Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. febrúar 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Látum F-gösin fjúka fyrir loftslagið

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 10. febrúar 2021.

 

Látum F-gösin fjúka fyrir loftslagið

Gripið var til aðgerða um síðustu áramót sem draga munu hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda en áður var stefnt að. Gerðar voru breytingar á reglugerð sem verða til þess að innflutningur á svokölluðum flúoruðum gróðurhúsalofttegundum mun minnka mun hraðar en áður hafði verið ákveðið, en þær valda um 5% af losun á beinni ábyrgð Íslands.

Hvað í ósköpunum eru eiginlega flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, oft nefndar F-gös? Þetta eru öflugar, manngerðar gróðurhúsalofttegundir sem eru til dæmis notaðar sem kælimiðlar í fiskiskipum, frystiiðnaði og stórverslunum en finnast líka til að mynda í loftræstikerfum og varmadælum. Sum F-gös geta haft allt að 23.000 sinnum meiri áhrif til hlýnunar en CO2. Þess vegna er brýnt að hraða útskiptingu þeirra sem allra mest.

Breytingin á reglugerðinni nú um áramótin hefur þá þýðingu að hámarksmagn F-gasa sem heimilt er að flytja inn á þessu ári er ekki nema tæp 40% af því magni sem flytja mátti inn í fyrra. Og eftir 15 ár verður leyfilegt magn komið niður í 12% af heimiluðum innflutningi síðasta árs. Þetta mun draga úr heildarútblæstri á Íslandi á næstu árum og skiptir máli til að standast alþjóðlegar skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum. Þessi aðgerð gengur lengra en gert var ráð fyrir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá í júní 2020.

Svo breytingar megi verða í málum sem þessum þurfa stjórnvöld að setja skýrar reglur og kröfur á fyrirtæki. Það hefur nú verið gert fyrir F-gös. En gott samstarf og vilji fyrirtækja og einstaklinga til að taka þátt í umbreytingunni skiptir miklu. Í þessu tilfelli ber að hrósa innflytjendum F-gasa sem hafa tekið vel á móti þessum breytingum og sýnt frumkvæði í að stemma enn frekar stigu við losun.

Þessu til viðbótar hófst skattlagning á F-gös í byrjun síðasta árs, sem hjálpar líka til við útfösun þeirra. Verð á efnunum hefur því hækkað svo nú er orðið hlutfallslega hagstæðara að velja umhverfisvænni kosti. Þeir eru þegar fyrir hendi. Höldum áfram á þessari braut.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta