Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á vorfundi Landsnets

Kæru fundargestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á árlegum vorfundi Landsnets.

Það birtir til og vorið er á næsta leyti og mikið fagnaðarefni er að geta aftur hist á ný í eigin persónu í glæsilegum sal umkringdur fólki að fjalla um mikilvæg þjóðþrifamál eins og á fundi okkar í dag.

Ávallt eru fjölmörg mál í deiglunni í orkumálunum og margvíslegar upplýsingar á ferð. Stundum getur verið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað er rétt hverju sinni, þar sem orðræðan getur verið misvísandi. Nauðsynlegt að hafa skýra sýn og gjörþekkja stöðu mála áður en lagt er af stað í krefjandi langferð. Rétt stilltur kompás og gott skipulag er veganestið sem þarf til að mæta hindrunum á leiðinni og komast á áfangastað. Ferðalag okkar er í áttina að því metnaðarfulla markmiði sem við höfum sett okkur í stjórnarsáttmála og orkustefnu sem er að verða kolefnishlutlaus og hætta alfarið notkun eldsneytis sem ekki er af endurnýjanlegum toga fyrir árið 2040. Í stuttu máli sagt, full orkuskipti eru framundan.

Ágætu fundarmenn,

Eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem ráðherra orkumála var að setja af stað vinnu með skipan starfshóps sem var falið að vinna að gerð skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum, stundum kölluð grænbók. Vil ég hér nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa komið að því verki fyrir sín störf, bæði nefndinni sem og öllum þeim fjölmörgu hagsmunaaðilum sem tóku virkan þátt og lögðu til efni og margir hér með okkur í fundarsalnum í dag.

Markmið og tilgangur skýrslunnar var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsinga fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Mér þykir hafa tekist vel til þar sem yfirgripsmikið upplýsingarit um orkumál er komið fram. Skýrslan tæpir einnig á helstu verkefnum og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir með sérstakri vísan til loftslagsmála. Skýrslan var unnin í víðtæku samráði, eins miklu og takmarkaður tími gaf tækifæri til.

Meginniðurstaða skýrslunnar er að loftslagsmarkmið Íslands þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning sem eru grunnur að framfylgd orkuskipta í samfélaginu. Við orkuskipti bætist einnig orkuþörf til frekari vaxtar atvinnuvega. Bætt orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla. Sex sviðsmyndir eru settar fram í skýrslunni, en þær spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Þá erum við að tala um meira en tvöföldun á uppsettu afli ef mæta á allri þörf fyrir orkuskipti, hvort sem það eru farartækin á landi, skipin á hafinu og allt flugið bæði innanlands- og millilandaflugið. Við getum rétt ímyndað okkur hve mikið flutningskerfið mun þurfa að styrkjast og þróast samhliða þessari framleiðsluaukningu, kerfi sem er takmörkunum háð jafnvel við núverandi orkunotkun.

Skýrslan dregur fram lýsingu á núverandi stöðu sem við höfum kynnst á undanförnum misserum. Það eru orkuskerðingar, takmarkað hefur verið virkjað og við heyrum af töpuðum tækifærum í atvinnumálum um land allt vegna takmarkaðs aðgengis að raforku sem heftir lítil sem stór fyrirtæki. Það eru að sjálfsögðu jákvæð teikn um grósku og vöxt í atvinnulífinu þegar mikil eftirspurn er eftir grænni orku en á sama tíma er sárt til þess að vita ef spennandi tækifæri fara forgörðum hvort sem það er vegna þess að það vantar orku eða flutningstakmarkana.

Leiðarljós orkustefnunnar eru orkuöryggi, orkuskipti, orkunýtni, náttúruvernd og samfélag/efnahagur. Sama hvar við drepum niður fæti á þessum áherslusviðum þá komum við aftur að flutningskerfinu og mikilvægi þess. Flutningskerfið verður að ráða að fullu við hlutverk sitt við núverandi aðstæður, ásamt því að vera í stakk búið til að mæta viðbót vegna orkuskipta. Mannvirki þurfa að vera traust og áfallaþolin. Nýjar áskoranir fylgja nýjum sveiflukenndari og dreifðari orkukostum. Við þurfum að leggja okkur fram um að nýta dýrmæta orku sem best. Bætt orkunýting felst í því að mæta sveiflum með sveigjanleika og sterkum tengingum um landið allt og á milli landshluta. Þannig getur flutningskerfið flutt orkuna milli landshluta ef þannig háttar á vegna vatnsstöðu, vindáttar eða annarra veðurfarslega þátta. Framtíðarviðskiptavinir munu mögulega einnig vera virkari þátttakendur, með eigin framleiðslu, orkugeymslu og ójafna notkun. Þetta eru áskoranir fyrir flutnings- og dreififyrirtæki hér sem og annars staðar í heiminum. Orkan gegnir því hlutverki að vera hreyfiafl samfélagsins sem þarf raforku fyrir ný tækifæri í héraði. En ávallt þarf að vanda sig og vinna öll mál í sátt við náttúru og menn.

Málin hafa því skýrst nokkuð með þessari samantekt og við erum komin með heildrænt stöðumat og framtíðarsýn. Það getur einnig verið gagnlegt að skoða stöðu sína í samanburði við aðra. MIT háskólinn gefur nú út í annað sinn yfirlit um stöðu 76 landa út frá samspili orku og loftlagsmála (MIT Green Future Index) og hversu vel ríki eru í stakk búin að ná kolefnishlutleysi og sjálfbærri framtíð. Annað árið í röð er Ísland í fyrsta sæti. Er það metið út frá fimm þáttum: Orkuskipti, kolefnislosun, græn nýsköpun, grænt samfélag og stefnumótun á sviði orku og loftlagsmála. Í öðru og þriðja sæti eru Danmörk og Holland.

Þetta er sannarlega góð viðurkenning og staðfesting á að við erum að gera eitthvað rétt, og umfram allt að við erum vel í stakk búin til að gera enn betur og verða fyrsta þjóð í heim til að vera óháð jarðefnaeldsneyti. Önnur nefnd skilaði af sér nýverið, um orkumál á Vestfjörðum. Stjórnvöld hafa lagt ríka áherslu á það landsvæði í stefnumótun um uppbyggingu flutningskerfis raforku en eins og þekkt er hefur afhendingaröryggi þar verið lakara en annars staðar. Í tillögum nefndarinnar er lagt til að vinna heildrænt að styrkingu orkukerfa þar sem svæðisbundin vinnsla fer saman með styrkingu innviða. Einnig er lagt til að spara raforku og olíuvaraaflið hjá rafkynntum veitum með nýrri jarðhitaleit og/eða varmadælum fyrir hitaveituna. Orkusparnaður og bætt orkunýtni eru mikilvæg úrræði sérstaklega þegar kreppir að í skerðingarári þegar önnur úrræði eru ekki í seilingarfjarlægð Þá þurfa áætlanir og framkvæmdir að sýna með skýrari hætti forgang fjórðungsins.

Fleiri verkefni eru á döfinni sem miða okkur í framfaraátt. Of langt mál er að telja þau öll upp, en nefni eitt. Beint eignarhald flutningsfyrirtækisins Landsnets í höndum ríkis og/eða sveitarfélaga er nú bundið í lög. Ítrekað hefur verið bent á að til lengri tíma sé óheppilegt að Landsnet sé í eigu orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna, meðal annars út frá mögulegum hagsmunaárekstrum. Frá sjónarhóli neytenda er auðvitað augljóst að sjálfstæði flutningsfyrirtækisins stuðlar að jafnræði annarra aðila á markaði. Nú og til framtíðar litið verður rekstur og umhverfi flutningsfyrirtækisins að vera í samræmi við markmið raforkulaga. Þá verður að tryggja fyrirtækinu það svigrúm sem það þarf til að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu með sjálfstæðum og faglegum hætti. Sem kunnugt er eru eigendur Landsnets í dag Landsvirkjun með 65 prósenta hlut, RARIK með 22%, Orkuveita Reykjavíkur með 7% og Orkubú Vestfjarða með 6%. Þessu verkefni miðar vel áfram og eru viðræður hafnar um eigendaaðskilnaðinn á grundvelli viljayfirlýsingar sem fyrirtækin hafa skrifað undir.

Góðir fundargestir,

Nú um stundir eru viðsjárverðir tímar með stríðsátökum í Evrópu. Við getum verið þakklát fyrir það hér á landi að búa við frið og öryggi og þar með talið orkuöryggi. En nú háttar til að mörg ríki Evrópu, jafnvel okkar nánustu nágrannalönd, eru háð orkuinnflutningi frá óvinveittu ríki, með mismiklum hætti þó.

Þessi nágrannaríki okkar vinna að því hörðum höndum að komast út úr þeim aðstæðum með því að finna leiðir til að hætta viðskiptum og innflutningi jarðgass og olíu frá Rússlandi. Allt kapp er lagt á að flýta orkuskiptum enn frekar með innlendri orkuvinnslu. Það er á svona tímum sem við sjáum verðmæti auðlinda okkar með enn gleggri hætti. Okkar innlenda endurnýjanlega orka vinnur að báðum mikilvægum markmiðum samtímis, loftslagsmarkmiðum og auknu orkuöryggi. Fyrri orkuskipti sem landið gekk í gegnum eftir olíukrísurnar á síðustu öld hafa komið okkur í þá öfundsverðu og öruggu stöðu að megnið af framleiðslunni, þ.e. 85% hennar er af innlendum uppruna. Afgangurinn er olían sem knýr farartækin okkar og er flutt inn að mestu leyti frá vina- og frændþjóð okkar Noregi. En þó staðan sé þessi þá gæti hún verið enn betri með því að öðlast fullt orkusjálfstæði með okkar eigin framleiðslu raforku eða rafeldsneytis. Langtímamarkmið fær aukið vægi þegar það skoðast út frá sjónarhóli þjóðaröryggis til viðbótar við knýjandi loftslagsáskoranir.

Kæru gestir,

Árin eru fljót að líða og ný verkefni taka langan tíma frá því að vera hugmynd á blaði til framkvæmdar og gangsetningar. Því erum við að horfa fram á gríðarstórar áskoranir til skemmri og lengri tíma. Það verður öllum að vera ljóst sem koma að einhverju leyti að framgangi orkumála hér á landi, hve tíminn er takmarkaður. Við verðum að vinna hratt en á sama tíma vanda okkur og vinna að málunum í sátt. Ég læt hér staðar numið og vil þakka Landsneti aftur fyrir þennan ágæta vorfund. Ég hlakka til að hlýða á erindin sem flutt verða hér á eftir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta