Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á 25 ára afmælisráðstefnu veiðikortakerfisins

Kæru ráðstefnugestir. Til hamingju með afmælið!

Það má vissulega segja að það hafi verið mikil framsýni þegar frumvarp til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum var samið og lagt fram á Alþingi upp úr 1990. Í því voru ýmis nýmæli, sem á þeim 27 árum sem liðin eru síðan lögin tóku gildi árið 1994 hafa sannað gildi sitt og þýðingu fyrir veiðar og veiðistjórnun og gagnast veiðimönnum ekki síður en villtri náttúru landsins. Hér á ég við ákvæði um veiðinámskeið, veiðipróf, útgáfu og árlega endurnýjun veiðikorta, veiðiskýrslur og síðast en ekki síst tekjur af sölu veiðikorta sem hafa gert okkur kleift að auka umtalsvert rannsóknir á helstu veiðitegundum undanfarin 25 ár. 

Veiðimenn hafa á þessum tíma greitt um 800 milljónir fyrir veiðikort og af þeirri fjárhæð hafa tæplega 500 milljónir, runnið til rannsókna og vöktunar á helstu tegundum veiðifugla til viðbótar við árleg framlög ríkisins. Þetta hefur verið gríðarlega mikilvægur stuðningur við vöktun tegunda fugla sem friðun hefur verið létt af, einkum og sér í lagi tegunda sem eru undir miklu veiðiálagi og teljast í hættu eins og rjúpu, grágæs, lunda og hrafn.

Veiðikortatekjum frá upphafi veiðikortakerfisins hefur verið úthlutað til margvíslegra hagnýtra og praktískra verkefna, tækjakaupa auk rannsókna og vöktunar. Verkefnin sem hlotið hafa styrki eru fjölmörg og ólík en frá 2016 hefur tekjunum aðallega verið úthlutað til sérstakra vöktunarverkefna á grunni vöktunaráætlunar Náttúrufræðistofnunar Íslands sem taka til stofna rjúpu, lunda, bjargfugla, gæsa og skarfa, auk 10% teknanna sem úthlutað er til sérstakra verkefna á sviði veiðistjórnunar.

Meginmarkmið laganna þegar tekin er ákvörðun um afléttingu friðunar er að viðkoma stofns sé nægileg til þess að vega upp á móti afföllum vegna veiða, þ.e. að stofninn sé sjálfbær og að með veiðum sé verið að nytja verðmæti veiðiafurðanna. Þetta hefur verið grundvöllur ráðuneytisins í veiðistjórnun síðasta aldarfjórðunginn. 

Það eru hins vegar fleiri atriði sem skipta máli fyrir ákvörðun um afléttingu friðunar dýra og veiðar, svo sem alþjóðlegar skuldbindingar, venjur og hefðbundin nýting, eins og þið vitið.

Það er hins vegar ekki alltaf sjálfgefið þó stofn einstakra tegunda sé stór og sjálfbær, að friðun verði aflétt til þess að heimila veiðar. Þetta á við um ýmsar tegundir fugla eins og t.d. mófugla en í gegnum tíðina hafa veiðimenn oft lýst áhuga á veiðum á hrossagauk. Viðtökur hafa jafnan verið dræmar og almenningur virðist almennt ekki vera hrifinn eða fylgjandi slíkum breytingum, meðal annars vegna aðstæðna, dreifingar fuglanna og að þessar tegundir dvelja hér aðeins rétt um varptímann og eftir varptímann meðan ungarnir ná stærð og styrk fyrir farflugið suður.  Í þessu sambandi má heldur ekki gleyma tilfinningarrökum, sem eru líka rök, en ákveðnar tegundir fugla hafa unnið sér ákveðinn sess í hugum landsmanna af ýmsum menningarlegum eða sögulegum ástæðum.

Skýrslur veiðimanna um árlega veiði er eitt af mikilvægustu atriðum villidýralaganna fyrir sjálfbæra nýtingu, veiðar og veiðistjórnum íslenskra villtra fugla og spendýra. Við erum meðal fárra ríkja sem safna miðlægt saman upplýsingum frá veiðimönnum um árlega veiði þeirra. Þetta er grundvallar atriði fyrir verndun og sjálfbæra nýtingu villtra dýra og varðar hagsmuni veiðimanna hér á landi til framtíðar. Samkvæmt veiðiskýrslum frá 1995 til 2020 nemur fuglaveiði á Íslandi tæplega 9 milljónum fugla. Undanfarin 10 ár hefur veiði verið um 300 til 200 þúsund fuglar á ári samtals og hefur heildarveiði á ári frá því 1995 minnkað um þriðjung, þrátt fyrir fjölgun veiðimanna undanfarin ár. 

Afföll vegna veiða koma að ákveðnu marki til viðbótar náttúrulegum afföllum. Alþjóðlegar athuganir á stöðu og þróun vistkerfa í heiminum sýna að helstu ástæður fyrir hnignum vistkerfa, stofna og líffræðilegrar fjölbreytni stafar af eyðingu búsvæða, breytingum í landnýtingu, loftslagabreytingum, ósjálfbærri nýtingu og ágengum framandi lífverum. Þessir sömu þættir hafa áhrif á stöðu og þróun íslenskra dýrastofna og hafa án efa áhrif á helstu nytja- og veiðistofna okkar. Það er því mikilvægt að vega þessa þætti saman og samþætta aðgerðir og ákvarðanir til þess að stuðla að sjálfbærni tegunda og stofna í íslenskri náttúru. Við þurfum að vinna saman að því að tryggja að veiðar og nýting verði áfram sjálfbær þannig að veiðimenn framtíðarinnar geti einnig stundað veiðar á helstu nytja- og veiðistofnum okkar í framtíðinni. 

Eins og þið vitið hefur ráðuneytið verið að vinna að endurskoðun á villidýralögunum og munum við halda þeirri vinnu áfram með það að markmiði að styrkja lögin á ýmsum sviðum og gera breytingar á þeim, meðal  annars í samræmi við tillögu nefndar um endurskoðun laganna og ýmsar alþjóðlegar áherslur og skuldbindingar sem Ísland á aðild að. 

Ein af mikilvægustu breytingunum varðandi veiðar verður gerð verndar og stjórnunaráætlana fyrir allar tegundir fugla og villtra spendýra, með áherslu á tegundir sem friðun hefur verið létt af. Þá þarf einnig að huga að ákvæðum um hefðbundin hlunnindi og framkvæmd slíkrar nýtingar og styrkja ákvæði um sjálfbærni tegunda og aðgerðir til þess að styrkja verndun tegunda sem eru í hættu.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta