Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. mars 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi um víðerni í víðu samhengi

Kæru gestir, það er sönn ánægja að taka þátt í þessu málþingi um Víðerni í víðu samhengi.

Ég vil nýta tækifærið og þakka Stofnun Sæmundar Fróða og Vatnajökulsþjóðgarði fyrir að efna til málþingsins.

Hugtakið víðerni og skilningur okkar á því eru krefjandi viðfangsefni. Óbyggð víðerni eru eins og þið vitið skilgreind sérstaklega í lögum um náttúruvernd. Þar kemur fram að þau þurfi að jafnaði að vera 25 ferkílómetrar að stærð, að jafnaði í 5 kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og að þar sé hægt að njóta einveru í náttúrunni. Lögin tiltaka einnig að okkur beri að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.

Skilgreiningin í íslenskum náttúruverndarlögum tekur mið af skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna. Þar segir um óbyggð víðerni (wilderness area) að það séu stór land- eða hafsvæði sem eru lítt eða ekki mótuð af manninum, hafa haldið sínum náttúrulegu eiginleikum, og að verndun og stjórnun þeirra miði að því að varðveita náttúrulegt ástand þeirra.

En svo er það þessi tilfinning sem við finnum, burtséð frá öllum skilgreiningum, þegar við erum úti í lítt snortinni náttúru, þar sem við upplifum algjöra öræfastemmningu. Þessi skynjun okkar og upplifun eru ekki endilega í takt við skilgreiningarnar, enda gera þær ráð fyrir ákveðnu huglægu mati.

Rannsóknir Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessors í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, á víðernaupplifunum ferðamanna draga þetta fram. Þær hafa t.d. sýnt fram á að skilgreining íslenskra laga á óbyggðum víðernum virðist fara vel saman við upplifun margra ferðamanna á miðhálendinu, en þær hafa einnig sýnt fram á að manngert svæði eins og áhrifasvæði Blönduvirkjunar í jaðri hálendisins, sem er svæði sem ekki myndi falla undir skilgreininguna, er í huga sumra ferðamanna víðerni.

Þrátt fyrir að það geti verið munur á upplifunum og skilgreiningum, þá er það mín skoðun að það sé mikilvægt að standa vörð um óbyggðaupplifunina og náttúruna sem færir okkur þessa tilfinningu. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að raska náttúrunni sem minnst á miðhálendinu.

Til dæmis tel ég að vegir á miðhálendinu eigi að vera hæfilega torfærir. Það á að mínu mati ekki að fara í mikla uppbyggingu á þeim. Malarvegirnir með sínum beygjum og bugðum og óbrúuðu árnar eru hluti af töfrum miðhálendisins og náttúruvernd svæðisins.

Fyrst ég er kominn á miðhálendið, þá skulum við staldra aðeins við þar.

Ég held að við séu öll sammála um að það er kyngimagnaður staður. Ég bý svo vel að hafa ferðast um hálendið alveg frá barnæsku. Fyrst sem lítill strákur með fjölskyldunni og svo síðar með eigin fjölskyldu og öðrum ferðafélögum. Og ég segi það í fullri einlægni að þessi vá!-tilfinning sem braust fram þegar ég ferðaðist á hálendið í fyrsta sinn kemur alltaf aftur þegar ég er á hálendinu. Að vera staddur á þessum framandi stað umkringdur þessum gríðarlegu náttúruöflum sem nánast móta landslagið fyrir augum manns, það er umhverfi og upplifun sem við viljum vernda.

Ég vil þó leggja áherslu á að það er ekki síður mikilvægt að standa vörð um frelsið að fá að njóta þessara verðmæta; að geta ferðast um hálendið og upplifað víðernin. Við þurfum að tryggja að sú menningararfleið sem ferðlög á miðhálendið eru haldist óskert.

Þá komum við að mikilvægi samtalsins og fræðslunnar. Við vitum að víðernum fer fækkandi á heimsvísu og við vitum líka að við erum svo heppin hér á Íslandi að eiga enn stór óbyggð svæði þar sem náttúran ræður ríkjum. Töluvert mörg þeirra eru utan miðhálendisins, en miðhálendið er hins vegar nokkuð einstakt að þessu leyti, því þar er að finna stærstan hluta víðerna landsins og eitt stærsta víðernasvæði Evrópu.

Ef við ætlum að standa vörð um óbyggð víðerni Íslands, eins og lög um náttúruvernd mæla til um, þá höfum við skilgreiningu laganna til að vinna út frá, en við þurfum einnig að útfæra viðmið og kortleggja víðerni landsins m.t.t. til texta laganna.

Við verðum líka að tryggja að samtalið um mikilvægi þessara atriða sem ég nefndi áðan; ferðafrelsis, náttúruverndar og góðrar upplifunar, eigi sér stað og að allir geti tekið þátt í því.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal kort fyrir óbyggð víðerni vera til upplýsinga fyrir stjórnvöld við stefnumótun um verndun landslags og aðra landnotkun. Einnig segja lögin að kortlagningu þeirra eigi að vera lokið fyrir 1. júní 2023.

Í því samhengi eru fræðsla og þekking byggð á rannsóknum mikilvægir þættir. Nokkur verkefni hafa verið unnin hérlendis til að safna í sarpinn gögnum sem nýst geta við þessa vinnu stjórnvalda. Má þar nefna samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar, ráðgjafarfyrirtækisins Alta og umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins um tillögu að viðmiðum fyrir afmörkun óbyggðra víðerna og hvernig mannvirki skerða þau, kortlagningu víðerna hjá Náttúrufræðistofnun og þróun aðferðafræði við kortlagningu víðerna á miðhálendinu unna af Þorvarði Árnasyni og kollegum fyrir rammaáætlun.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun hjá stjórnvöldum um hvaða viðmið og hvaða aðferðafræði skuli nota við kortlagningu óbyggðra víðerna. En þau verkefni sem unnin hafa verið fram til þessa eru mjög mikilvæg við þá ákvörðunartöku.

Þá er viðburður eins og boðið er upp á hér, þar sem leidd eru saman ýmis sjónarmið og umræðan tekin á dýptina, ekki síður hjálplegur við að átta okkur á af hverju víðernin eru mikilvæg og hvernig við getum staðið vörð um þau.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta