Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Grænvangs

Ágætu fundarmenn,

Kærar þakkir fyrir að bjóða mér hingað í dag til þess að ræða um vegferð okkar í loftslagsmálum í átt að kolefnishlutleysi og hið mikilvæga hlutverk atvinnulífsins.

Við búum svo vel á Íslandi að hafa endurnýjanlega orku til að beisla. Ég legg áherslu á að við notum hana af útsjónarsemi og byggjum upp innviði sem styðja jarðefnaeldsneytislaust samfélag og efnahag sem við getum verið stolt af út frá sjónarhóli loftslagsmála. Markmið okkar í loftlagsmálum eru metnaðarfull og krefjandi en ávinningurinn er ótvíræður og mun nýtast okkur og komandi kynslóðum um ókomna tíð. Skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í loftslagsmálum, svonefnd Grænbók, kom út á dögunum en hún dregur fram staðreyndir um stöðu mála á grundvelli faglegra sjónarmiða. Skýrslan mun nýtast okkur vel í þeirri vegferð sem fram undan er og hvet ég ykkur öll til að kynna ykkur efni hennar.

Markmið stjórnvalda hafa verið sett fram í aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum árið 2018 og 2020. Það er hins vegar öllum ljóst að nú er komið að næsta áfanga í vegferðinni sem er að íslenskt atvinnulíf stigi inn í aðgerðaráætlunina af fullum þunga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að sett verði áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira í samstarfi við sveitarfélög og atvinnulíf. Næsta skref í mínu ráðuneyti er að vinna með fulltrúum atvinnulífsins að útfærslu markmiða og geiraskiptingar. Ég vil fá að heyra frá ykkur hvernig atvinnulífið vill nálgast verkefnið fram undan. Hvernig viljið þið ná kolefnishlutleysi, hvernig viljið þið nálgast lausnir loftslagsvandans? Hverjar eru ykkar hugmyndir um það hvernig við tryggjum samkeppnishæfni atvinnulífsins í kolefnishlutlausu hagkerfi? Við horfum til góðrar fyrirmynda í nágrannaríkjum okkar og hlökkum til að móta okkar íslensku leið í sameiningu.

Við erum hér stödd á ársfundi Grænvangs sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Mikil tækifæri eru fólgin í þessum samstarfsvettvangi svo sem til að kynna íslenskar lausnir á erlendri grundu. Grænvangur gaf í júní 2021 út „Vegvísi atvinnulífsins í loftslagsmálum“ sem unnin var undir forystu Grænvangs í samvinnu við Samorku, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtök Íslands. Tilgangur vegvísisins var að skilgreina stöðu loftslagsmála í hverri atvinnugrein, móta stefnu og gera tillögur til úrbóta. Vegvísirinn er mikilvægt fyrsta skref í samtali og samvinnu við allar atvinnugreinar og góður grunnur sem er að hægt að byggja frekar á.

Í þeirri vinnu sem fram undan er mikilvægt að hlustað sé á raddir vísindamanna. Í gær kom út skýrsla frá svokölluðum þriðja vinnuhópi Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, eða IPCC.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að vissulega hafi losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu aukist síðasta áratug en hægt hefur á aukningunni síðustu ár að hluta til vegna aðgerða stjórnvalda. Betur má þó ef duga skal. Jafnframt segir að til þess að árangur náist sé mikilvægt að beita bæði regluverki og hagrænum stjórntækjum til að hvetja til mótvægisaðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Þessi orð IPCC brýna okkur áfram til góðra verka.

Ísland stendur framar öðrum þjóðum á sviði orkuskipta. Hreinum orkuskiptum rafmagns og hita er svo gott sem lokið á Íslandi, sem er einsdæmi á heimsvísu, auk þess sem Ísland er í góðu færi að verða meðal fyrstu eða jafnvel fyrst ríkja til að hætta alveg notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta gefur Íslandi möguleika á að vera fyrirmynd í alþjóðlegu samhengi loftslagsmála. Líkt og önnur ríki stendur Ísland þó einnig frammi fyrir áskorunum. Fram undan eru græn orkuskipti og ljóst er að eftirspurn eftir grænni orku mun aukast á komandi árum. Tækifærin og lausnirnar kalla á græna orku. Stórar ákvarðanir í málaflokknum eru fram undan. Ákvarðanir sem varða framtíðarlífskjör okkar Íslendinga.

Án öflugrar þátttöku atvinnulífsins í orkuskiptum munum við ekki ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram. Tækni til orkuskipta er komin mislangt, við sjáum fjölgun í kaupum á vistvænum bílum en lengra er í lausnir í sjóflutningum og flugi. Tæknin er í þróun og allir eru að leggjast á eitt. Stuðningur stjórnvalda og hvatar varðandi nýsköpun og grænar fjárfestingar skipta miklu máli til að tryggja samkeppnishæfni Íslands í breyttum heimi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur skýrlega fram að ríkisstjórnin ætlar að auka aðgengi að fjármagni til loftslagsverkefna samhliða því að nýsköpunar- og tækniþróunarsjóðum verði gert kleift að styðja í auknum mæli við grænar lausnir.

Það er mikilvægt að við horfum bjartsýn til framtíðar og leitumst við að sjá tækifæri í áskorununum. Það er raunverulega að verða til nýr iðnaður, fyrirtæki sem horfa til þess að grípa kolefni úr andrúmslofti, ný atvinnugrein ”kolefnisfangara” - hljómar eins og eitthvað úr ævintýrabókum. Þannig tekur einn kafli við af öðrum og ný tækifæri verða til í átt að grænu velsældarhagkerfi.

Metnaðarfullt markmið um kolefnishlutlaust Ísland felur í sér miklar áskoranir en jafnframt tækifæri til þess að vera í farabroddi þegar kemur að loftslagsvænum og jafnvel loftslagsmiðuðum iðnaði sem hefur það að leiðarljósi að draga úr koltvísýringi í andrúmsloftinu.

Næstu skref í loftslagsvegferð Íslands verða unnin með atvinnulífinu. Það er rökrétt skref og okkar eina leið til að ná markmiðum okkar og til að hagkerfi okkar verði kolefnishlutlaust og samkeppnishæft.

Það er stórt en skemmtilegt verkefni fram undan, tryggja þarf að raddir sem flestra í samfélaginu heyrist og mikilvægt að sérstaklega sé hlustað eftir röddum unga fólksins.
Markmið loftslagsvegferðarinnar er kolefnishlutlaus, réttlát, samkeppnishæf framtíð sem byggir á hugmyndafræði hringrásarhagkerfis.

Ábyrgð atvinnulífsins og skuldbinding er mikil en við vitum að þið sjáið tækifærin, metnaður ykkar og vilji stendur til góðra verka.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta