Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Minni losun, aukin binding og aðlögun
Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 26. janúar 2021.
Minni losun, aukin binding og aðlögun
Aðalverkefni sérhvers ríkis í loftslagsmálum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.. Þar á eftir kemur binding koltvísýrings, sem við gerum t.d. með aukinni landgræðslu, skógrækt eða bindingu í berg. En annað er ekki síður mikilvægt, þótt ef til vill sé minna um það rætt, og það er aðlögun að breytingum sem óhjákvæmilega munu verða á samfélögum okkar og náttúrufari, vegna loftslagsbreytinga.
Sem umhverfis- og auðlindaráðherra hef ég ráðstafað auknu fjármagni til vöktunar á súrnun hafsins og sjávarstöðubreytingum, hopi jökla og skriðuhættu og til rannsókna á kolefnisbindingu. Góð vöktun er ekki bara lykill að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum í framtíðinni, heldur styrkir um leið stoðir hættumats og almannavarna.
Í gær og í dag er haldinn alþjóðlegur fundur um aðlögunarmál, The Climate Adaptation Summit 2021, þar sem saman komu m.a. fulltrúar ríkja, fyrirtækja, borga, háskóla og alþjóðastofnana. Fundinum er ætlað að efla og flýta fyrir aðgerðum í þessum málaflokki á heimsvísu. Í ávarpi mínu á fundinum lagði ég áherslu á mikilvægi samlegðar í aðgerðum. Þá á ég við að gripið sé til aðgerða sem geta nýst bæði til aðlögunar og til að styðja við önnur samfélagsleg markmið á sama tíma, til dæmis til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða auka samkeppnishæfni landsins. Tökum sem dæmi endurheimt votlendis. Hún getur bætt stýringu og flæði á vatni og dregið þannig úr flóðum, á sama tíma og hún leiðir til minni losunar frá framræstum mýrum, endurheimtir vistkerfi og eflir líffræðilega fjölbreytni.
Árið 2019 var frumvarp mitt um að skylda íslensk stjórnvöld til þess að vinna áætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum samþykkt. Í fyrra skipaði ég svo starfshóp til þess að vinna tillögu að stefnu um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum sem meðal annars mun byggja á vísindaskýrslu um loftslagsmál og undirbúningsvinnu Loftslagsráðs, Veðurstofunnar og fleiri. Í framhaldinu verður svo unnin aðgerðaáætlun. Þetta er mikilvægt skref í loftslagsmálum.