Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. október 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Trúarbrögð taka höndum saman fyrir umhverfið

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, birtist í Morgunblaðinu 5. október 2020.

 

TRÚARBRÖGÐ TAKA HÖNDUM SAMAN FYRIR UMHVERFIÐ

Í dag hefst ráðstefna á Íslandi sem telja má til heimsviðburðar. Ráðstefnan fer að mestu fram í fjarfundi, en líka að hluta til í Skálholti. Þannig munu fulltrúar fjölmargra trúar- og lífsskoðunarfélaga koma saman, að mestu leyti í gegnum netið, til þess að leggja grunn að samstarfsvettvangi þeirra í umhverfismálum.

Ljóst er að trú- og lífsskoðunarfélög hafa áhrif á hegðun og viðhorf mikils meirihluta mannkyns. Það er því til mikils að vinna, fyrir umhverfið, að breið fylking fulltrúa ólíkra trúarbragða taki afstöðu með umhverfinu og mæli fyrir ábyrgri hegðun í umhverfis- og loftslagsmálum.

Markmið ráðstefnunnar er meðal annars að ræða hlutverk trúar- og lífsskoðunarhópa í því að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í því miði verða unnin drög að sameiginlegri ályktun sem vilji stendur til að afla fylgis og leggja fram á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna (UNEA 5) á næsta ári. Stofnun bandalags um trú í þágu jarðar (Faith for Earth Coalition) verður líka rædd á ráðstefnunni.

Forseti Íslands opnar ráðstefnuna í dag og í kjölfarið ávarpar fjöldi fulltrúa hinna ýmsu trúar- og lífsskoðunarfélaga ráðstefnuna. Meðal annars patríarkinn af Konstantínópel, Bartholomew I, Peter Turkson, einn af kardinálum kaþólsku kirkjunnar, auk fulltrúa Shía- og Súnní múslima, gyðingdóms, búddisma, Bahá‘í og íslensku þjóðkirkjunnar, Agnes M. Sigurðardóttir biskup, svo einhver séu nefnd. Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og undirritaður ávarpa einnig ráðstefnuna.

Alþjóðlegt heiti ráðstefnunnar er Faith for Nature og má nálgast upplýsingar og alþjóðlegar útsendingar á slóðinni www.faithfornature.org.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið tekur þátt í undirbúningi ráðstefnunnar, en meginþungi skipulagningar hefur verið í höndum fulltrúa Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Þjóðkirkjunnar og Landgræðslunnar og Baháí‘ samfélagsins á Íslandi, í samstarfi við UNEP. Ég vona innilega að þetta framtak muni skila markverðum árangri fyrir umhverfismálin í heiminum og hlakka til að taka þátt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta