Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. september 2021 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi GuðbrandssonUmhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Stóraukin framlög til loftslagsvísinda á Íslandi

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist á Kjarnanum 10. september 2021.

 

Stóraukin framlög til loftslagsvísinda á Íslandi

Stöðuskýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kom út í byrjun ágúst er afdráttarlaus og skilaboðin eru enn skýrari en áður um mikilvægi frekari aðgerða.

Loftslagsmálin hafa verið eitt af aðaláherslumálum mínum og munu vera það áfram. Á kjörtímabilinu höfum við aukið bein framlög til loftslagsmála um meira en 700%, styrkt stjórnsýslu málaflokksins, ráðist í fjölda aðgerða á grunni fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunarinnar í loftslagsmálum, stóraukið landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis og sett fram ný og efld markmið um samdrátt í losun.
Eitt af því sem ég hef líka lagt áherslu á sem umhverfis- og auðlindaráðherra, er að efla grunnrannsóknir, vöktun og nýsköpun og auka við mannauð í loftslagsmálum.

Vöktun hefur verið efld

Haustið 2019 skrifaði ég undir samning við Hafrannsóknastofnun og Veðurstofu Íslands um að koma á aukinni vöktun á súrnun sjávar og hopi jökla. Á fimm árum renna meira en 250 milljónir króna aukalega til þessara mikilvægu verkefna. Áður hafði verið ákveðið að efla vöktun á sjávarstöðubreytingum og skriðuhættu, meðal annars með vísan í afleiðingar loftslagsbreytinga. Góð vöktun bætir vísindalega þekkingu og er lykill að aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum í framtíðinni.

Betri vitneskja um losun og bindingu lands

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landi er stór hluti af losun Íslands. Á þessu kjörtímabili hef ég lagt áherslu á að auka bindingu kolefnis með aukinni landgræðslu og skógrækt og að draga úr losun með því að endurheimta votlendi. Umfang allra aðgerðanna þriggja hefur margfaldast á undanförum árum.
Á sama tíma er brýnt að bæta þekkingu á losun og bindingu í mismunandi gerðum lands. Með aukinni þekkingu getum við sett okkur skýrari markmið, forgangsraðað betur aðgerðum okkar í þágu sjálfbærrar landnýtingar og loftslagsmála og gert loftslagsbókhald Íslands nákvæmara. Á árunum 2021-2023 mun stóraukið fjármagn renna til Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Umhverfisstofnunar, þ.m.t. rúmlega 140 milljónir króna bara á árinu 2021, til þess að efla þessa þekkingu.

Nýr doktorsnemasjóður og rannsóknir á metanlosun nautgripa

Í vor voru í fyrsta sinn auglýstir styrkir fyrir doktorsnema sem stunda rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags en styrkirnir eru hugsaðir til að efla sérstaklega þekkingu á þessu sviði svo ná megi meiri árangri í endurheimt landgæða og landgræðslu. Styrkjum til doktorsnema verður úthlutað á næstu vikum, fyrsta úthlutun er til þriggja ára og nemur um 100 milljónum króna.
Nú nýlega styrkti síðan umhverfis- og auðlindaráðuneytið Landbúnaðarháskóla Íslands til rannsókna á losun metans frá meltingu nautgripa en sú losun er stór hluti heildarlosunar frá landbúnaði.

Stutt við framfarir á tímum breytinga

Í fyrra var tæplega 170 milljónum króna úthlutað í styrki til verkefna á sviði loftslagsbreytinga og sjálfbærni í gegnum markáætlun stjórnvalda um samfélagslegar áskoranir. Frekara fjármagn hefur verið tryggt á næstu árum. Markáætlun er opinn samkeppnissjóður sem vistaður er hjá Rannís og hefur það markmið að stuðla að fjölbreyttu og nýsköpunarmiðuðu samfélagi á tímum örra breytinga. Tilgangurinn er að hraða framförum og leiða saman þekkingu mismunandi greina. Sem dæmi um verkefni sem styrkt hafa verið af markáætlun má nefna verkefni um endurheimt birkivistkerfa, sjálfbæran áburð og sjálfbært mataræði.

Loftslagssjóður fyrir nýsköpun og fræðslu

Loftslagssjóður var settur á fót árið 2019 til þess að efla fræðslu- og nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála. Nú þegar hafa 56 verkefni hlotið styrki að heildarupphæð 335 m.kr. Sem dæmi um verkefni sem Loftslagssjóður hefur styrkt má nefna þróun smátækja til að mæla losun koltvísýrings úr jarðvegi, rannsóknir á umhverfisvænum arftaka sements, þróun smáforrits gegn matarsóun og gerð útvarpsþátta, sjónvarpsþátta og vefsíða.

Stefnum hærra á næsta kjörtímabili

Vísindin sýna okkur að við þurfum að ganga enn lengra og hlaupa enn hraðar í glímu okkur við loftslagsvána. Í þeirri viðureign felst líka fjöldi tækifæra, ekki síst með grænum fjárfestingum fyrirtækja og hins opinbera. Undirstaðan er hins vegar vísindin, þekkingin og nýsköpunin, sem við þurfum að halda áfram að efla á næsta kjörtímabili.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta