Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. apríl 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Mikilvægi skóga í íslensku samfélagi

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í riti Landssamtaka skógareigenda Við skógareigendur 1.tbl - 14. og 15. árg. 2020-2021

 

Mikilvægi skóga í íslensku samfélagi

Frá því að land byggðist hefur orðið mikil eyðing jarðvegs og skóga á Íslandi. Baráttan við eyðingaröflin og endurheimt þeirra gæða sem skógar búa okkur á sér orðið langa sögu hérlendis. Þannig hefur vernd birkiskóganna verið mikilvægur þáttur í lögum um skógrækt frá upphafi og er svo enn í nýjum lögum frá árinu 2019.

Skógrækt hefur verið stunduð á Íslandi í meira en öld. Frumkvæðið að ræktun skóga kom erlendis frá þegar stofnað var til skógarlunda eins og Furulundarins á Þingvöllum árið 1899 og Grundarreitar í Eyjafirði árið 1900. Kaup ríkisins og með því verndun Hallormsstaðaskógar og Vaglaskógar um aldamótin 1900 voru síðan opinber inngrip til að stöðva eyðingu skóga á landinu.

Íslendingar eru í auknum mæli að gera sér grein fyrir gildi skóga. Þeir eru til dæmis meðal vinsælustu útivistarsvæða landsins. Með góðu skipulagi geta skógar þjónað mikilvægu hlutverki fyrir lýðheilsu landsmanna, eins og glöggt hefur sýnt sig í kórónuveirufaraldrinum.

Skógar eru mikilvægir fyrir margra hluta sakir. Náttúruskógar sem samanstanda af innlendum trjátegundum eru meðal lykilvistkerfa í náttúru landsins og gegna þar mjög mikilvægu hlutverki. Gildi þeirra gagnvart náttúruvá eins og eldgosum hefur til dæmis sannað sig. Íslensku tegundirnar birki, víðir og reyniviður hafa líka þann eiginleika að dreifa sér hratt þar sem aðstæður eru fyrir hendi. Það eykur gróðurþekju og byggir upp jarðveg sem er mikilvægt fyrir endurreisn lífríkis og bindingu kolefnis á svæðum þar sem landeyðing hefur orðið. Þess vegna er nú aukin áhersla á endurheimt náttúruskóga á landinu. Samstarf við þá sem eiga slíka skóga eða land þar sem endurheimt þeirra er möguleg er forsenda þess að vel takist til við að auka útbreiðslu þeirra og tryggja fullnægjandi verndun og sjálfbæra nýtingu.

Ræktun nytjaskóga með erlendum trjátegundum er studd af ríkinu. Skógrækt sem skila á verðmætum afurðum til framtíðar er eins og hver annar landbúnaður. En nytjaskógrækt tekur vissulega tíma og þarf að byggja á skýrri framtíðarsýn og haldgóðri þekkingu. Skipuleggja þarf ræktun slíkra skóga með tilliti til þess umhverfis sem er á hverjum stað, bæði vistkerfanna sem þar eru og einnig ásýndar.

Aukin endurheimt náttúruskóga og skógrækt eru ein af lykilaðgerðum Íslands til að bregðast við loftslagsbreytingum. Því hefur ríkið aukið myndarlega við fjárframlög til þessara þátta. Heildarframlög til verkefnisins Skógrækt á lögbýlum hafa t.d. aukist úr 225 milljónum króna árið 2018 í 390 milljónir króna á þessu ári. Þar að auki var um 200 milljónum veitt til verkefna á sviði kolefnisbindingar í gegnum fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar árið 2020. Skógræktinni og Landgræðslunni var þá falið að ráðstafa bróðurparti upphæðarinnar í aukna gróðursetningu, frætínslu, endurheimt votlendis, girðingar og grisjun skóga.

Aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi með endurheimt og ræktun skóga er afar mikilvægur þáttur í vegferð okkar Íslendinga í átt að kolefnishlutleysi árið 2040, sem stjórnvöld stefna að. Gott samstarf við landeigendur er lykilatriði í að vel takist til – og ég hlakka til að halda samstarfinu áfram.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta