Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á opnum ársfundi Samorku

Kæru gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í á opnum ársfundi Samorku með yfirskriftina – Græn framtíð: Hvað þarf til?

Hvað þarf til? Það er stóra spurningin. Orkuskiptin eru okkar stóra verkefni á næstu misserum jafnt á sviði orku- sem loftlagsmála, eins og okkur hefur verið tíðrætt um undanfarnar vikur og mánuði. Hvað þarf til að græn framtíð þar sem við höfum náð fullum orkuskiptum verði að veruleika? Ekki skortir okkur metnaðinn eða góðu áformin, þau eru skýr. Orkustefna fyrir Ísland setti það langtímamarkmið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi fyrir 2050, og stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar bætti um betur og flýtti þessu markmiði til 2040. Það þýðir að við höfum aðeins 18 ár til stefnu.

Græna framtíðin okkar þarf líka að hafa náttúruvernd í hávegum. Við þurfum að gæta að því að halda jafnvægi milli nýtingar og verndar. Við náum ekki markmiðum okkar nema með því að fara í orkuskiptin. Þetta liggur fyrir. Orkuskiptunum fylgja augljósir kostir fyrir umhverfi, efnahag og þjóðaröryggi. En náttúruvernd skiptir líka máli. Í náttúrunni felast mikil verðmæti og það er afar mikilvægt að það sé skynjun allra í samfélaginu að viljinn til þess að vernda okkar einstöku náttúru sé ekki aukaatriði. Ef að það gerist lendum við í vandræðum. Finna verður jafnvægi í málaflokknum og það verða allir aðilar að skynja að svo sé.

Það er því ljóst að verkefnin framundan eru stór.

Þegar ég tók við nýju embætti varð mér strax ljóst að margt í þessum málum var óljóst og óskýrt og því var það eitt af mínum fyrstu embættisverkum að setja af stað vinnu við gerð stöðuskýrslu, eða nokkurs konar grænbókar, til að varpa ljósi á hvað við værum að fást við. Það kom á daginn í þeim sviðsmyndum sem nefndin tók saman fyrir mig að umfangið er afar mikið. Sú sviðsmynd sem gerir ráð fyrir fullum orkuskiptum segir okkur að ef innlend orka eigi að koma til kastanna í fullum orkuskiptum og að við stefnum áfram á braut hagvaxtar og framfara séum við að horfa fram á 125% aukningu á orkuframleiðslu. Við þekkjum það að undirbúningur og framkvæmdir nýrra virkjana taka langan tíma, jafnvel áratug eða meira. Við erum einnig með geira þar sem tæknin fyrir orkuskiptin er ekki alveg tilbúin en er að þróast.

Stöðuskýrslan gefur okkur mikilvæga innsýn í hvar við erum stödd í marsmánuði 2022. Orkumálin eru mikilvægur málaflokkur í hugum landsmanna og stendur okkur öllum nærri. Við viljum hafa aðgang að öruggri og hreinni orku, á viðráðanlegu verði. Það er ekki ásættanlegt að kynda fjarvarmaveitur og verksmiðjur með olíu, jafnvel þó það sé í skamman tíma. En eins og við þekkjum vel þá hefur vatnsstaða í lónum og aukin eftirspurn eftir grænni orku leitt til þess að rafmagn hefur verið skert til rafkyntra hitaveitna með auknum kostnaði og olíumengun. Þá hafa stórnotendur einnig verið skertir og þar með tapast útflutningstekjur.

Mörg áhersluverkefni hafa verið sett af stað í ráðuneytinu til að bæta úr og stuðla að bættu orkuöryggi og bættri nýtingu. Nefna má starfshóp sem vinnur að bættu orkuöryggi til almennings, frumvarp til að einfalda ferli aflaukningar virkjana sem og frumvarp til að flýta varmadælnavæðingu hafa litið dagsins ljós. Orkusjóður hefur verið styrktur verulega og er tæpur milljarður að fara í orkuskiptaverkefni strax á þessu ári. Hafinn er vinna að gerð frumvarps um umhverfi vindorku og þar er í mörg horn að líta og gott að geta litið til reynslu annara ríkja í þeim efnum.

Orkuskiptin á landi eru komin af stað, það er að segja með heimilisbílinn og Ísland getur státað sig af því að vera með þeim fremstu á heimsvísu í þeim efnum. En það er einungis 10% af þeim bílaflota. Þar eru margar áskoranir til að ná fullum orkuskiptum.

Þá eru eftir orkuskipti á stærri bílum, innanlandsflugi, skipaflotanum og í millilandaflugi.

Allt stór verkefni en millilandaflugið og skipaflotinn langstærst. Tæknin er ekki tilbúin en þróunin er hröð. Skýrslan eða grænbókin sýnir að við okkur veitir ekki af allri innlendri orku á innlendan markað. Auðvitað er mikið af innlendri orku útflutningur. Málmverksmiðjur, gagnaver og ýmislegt annað eru skýr dæmi um það og við íslendingar lifum af því að selja útlendingum vörur og þjónustu. En það er ekkert sem bendir til þess að við getum orðið orkubú Evrópu. Það þarf ekki annað en að skoða stærð millilandaflugsins til að átta sig á því. Það er markmið stjórnvalda að stækka þá starfsemi en frekar en fyrir Covid fóru 8 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll. Það þarf mikið rafeldsneyti á þær vélar sem flytja alla þessa farþega.

Kæru gestir.

Ég þakka Samorku fyrir mjög gott samstarf á þessu sviði, bæði í grænbókarvinnunni sem og öðrum góðum verkefnum.

Ég hef fulla trú á því að það samstarf muni halda áfram, enda er slíkt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda sem og opin umræða, eina leiðin fyrir Ísland til að ná markmiðum sínum þegar kemur að orkumálum, náttúruvernd og loftlagsmálum.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta