram eiga jafn góða samvinnu við ykkur hjá Landgræðslunni og ég hef átt hingað til, í verkefnum sem að skipta Ísland og heiminn allan gríðarlega miklu máli. Við þurfum að takast í sameiningu á við stórar áskoranir sem að felast ekki bara í loftslagsmálunum heldur líka í eflingu á líffræðilegri fjölbreytni, felast í eflingu á því að endurheimta horfin vistkerfi og auka frjósemi og viðnámsþol vistkerfa. Það eru samlegðaráhrifin sem við þurfum að horfa til og á það hef ég lagt mikla áherslu í starfi mínu sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Þannig að ég hlakka til áframhaldandi samvinnu, áfram gakk og gleðilegan ársfund Landgræðslunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta