Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ráðstefnu Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða og Félags umhverfis- og heilbrigðisfulltrúa

„Heilnæm lífsskilyrði og umhverfi fyrir alla – opinbert eftirlit í nærsamfélaginu“


Ágætu heilbrigðisfulltrúar, fulltrúar í heilbrigðisnefndum og aðrir áheyrendur.

Heilbrigðisnefndir gegna mikilvægu hlutverki þar sem þær bera þungann af stjórnsýslu hollustuhátta og sinna einnig að hluta eftirliti með mengunarvörnum. Áskoranir í málaflokknum eru fjölmargar.

Lög um hollustuhætti og mengunarvarnir eru að meginstefnu rammalöggjöf og hafa þannig að geyma ákvæði um markmið og tilgang laganna, stjórnskipulag, málsmeðferð, eftirlit o.fl. Flest efnisákvæði laganna eru útfærð nánar í reglugerðum.

Þrátt fyrir viðbætur við lögin í gegnum árin hefur skipulag málaflokksins verið óbreytt í fjóra áratugi. Það er ljóst að mikil þörf er að ráðast í endurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og m.a. þörf á frekari greiningu á opinberu eftirliti til að undirbúa þá endurskoðun. Undirbúningur að vinnu að endurskoðun laganna er þegar hafinn og verður nánara fyrirkomulag við endurskoðunina kynnt á næstunni. Ég legg mikla áherslu á gott samráð og samstarf við hluteigandi við þá vinnu. Hér á ég að sjálfsögðu við ykkur, heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa, en einnig sveitarfélögin, atvinnulífið, stofnanir og almenning sem hagsmunaaðila.

Markmið með þeirri vinnu sem er að fara stað verður að tryggja öruggt nærumhverfi og forvarnir, með áherslu á að vernda og viðhalda umhverfisgæðum, lýðheilsu og heilnæmum lífsgæðum viðkvæmra hópa og almennings sem og að styrkja og einfalda regluverkið. Einnig tel ég mikilvægt að einungis séu gerðar kröfur til atvinnulífs og einkaaðila þegar þörf er á og að kröfur séu einfaldar og skýrar og eftirlit stuðli að auknu öryggi og að farið sé eftir settum reglum.

Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að haldið verði áfram að styðja við nýsköpun, ekki síst í fámennari byggðum, og eflingu sóknaráætlana landshlutanna. Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði almenna reglan sú að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin og sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni. Jafnframt er kveðið á um að stutt verði við starfsaðstöðu og klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila á landsbyggðinni. Einnig er lögð áhersla á rafræna stjórnsýslu, einfalda stjórnsýslu, bætta þjónustu við almenning og reglufylgni.

Sveitarstjórnarkosningar eru fram undan og í framhaldi af þeim geri ég ráð fyrir að endurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir fari af stað af fullum þunga, en eins og ég nefndi þá er nú þegar hafin ákveðin undirbúningsvinna í ráðuneytinu. Í upphafi verður lagður grunnur að samráði þar sem að fyrirhuguð heildarendurskoðun laganna verður kynnt fyrir helstu stjórnvöldum og haghöfum. Því næst verður m.a. unnin samantekt á löggjöf hinna Norðurlandanna. Mikilvægur hluti af þessari vinnu er að fara yfir þá starfsemi og athafnir sem um er að ræða og meta áhættu af þeim. Á grundvelli matsins verður svo tekin ákvörðun um hvort viðkomandi starfsemi og athafnir eigi að heyra undir lögin og ef svo er hvort hún skuli háð starfsleyfi, skráningu eða verði einungis háð almennu eftirliti. Greining á opinberu eftirliti verður unnin í samstarfi við matvælaráðuneytið vegna þess þáttar er snýr að matvælaeftirliti. Við þá greiningu verður auðvitað skoðað hvort rétt sé að styrkja núverandi kerfi, færa eftirlit til stofnana ríkisins eða útvista verkefnum til einkaaðila. Ég geri ráð fyrir að utanaðkomandi ráðgjafi verið fenginn vegna þessa verkefnis. Sama hver niðurstaðan verður þá er ljóst í mínum huga að eftirlit með hollustuháttum og mengunvarvarnareftirlit þarf að eiga sér stað í nærumhverfi starfseminnar og nauðsyn er að þær einingar á landsbyggðinni sem sinna eftirliti séu styrkar. Í dag eru heilbrigðiseftirlitssvæðin níu talsins, misstór hvað varðar fjölda starfsmanna og mikill aðstöðumunur á milli svæða þegar kemur að því að og tryggja málsmeðferð og réttarvernd sem gerð er krafa um og að eftirlit sé með samræmdum hætti. Þetta þarf að skoða vel.

Ég tel mikilvægt að beina skráningum sem og starfsleyfisumsóknum sem fyrst í rafrænan farveg þannig að bæði umsóknir um starfsleyfi sem og skráning fari í gegnum island.is óháð því hvort starfsleyfi eða skráningar séu afgreiddar af heilbrigðisnefndum eða Umhverfisstofnun. Í þessu sambandi vil ég nefna að skráningarreglugerðin er á lokaspretti í ráðuneytinu. Að mínu mati felur sú breyting í sér mikla bragarbót. Með setningu reglugerðarinnar mun öll skráningaskyld starfsemi í sama geira lúta sömu starfsskilyrðum og fyrirtækjum mun vera ljóst frá upphafi hvaða skilyrði gilda og þarf að uppfylla. Við þessa breytingu geta heilbrigðisnefndir með auknum hætti sinnt leiðbeiningahlutverki sínu og eftirliti, enda mikilvægt að eftirlit með mengandi starfsemi og hollustuháttastarfsemi sé virkt og gott og að reglufylgni sé tryggð.

Ég hlakka mikið til samstarfsins við ykkur í þessum mikilvæga málaflokki og ítreka ósk mína um gott samráð og samvinnu.

Kærar þakkir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta