Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 2022

Góðir gestir,

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og það er verkefni alls samfélagsins að vinna að því að uppfylla þær skuldbindingar sem settar hafa verið. Skuldbindingar eru bæði alþjóðlegar og svo innanlandsskuldbindingar sem nýlega voru uppfærðar í stjórnarsáttmála. Markmiðið er 55% samdráttur í losun á beina ábyrgð Íslands miðað við tölur ársins 2005 og til að ná því þurfum við að spila okkar besta leik. Stjórnvöld munu ekki ná því markmiði ein og sér og því veltur allt á þátttöku samfélagsins og þar reynir mest á fyrirtækin í landinu.

Sjávarútvegur hefur stóru hlutverki að gegna í íslensku samfélagi sem einn stærsti atvinnugeirinn og óhjákvæmilegt að horft sé til samdráttar í losun þar sem annars staðar. Vissulega er það þannig að aðstæður eru ólíkar milli geira og við þekkjum vel að tækni er mislangt á veg komin en í hafsækinni starfsemi er þróunin hröð. Það eru fjölmörg tækifæri sem hægt er að horfa til og SFS og fyrirtæki innan samtakanna hafa sjálft bent á. Ég hef tekið eftir því að geirinn í heild hefur sýnt mikinn áhuga á því að standa sig hvað þetta varðar og lyft umræðum um málefnið á hærra plan m.a. með því að halda opna fundi um hvernig sjávarútvegur geti gert betur í umhverfismálum, svo eitthvað sé nefnt. Slíkt samtal er til fyrirmyndar.

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð markverðum árangri í að draga úr olíunotkun. Tækifæri eru til að gera enn betur en staðan er sú í dag að losun vegna olíunotkunar innlendra og erlendra fiskiskipa er um fimmtungur af losun á ábyrgð Íslands. Kælimiðlar standa einnig að baki um 7% losunar, en um helmingur hennar á rætur í sjávarútvegi.

Starfshópur um græn skref í sjávarútvegi sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði skilaði skýrslu sinni í júní 2021. Þar er lagt til markmið um a.m.k. 50% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskiskipa sem kaupa eldsneyti á Íslandi til ársins 2030 miðað við árið 2005. Auk þess verði stefnt að því að losun frá fiskiskipum í íslenskum höfnum verði alfarið útrýmt frá árinu 2026. Stefnt skal að því að árið 2030 verði komið skip í fiskiskipaflotann sem verði knúið endurnýjanlegum orkugjöfum og í flota smábáta verði a.m.k. 10% nýrra báta knúin rafmagni að hluta eða öllu leyti frá árinu 2026. Þetta eru stórhuga markmið sem við verðum að leggja kapp á að ná.

Samhliða útgáfu skýrslunnar var gefin út yfirlýsing íslenskra stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að stefna í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs frá 2005 til 2030. Unnið verður sameiginlega að skilgreindum aðgerðum sem stuðla eiga að því að markmiðið náist og skilgreind voru verkefni sem stjórnvöld og greinin í sameiningu ráðast í.

Nánast allt íslenskt sjávarfang er selt á erlendum mörkuðum og við verðum að gæta að því að tryggja samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Það felast tækifæri í því að geta boðið til sölu fiskafurðir úr stofnum sem nýttir eru með sjálfbærum hætti og með kolefnishlutlausum veiðum. Það er framtíðin.

Þetta er aðeins upptaktur að nánari samvinnu ráðuneytis umhverfis, orku- og loftslagsmála og sjávarútvegsgeirans, en samstarf við geirann og fagráðuneyti er algert lykilatriði hvað varðar að ná árangri í loftslags- og umhverfismálum. Á það samráð legg ég höfuð áherslu og er hingað kominn til að ræða beint við ykkur um hvernig við getum sem best náð árangri.

Hið talaða orð er ágætt en að láta verkin tala er enn betra.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta