Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávörp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á kynningarfundi um skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum

Kæru gestir, fjölmiðlar og hagaðilar.

Verið þið velkomin á þennan kynningarfund um niðurstöður vinnu starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálunum.

Þegar ég tók við sem ráðherra umhverfis-, orku og loftslagsmála í kjölfar síðustu kosninga varð mér um leið ljóst að verkefnin sem biðu væru afar spennandi enda markmið stjórnvalda og heimsbyggðarinnar í þessum efnum mjög háleit. En verkefnin eru einnig gífurlega stór og alls ekki einföld.

Í ljósi þeirra háleitu markmiða sem stjórnvöld höfðu sett sér var mikið gæfuspor að sameina orkumál og loftslags- og umhverfismál í einu ráðuneyti. Enda eru orkumálin og orkuskiptin sem fram undan eru, sem og tækninýjungarnar og lausnirnar í orkumálunum beintengd loftslagsmálunum. Í raun hef ég litið svo á frá byrjun að málaflokkarnir þrír snúist í raun á endanum allir um það sama, sem er stóra verkefni okkar tíma, að takast á við og leysa loftslagsvána sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Það er okkur öllum ljóst að staðan í orkumálunum hefur verið í ákveðinni kyrrstöðu undanfarin ár. Rammaáætlun hefur ekki komist í gegnum þingið í níu ár og umræðan í orkumálunum oft á tíðum verið í skotgröfum. Þegar að ég skoðaði markmiðin og verkefnin sem tilgreind eru í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem snúa að loftslags- og orkumálunum varð mér þó ljóst að það vantaði heildræna samantekt á stöðu mála í orkumálunum að teknu tilliti til þeirra markmiða sem við höfum sett okkur.

Í byrjun árs skipaði ég því þriggja manna starfshóp sem fékk það verkefni að búa til svokallaða „grænbók“ um stöðuna í orkumálunum. Markmið hópsins var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga á sviði orkumála, á aðgengilegu formi til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Ekki var því um að ræða stefnu heldur eingöngu að kalla fram, eftir bestu mögulegu staðreyndum, stöðu mála núna og sem við getum notað sem leiðarvísi um það hvað séu bestu skrefin fram á við í málaflokknum.

Starfshópurinn var skipaður þeim Vilhjálmi Egilssyni, Ara Trausta Guðmundssyni og Sigríði Mogensen. Frá ráðuneytinu störfuðu með hópnum þau Erla Sigríður Gestsdóttir og Magnús Dige Baldursson.

Starfshópurinn hafði samráð við sérstakan samráðshóp ráðuneytisins og stofnana auk þess að á fjórða tug hagaðila lögðu starfshópnum lið við vinnu skýrslunnar. Hópurinn hefur nú skilað af sér skýrslunni og vil ég þakka þeim kærlega fyrir þá vinnu sem að baki hennar liggur.

Starfshópurinn mun nú kynna niðurstöður skýrslunnar og vil ég því bjóða formann hópsins, Vilhjálm Egilsson upp á sviðið.

-----------------

Ágætu gestir

Skýrslan sem kynnt hefur verið í dag dregur fram staðreyndir um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum. Í henni er að finna upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála á aðgengilegu formi sem stjórnvöld, hagaðilar og almenningur eiga að nýta sér til að taka umræðuna um hvernig við viljum ná okkar metnaðarfullu markmiðum. Það liggur alveg fyrir að við munum aldrei ná öllum staðreyndum upp á kílówatt inn í eina skýrslu. En við erum nú með í höndunum afbraðgs grunnskjal sem við eigum að nýta sem leiðarvísi að næstu skrefum.

Ég tel ljóst er að tækniframfarir eru lykillinn að því að við náum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Aðgerðir í loftslagsmálum til að ná kolefnishlutleysi hafa framkallað græna iðnbyltingu um allan heim. Við Íslendingar þurfum að svara þeirri spurningu hvort við ætlum að vera virkir þátttakendur í þessari byltingu.

Líkt og fram kemur í skýrslunni þá spanna valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir breitt bil. Allt frá því að tryggja áframhaldandi hagvöxt og bætt lífskjör til þess að slá af, horfa inn á við, draga saman orkusækna atvinnustarfsemi og líta til annarra verðmæta. Hvar við ákveðum að stíga niður fæti á þessu bili er risastór ákvörðun. Það hafa allir á þessu skoðun og því mikilvægt að þing og þjóð kynni sér málin vel.

Það er von mín að með þessari skýrslu takist okkur að koma sem flestum á sömu blaðsíðuna í umræðunni. Að umræðan komist úr skotgröfum og að við getum litið saman til framtíðar og leitað lausna við verkefnunum sem fram undan eru.

Upplýsingarnar liggja nú fyrir og ég hvet alla til að kynna sér málefnið á dýptina. Síðan skulum við ræða saman um hvernig framtíð við viljum skapa og hvernig við getum skapað sem mesta sátt með það að markmiði að taka þátt í framtíðinni og ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur.

Ég nálgast þetta verkefni af auðmýkt, það er ekki einfalt verk að ná sátt um sjónarmiðin sem hér eru undir. En eitt er víst, við verðum að leggja af stað inn í grænu framtíðina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta