Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðmundur Ingi Guðbrandsson

Ólafía Jakobsdóttir fær nátturuverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti

Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti 2021

Bandaríski náttúru- og umhverfisverndarsinninn Robert Marshall, einn stofnandi The Wilderness Society í Bandaríkjunum, komst svo að orði að eina vonin til bjargar náttúru Jarðar felist í samtökum hugaðra einstaklinga sem tilbúnir eru að berjast fyrir frelsi óbyggðanna. Við þekkjum sögu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti. Hún var baráttukona og náttúruverndarsinni sem háði sína orrustu fyrir vernd Gullfoss einsömul - ekki í samtökum annarra hugaðra einstaklinga. Sigríður sýndi því ótrúlegt þrek, elju og áræðni í sinni baráttu. Hún var brautryðjandi á sviði náttúruverndarmála á Íslandi og hefur æ síðan verið íslenskum náttúruverndarsinnum fyrirmynd.

Þetta er í tólfta sinn sem náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er afhent en þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, efndi til viðurkenningarinnar árið 2010 til handa þeim sem unnið hafa markvert starf á sviði náttúruverndar, í minningu brautryðjandans Sigríðar.

Handhafi náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti árið 2021 er Ólafía Jakobsdóttir baráttukona og náttúruverndarsinni úr Skaftárhreppi.

Skaftfellingurinn Ólafía Jakobsdóttir er fædd í Kálfafellskoti í Fljótshverfi 14. júní árið 1944 en flutti sem unglingur með foreldrum sínum að Hörgslandi á Síðu hvar hún býr enn. Og eins og annað gott fólk á Ólafía ættir sínar að rekja í Meðallandið!

Ólafía sat lengi í hreppsnefnd og síðar sveitarstjórn, var sveitarstjóri Skaftárhrepps ein fjögur ár og hefur verið fulltrúi síns samfélags í fjölmörgum ráðum og nefndum s.s. minjaráði Suðurlands, komið að stofnun ferðamálafélags og frumkvöðlaklasa, skógræktarfélags og Kötlu jarðvangs svo dæmi séu tekin. Sem sveitarstjóri beitti Ólafía sér m.a. fyrir því að koma á skipulagi og umhirðu í Friðlandinu í Lakagígum, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru, og uppbyggingu annarra innviða til verndar náttúrunni í Skaftárhreppi. Í bók Steinunnar Sigurðardóttur Heiða – fjalldalabóndinn heitir einn kaflinn hreinlega Ólafía. Í honum hefur Steinunn þetta eftir Heiðu:

,,Ólafía Jakobsdóttir á Hörgslandi á Síðu stendur upp úr hér fyrir austan í náttúruverndinni. Hún var lengi sveitarstjóri og er búin að standa sína einmanalegu vakt fyrir náttúruna með miklum eldmóð í langan tíma. ... Hún byrjaði semsagt að tala máli náttúrunnar áður en nokkur þorði að stimpla sig náttúruverndarsinna eða vildi fara hátt með að þeim væri umhverfisvernd hugleikin.“ (tilvitnun lokið).

Í tæp 20 ár hefur Ólafía starfað á Kirkjubæjarstofu - lengst af sem forstöðumaður – á þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri sem sinnir rannsóknum og fræðistörfum á sviði náttúrufars, sögu og menningar. Í tíð Ólafíu á Kirkjubæjarstofu hefur t.a.m. verið lögð mikil áhersla á skráningu örnefna, fornra leiða og sagna úr Skaftárhreppi. Ólafía lauk prófi í ferðamálafræðum frá Hólaskóla árið 2005 og sat sem fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans til ársins 2019.

Ólafía átti drjúgan þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands árið 2005 og sat í stjórn samtakanna samfleytt í 13 ár, um helming tímans sem formaður. Þar kynntist ég störfum hennar fyrst. Þá var Ólafía ein aðaldriffjöðrin í stofnun Eldvatna -samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi árið 2010. Frá upphafi hafa Eldvötn fyrst og fremst verið málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða, unnið að eflingu almenningsvitundar – einkum íbúa Skaftárhrepps – um gildi náttúrunnar, umhverfismál og náttúruvernd og veitt stjórnvöldum og framkvæmdaraðilum gagnrýnið aðhald. Þá hefur Ólafía látið sig náttúruverndamál varða um land allt. Ég veit fyrir víst að aðrir náttúruverndarsinnar, sem berjast fyrir vernd svæða gegn virkjunum í sínu héraði, líta á Ólafíu sem fyrirmynd.
Gunnar Á. Gunnarsson, sem sat með Ólafíu í stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, kemst svo að orði:

,,Óhætt er að fullyrða að Ólafía hafi notið óskoraðs trausts innan samtakanna, bæði meðal almennra félagsmanna og innan stjórnar, sem endurspeglast í fjölda trúnaðarstarfa og verkefna sem hún tók að sér fyrir samtökin. Verður tæplega kastað tölu á þær mýmörgu ályktanir, umsagnir og tillögur um umhverfismál sem Ólafía hefur lagt traustan grunn að fyrir hönd samtakanna. Ólafía var jafnan óþreytandi að sækja fyrir hönd samtakanna - oftast um langan veg - samráðs- og nefndafundi á vegum ríkisins, sveitarfélaga og annarra almannasamtaka.

Ólafía hefur í störfum sínum byggt upp gríðarlega þekkingu á umhverfismálum, ekki síst þeim sem lúta að Suðurlandi og heimahéraði hennar. Þar hafa borið hæst málefni þjóðgarða og friðlýsinga og umhverfisáhrif virkjanaáforma og annarra verklegra framkvæmda. Í þessum efnum hefur reynsla Ólafíu af sveitarstjórnarmálum komið henni til góða. Hvarvetna sem færi hafa gefist hefur Ólafía mælt fyrir málstað umhverfisverndar af víðsýni og rökfestu.“

Það er rétt hjá fjalldalabóndanum Heiðu að Ólafía hafi staðið sína einmanalegu vakt fyrir náttúruna með miklum eldmóð í langan tíma. Steinunn hefur eftir Heiðu um Ólafíu: ,,Hún hefur lengi beitt sér í náttúruverndinni. Það var nú ekki allt fallegt sem andstæðingar hennar sögðu um hana. Eitt viðkvæðið var: ,,Það má ekkert fyrir helvítis kellingunni!““. En fyrirmyndin Ólafía, hvergi bangin og staðföst, sá líka eins og Robert Marshall, að eina vonin til bjargar náttúru Jarðar fólst í samtökum hugaðra einstaklinga sem tilbúnir eru að berjast fyrir frelsi óbyggðanna. Því lagðist hún á árar með félögum í frjálsum félagasamtökum í náttúruvernd og sótti sér styrk í samstöðunni. Og ekki bara það, því hún var líka ein af stofnendum Z-listans í Skaftárhreppi – náttúruverndarframboði sem bauð fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum árið 2014. Í bókinni Heiða hefur Steinunn eftir fjalldalabóndanum: ,,Ólafía Jakobsdóttir hefur verið okkur umhverfisverndarfólkinu hér fyrir austan mikil fyrirmynd og það er eftirtektarvert að helstu aðstandendur Z-listans eru konur. Við sem á eftir komum eigum Ólafíu gríðarlega mikið að þakka og við búum vel að reynslunni sem hún hefur safnað.“

Ég bað rithöfundinn Steinunni Sigurðardóttur, sem þekkir Ólafíu vel, um að setja nokkur orð á blað af tilefninu sem hún sendi mér frá Frakklandi:

,,Hún er kona ein í fámennu sveitarfélagi, og hefur á þeim langa tíma sem hún hefur látið sig náttúruvernd varða, verið einstaklingur sem sýnir mátt sinn og megin með gáfunum, hæglætinu, og yfirveguðum málflutningi. Það er Ólafíu mest að þakka að eitt ómetanlegasta svæði Íslands, víðernin ómanngerðu fyrir ofan Skaftártungu, Síðu og Fljótshverfi, Skaftáreldahraunlandið, fljótalandið, jökullandið, með Lómagúp, hefur enn fengið að vera í friði fyrir íslenskum hervirkjum af hræðilegustu tegund. Hún hefur staðið vörð um eitt stórbrotnasta og fjölbreyttasta svæði á öllu landinu - svæði sem er til dæmis endalaust hátt skrifað hjá ljósmyndurum. Það er Ólafía sem er framfarasinni. Þeir sem horfa til ónauðsynlegra spjalla á íslenskri náttúru í þágu ímyndaðra orkuþarfa eru afturhaldsmenn og íhaldsmenn gamalla tíma.“

Kæra Ólafía, ég vil biðja þig um að taka við náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2021 um leið og ég vil færa þér miklar þakkir fyrir þrekið, eljuna og áræðnina í þágu íslenskrar náttúru.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta