Ávarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2021
Ágæta samkoma. Gott að fá að vera með ykkur hér í dag.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna í náttúruvernd á Íslandi.
• Rannsóknir, flokkun og kortlagning lífríkis og jarðminja – þ.e. að halda utan um grunnþekkingu á náttúrufari landsins
• Vöktun náttúru landsins, meta ákjósanlega verndarstöðu og leiðbeina um hóflega nýtingu.
• Miðlun upplýsinga og þekkingar
• Skráning náttúruminja
Stofnunin hefur sett sér nýtt skipurit sem er einfalt í útliti. Starfið byggir hins vegar á því fólki sem vinnur hjá stofnuninni, skýrri sýn á verkefnin framundan, markmiðum um að ná árangri og aðgerðum. Það er líka ljóst að starfið byggir á samstarfi, við náttúrustofur en einnig aðrar stofnanir. Síðustu misseri gefa sterka vísbendingu um að samstarf sé að aukast svo um munar, um t.d. vöktun, veiðistjórnun, undirbúning friðlýsinga, söfnun og miðlun upplýsinga og gagna. Þetta er mjög jákvæð þróun.
Með átaki síðustu ára í vöktun náttúruverndarsvæða hefur orðið til skriðþungi í vöktunarrannsóknum. Þetta átak í vöktun er sett af stað á forsendum þess að álag hafi aukist á náttúruverndarsvæðum vegna ferðamennsku. Þetta er hins vegar hlutverk NÍ samkvæmt lögum og verulegt samspil við vöktun lykilþátta í náttúru Íslands.
Samkvæmt drögum að þriggja ára stefnumótun Náttúrufræðistofnunar á að innleiða vöktun náttúruverndarsvæða undir álagi ferðamanna sem hluta af heildstæðri áætlun um vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru. Vöktunin byggir m.a. undir sjálfbæra nýtingu. Í þessu felst að til ársins 2024 verður komið á vöktun forgangsvistgerða/gróðurs og válistaplantna á 38 svæðum, vöktun jarðminja (fossar, gígar, steingervingar, hraun, nýtt land undan jökli) á 30 svæðum, vöktun fugla á 25 svæðum (klófuglar, bjargfuglar, vatnafuglar, andfuglar, mófuglar) og vöktun spendýra á 4 svæðum (refir í grenjum, selir í látrum). Lykilþættir verða vaktaðir á svæðum sem eru á vöktunaráætlun vegna vöktunar náttúruverndarsvæða og annarra viðkvæmra svæða.
Þetta er að mínu mati metnaðarfullt og ánægjulegt að sjá.
Vöktunarrannsóknir eru grunnur að sjálfbærri nýtingu. Þetta sjáum við t.d. hvað varðar veiðistofna fugla t.d. rjúpu, gæsar og svartfugls. Því miður tókst ekki að fá samþykkt endurskoðuð „villidýralög“ á liðnu þingi. Þar var m.a. kveðið á um að innleiða stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir tegundir. Ráðuneytið er nú í samstarfi við Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun að móta þróunarverkefni um gerð stjórnunar- og verndaráætlana sem mun þá gefa okkur reynslu í gerð og innleiðingu slíkra áætlana, og skapa enn betri grunn til að innleiða slíkt í lög.
Náttúrufræðistofnun er lykilstofnun í mati á verndargildi landsvæða, jarðminja, vistgerða og tegunda. Þetta er grunnurinn að náttúruminjaskrá. Fyrir liggja tillögur stofnunarinnar að svæðum á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár. Þessar tillögur eiga að leggjast fyrir Alþingi og er unnið að forgagnsröðun þeirra. Jafnframt vinnur Náttúrufræðistofnun nú að endurskoðun C-hluta náttúruminjaskrár. Þessu mati á verndargildi náttúru landsins þurfum við að koma til skila til almennings og stjórnvalda almennt til að skapa meðvitund og skilning á hversu mikilvæg náttúruvernd er. Miðlun slíkra skilaboða þarf að vera einföld, hún má ekki vera of tæknileg. Náttúruminjaskrá er í raun grunnur að því að kenna fólki náttúrulæsi.
Spár um breytingar í náttúruvá samhliða loftslagsbreytingum eru að rætast. Hér á landi er birtingarmynd þeirra líka eins og spáð var fyrir um s.s. skriðuföll, öfgar í veðurfari, breytingar í lífríki bæði á landi og í sjó. Þekking á náttúrunni út frá þessum sjónarhóli er því ekki bara mikilvæg heldur nauðsynleg.
Það er ljóst að með núgildandi náttúruverndarlögum fól Alþingi Náttúrufræðistofnun Íslands ýmis verkefni í náttúruvernd, sem auka hlutverk stofnunarinnar í stjórnsýslu náttúruverndar. Það má vel velta fyrir sér hversu æskilegt þetta er fyrir stofnun sem á að sinna rannsóknum og vöktun. En starfsfólk stofnunarinnar býr yfir mestri þekkingu á verndargildi náttúrunnar og er því best til þess fallið að leggja mat á ýmislegt í stefnumótun hvað það varðar, hvort sem það snýr að friðlýsingum eða öðrum verkefnum. Þetta vekur þó alltaf spurningar um flækjustig í þessu örlitla íslenska samfélagi. Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu tilheyra nú 14 ríkisaðilar. Ráðuneytið hefur lengi séð mörg tækifæri í eflingu verkefna með auknu samstarfi, samþættingu og sameiningum stofnana. Því miður hefur gengið hægt að nýta þau tækifæri. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því að áskoranir hafa breyst. Loftslagsmál með breytingum á náttúrufari og aukinni náttúruvá, aukin ásókn í orkuöflun og það eftir nýjum leiðum, illfyrirsjáanleg ferðamennska, tækniþróun og miðlun vísindalegra upplýsinga kallar allt á öflugar stofnanir með sveigjanleika til að takast á við hraðar breytingar í samfélaginu og í umhverfinu.