Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. desember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Úrvinnslusjóðs 2021

Stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs. Ágætu gestir.

Ný ríkisstjórn hefur nú tekið við stjórnartaumunum og nýr sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf undirritaður. Í sáttmálanum eru loftslagsmál dregin fram sem ein af þremur stærstu áskorunum kjörtímabilsins. Þar birtist sú framtíðarsýn að Ísland verði lágkolefnishagkerfi og nái kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Jafnframt verði sett sjálfstætt landsmarkmið fyrir árið 2030 um 55% samdrátt í losun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Dæmi um slíka losun er losun frá innanlandssamgöngum, iðnaði og meðhöndlun úrgangs. Markmið um 55% samdrátt í losun er metnaðarfullt og því verður ekki náð nema hér á landi komist á virkt hringrásarhagkerfi með vörur og þjónustu. Í virku hringrásarhagkerfi eru framleiðsla og neysla sjálfbær, dregið er úr myndun úrgangs, kostir deilihagkerfisins eru nýttir og auðlindir varðveittar með því að halda hráefni í hringrás. Hér leikur Úrvinnslusjóður eitt af lykilhlutverkum.

Starfsemi Úrvinnslusjóðs byggir á grunnhugmyndinni um framlengda ábyrgð vöruframleiðenda og mengunarbótareglunni. Í þessu felst að sá sem mengar umhverfið skuli einnig bæta tjónið og að sá sem til úrgangs stofnar greiði fyrir endurvinnslu og aðra meðhöndlun úrgangsins. Þessi hugmyndafræði er í takti við þá áherslu sem ég legg á mikilvægi einkageirans við innleiðingu hringrásarhagkerfis og í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun.

Með aðkomu að stjórn Úrvinnslusjóðs gefst atvinnulífinu tækifæri til að koma að uppbyggingu og stjórn kerfisins og tryggja hagkvæmni og skilvirkni þess. Ætla má að saman fari hagsmunir framleiðenda og innflytjenda, neytenda og samfélagsins alls um að kerfið sé rekið með sem minnstum kostnaði. Um leið er það inntak þessarar hugmyndafræði að það séu framleiðendur sem hafi hvað mestu áhrifin á þann samfélagslega kostnað sem vörur þeirra valda. Framleiðendur hafi með öðrum orðum val um að breyta hönnun og efnisvali við framleiðslu þannig að vörurnar valdi sem minnstum umhverfisáhrifum á notkunartíma þeirra og eftir að þær verða að úrgangi. Framlengd framleiðendaábyrgð er því kjörin leið til að beisla kraftinn til nýsköpunar sem býr í atvinnulífinu. Það er ekki síður mikilvægt að beita jákvæðum, hagrænum hvötum til að stuðla að nýsköpun við flokkun og endurvinnslu úrgangs. Í dag er hagkerfi heimsins innan við 9% hringrænt.

Við þurfum að vinna hratt og við þurfum nýjar lausnir. Lausnirnar þurfa að koma frá einkageiranum. Það er hins vegar hlutverk hins opinbera að skapa réttu umgjörðina.

Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi lagabreytingar sem mynda undirstöður undir framþróun sem þarf að verða á meðhöndlun úrgangs hér á landi á næstu árum. Takmarkið er að skapa skilyrði fyrir bætta endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs og draga verulega úr myndun hans. Þessar lagabreytingar taka að stærstum hluta gildi eftir rúmt ár og snerta starfsemi Úrvinnslusjóðs í grundvallaratriðum. Um svipað leyti og lagabreytingarnar voru samþykktar gaf ráðuneytið út nýja stefnu um meðhöndlun úrgangs til næstu 12 ára, undir yfirskriftinni Í átt að hringrásarhagkerfi. Þessari stefnu og þeim aðgerðum sem hún innifelur er ætlað að styðja við nauðsynlegar grundvallarbreytingar í málaflokknum. Lagabreytingarnar sem áður voru nefndar eru umfangsmiklar og þeim verða ekki gerð ítarleg skil í ávarpi sem þessu.

Ég vil hins vegar nefna þrjú atriði.
    • Fyrst vil ég nefna breytingu á markmiðsákvæði laga um úrvinnslugjald sem felur í sér að nú er það skýrt að markmið laganna er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis með vörur og þjónustu. Jafnframt er markmiðið að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun vara og endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs með hliðsjón af umhverfislegum ávinningi.
Þessu fylgir til að mynda að úrvinnslugjald á vörur á almennt að vera þrepaskipt þannig að við álagningu gjaldsins sé tekið tillit til endingar viðkomandi vöru, möguleika á viðgerðum ef hún bilar, endurnotkun vörunnar, innihalds hættulegra efna og endurvinnslu vörunnar að loknum notkunartíma. Með því að beita þrepaskiptum gjöldum má því beina hvötum kerfisins ofarlega í virðiskeðjunni, stuðla að hringrásarhugsun við hönnun og framleiðslu á vörum, breyta neysluvenjum og draga úr myndun úrgangs og dreifingu hættulegra efna. Þessi ákvæði fela í sér skýrt leiðarljós fyrir Úrvinnslusjóð um mikilvægi hans við innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi.

    • Önnur breyting sem ég vil vekja athygli á er að nýir vöruflokkar munu bætast við úrvinnslugjaldskerfið. Það er, gler–, málm– og viðarumbúðir, sem bætast við plast–, pappírs- og pappaumbúðir sem fyrir eru í kerfinu. Auk þess bætast við rafhlöður sem knýja áfram rafbíla og önnur slík farartæki og ýmsar einnota plastvörur.

