Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á vorfundi Minjastofnunar 2022
Góðir gestir!
Það er mér sönn ánægja að ávarpa vorfund Minjastofnunar Íslands.
Eins og ykkur er kunnugt þá urðu nokkrar breytingar á skipan og verkefnum ráðuneyta eftir síðustu kosningar sem leiddi m.a. til þess að Minjastofnun Íslands fluttist til umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins.
Ég fagna þessari breytingu og vænti þess að um farsælt og ánægjulegt samstarf til framtíðar verði að ræða. Ég tel að samlegðaráhrif minjaverndar og náttúruverndar geti verið mikil, enda eru menningarminjar svo nátengdar náttúru landsins.
Ég bendi á að í náttúruverndarlögum sem tóku gildi árið 2015 eru menningarminjar ávarpaðar í nokkrum tilfellum.
• Sem dæmi, þá segir strax í markmiðskafla laganna að lögin eigi að auðvelda umgengni og kynni almennings af náttúru landsins og menningarminjum sem henni tengjast.
• Þá er fulltrúi frá Minjastofnun í sérstöku fagráði sem er Náttúrufræðistofnun Íslands til ráðgjafar um val svæða á náttúruminjaskrá. Skráin er lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunar. Fulltrúi Minjastofnunar í fagráðinu hefur sérþekkingu um málefni er varða varðveislu menningarminja.
• Í náttúruverndarlögunum er svo tekið skýrt fram að þegar unnið er að undirbúningi friðlýsingar svæðis sem fellur undir flokk landslagsverndar þá skal samráð haft við Minjastofnun Íslands um gerð friðlýsingarskilmála.
• Eitt af fyrstu landslagsverndarsvæðunum sem friðlýst hafa verið eftir gildistöku núgildandi laga um náttúruvernd er Þjórsárdalur. Í dag nýtur svæðið verndar á grunni laga um náttúruvernd og heldur stærra svæði á grunni laga um menningarminjar, en lög um menningarminjar gera ráð fyrir að friðlýsa megi samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður hafa sérstakt menningarsögulegt gildi.
• Þegar svæði er friðlýst sem fellur undir flokk um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þá skal auk vistkerfa og búsvæða taka tillit til menningarlegra gilda sem svæðið kann að búa yfir. Sama á við um flokkinn fólkvang þar sem áhersla er á að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum.
• Svo má ekki gleyma því að þegar þjóðgarðar eru stofnaðir á grunni laga um náttúruvernd skal líta til mikilvægis viðkomandi svæðis í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Sérstaklega er tekið fram að friðlýsingin skuli miða að því að vernda heildstæð náttúruleg vistkerfi, jarðminjar, landslag og menningarminjar sem einkenna svæðið og tryggja aðgang almennings að því til útivistar og til þess að kynnast náttúru og sögu svæðisins.
• Að lokum vil ég nefna að við ákvarðanatöku varðandi ræktun skal gæta að því að ræktunin falli sem best að heildarsvipmóti lands og raski ekki menningar- og náttúruminjum.
Í ljósi þessa nána samspils náttúru- og minjaverndar og í ljósi þess að Minjastofnun hefur nú flust til umhverfis-orku- og loftslagsráðuneytisins þá vænti ég þess að í framtíðinni munum við sjá aukið samstarf við friðlýsingar og verndun þ.e. hvort heldur megin áherslan er á menningarminjar, náttúruminjar eða hvort tveggja.
Rannsóknir hafa sýnt að ferðamenn koma hingað til lands til að upplifa bæði menningu, sögu og náttúru landsins. Fjölgun ferðamanna hefur fært okkur auknar tekjur og við eigum að vera hreykin af okkar menningu og menningarminjum. Ég tel að þar séu mikil tækifæri til staðar í heimi þar sem þekking og upplýsingar berast með miklum hraða á milli fólks. En þá þurfum við að halda menningarminjum okkar á lofti. Því ítreka ég þetta nána samspil náttúru- og minjaverndar og mikilvægi samstarfsins.
Að lokum vil ég segja að ég hlakka til samstarfsins við stofnunina og trúi því að það eigi eftir að verða farsælt.