    • Í þriðja lagi vil ég nefna að fjármögnun Úrvinnslusjóðs á meðhöndlun úrgangs verður víkkuð út. Það felur í sér það nýmæli að sjóðurinn mun fjármagna söfnun þeirra vöruflokka sem undir sjóðinn heyra, þegar vörurnar eru orðnar að úrgangi. Þessi fjármögnun mun taka til sérstakrar söfnunar á öllum umbúðaúrgangi og hreinsunar á plastrusli á víðavangi, svo eitthvað sé nefnt. Það eru því að verða grundvallarbreytingar á verkefnum sjóðsins og hlutverk hans að aukast. Þessar breytingar er mikilvægt að undirbúa af natni og í góðu samstarfi við alla hlutaðeigandi.

Ég vil hvetja Úrvinnslusjóð og sveitarfélögin í landinu til samstarfs um útfærslur. Sveitarfélögin bera að lögum ríkar skyldur við stjórnsýslu úrgangsmála. Meðal annars ákveða sveitarstjórnir fyrirkomulag söfnunar á öllum úrgangi sem fellur til, þar á meðal fyrirkomulag sérstakrar söfnunar úrgangsflokka.

Með gildistöku þeirra lagabreytinga sem ég vék að hér á undan mun framlengd framleiðendaábyrgð taka yfir fjármögnun á söfnun sumra úrgangsflokka sem sveitarstjórnir ákveða fyrirkomulagið á. Um leið taka framleiðendur og innflytjendur yfir ábyrgð á tölulegum markmiðum varðandi þessa úrgangsflokka, jafnvel þótt sveitarstjórnir fari áfram með ákvörðunarvald varðandi fyrirkomulag á söfnun þeirra.

Síðustu misseri hefur Úrvinnslusjóður verið í kastljósi fjölmiðla og störf hans legið undir gagnrýni. Mér þykir sjóðurinn hafa brugðist vel við og gripið tækifærið til að gera umbætur í starfi sínu. Mig langar sérstaklega að nefna að sjóðurinn hefur þegar hafið að greiða meira fyrir ráðstöfun úrgangs sem er hagstæð út frá umhverfissjónarmiði.
Það er, hærri greiðslur fyrir úrgang sem fer til endurvinnslu en fyrir úrgang sem fer til brennslu með orkunýtingu. Með því verður til augljós hagrænn hvati til að auka endurvinnslu.

Það er jafnframt ánægjulegt að stjórn Úrvinnslusjóðs hefur nú staðfest og birt ársreikninga sjóðsins fyrir undangengin fjögur ár. Í kjölfar gildistöku gildandi laga um opinber fjármál, árið 2016, kom upp sú staða að stjórnin taldi sig ekki geta staðfest ársreikninga sjóðsins. Tekjur af úrvinnslugjaldi fóru þá að renna í ríkissjóð í stað Úrvinnslusjóðs. Á móti tekjustreyminu er Úrvinnslusjóði svo veitt fjárframlag á grundvelli fjárheimilda í fjárlögum hvers árs. Til að koma til móts við athugasemdir sem voru gerðar við þessa nýju framkvæmd og taka af allan vafa varðandi eignarhald Úrvinnslusjóðs á tekjum af úrvinnslugjaldi lagði ráðuneytið til breytingar sem gerðar voru síðastliðið vor á lögum um úrvinnslugjald en þau taka gildi 1. janúar 2023.

Mikilvægt er að halda því til haga að þótt sífellt séu tækifæri til umbóta við framkvæmd úrvinnslugjaldskerfisins þá verður ekki annað séð en að almenn ánægja ríki með kerfið. Eins og ég nefndi hér áðan verða fleiri vöruflokkar færðir undir kerfið eftir rúmt ár, svo sem allar umbúðir og ýmsar einnota plastvörur.

Ráðuneytið er nú jafnframt með til athugunar hvort mögulegt er að auka endurvinnslu plastúrgangs með því að færa enn fleiri vöruflokka sem innihalda plast undir kerfið. Umsvif og mikilvægi framlengdrar framleiðendaábyrgðar fara vaxandi.

Við þurfum hins vegar alltaf að vera vakandi fyrir umbótum og breytingum á kerfinu og starfsemi Úrvinnslusjóðs og líta til annarra þjóða í því samhengi.

Að endingu langar mig að minnast á að þau tímamót urðu nýlega að formennska í stjórn Úrvinnslusjóðs skipti um hendur. Fráfarandi stjórnarformanni, Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur, vil ég þakka vel unnin störf. Um leið óska ég nýjum formanni, Magnúsi Jóhannessyni, velfarnaðar.

Stjórn og starfsfólk Úrvinnslusjóðs. Til hamingju með daginn og megi ykkur vegna sem allra best í störfum ykkar. Umbreyting ráðandi hagkerfis er viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir. Hagrænir hvatar og nýjar, arðbærar lausnir munu gegna lykilhlutverki. Úrvinnslusjóður mun gegna lykilhlutverki. Ráðuneytið hlakkar til samstarfs við sjóðinn um þau mikilvægu verkefni sem framundan eru við innleiðingu hringrásarhagkerfis á Íslandi.
Góðar stundir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta