Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á málþingi Hagfræðistofnunar Íslands um rammaáætlun

Góðir gestir,
Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur í dag á þessu málþingi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mat á umhverfisverðmætum og forgangsröðun í rammaáætlun.

Við sem hér sitjum þekkjum væntanlega öll til rammaáætlunar. Rammaáætlun er stjórntæki; hún er verklag við undirbúning ákvarðanatöku, sem var lögfest fyrir rúmum tíu árum. Lögin voru samþykkt samhljóða á Alþingi. Undanfari lagasetningarinnar voru miklar deilur um virkjanir og náttúruvernd; deilur sem risið höfðu með nokkuð reglulegu millibili í íslensku þjóðfélagi áratugina á undan. Þessar erfiðu og oft hatrömmu deilur tóku á, jafnvel var talað um að þær klyfu þjóðina í herðar niður. Mikil þörf var fyrir að koma á einhvers konar sáttaferli sem tæki offorsið úr umræðu um virkjanamál. Ákvarðanatöku um þau mál þurfti að koma í skorður sem allir aðilar gætu sammælst um að væri faglegt, hlutlaust og sanngjarnt. Upp úr þeim jarðvegi spratt stjórntækið rammaáætlun – „áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða“.

Hver er svo staðan núna, áratug síðar? Hefur stjórntækið rammaáætlun skilað tilætluðum árangri?

Þegar stórt er spurt er gott að eiga ykkur að, fræðafólkið sem er þrautþjálfað í að spyrja erfiðu spurninganna og leita kerfisbundið svara. Það fer sjálfsagt mikið til eftir því hvern maður spyr, hvert svarið við spurningunni verður. Spyrjið fræðafólk og svarið gæti orðið eitthvað á þá leið að ramminn hafi skilað rannsóknum og mikilvægri þekkingu á náttúrufari orkusvæða, samfélagslegum áhrifum orkuframkvæmda og áhrifum þeirra á aðra nýtingu lands, til dæmis ferðaþjónustu og hlunnindi. Spyrjið pólitíkus – svarið yrði hugsanlega nei, að ramminn hafi ekki skilað því sem til var ætlast, það er ákvörðunum um nýtingu orkuauðlinda og verndun landsvæða sem búa yfir slíkum auðlindum. Spyrjið orkuframleiðendur, nú eða fulltrúa náttúruverndarsamtaka – sennilega yrðu svörin svipuð.

Hvað veldur þessu? Sitt sýnist hverjum en frá bæjardyrum okkar stjórnmálamannanna séð virðist hafa orðið einhver misbrestur á því að samfélagsleg áhrif virkjunarframkvæmda, og kannski einkum og sér í lagi efnahagsleg áhrif þeirra, hafi fengið sinn verðskuldaða sess við borðið í mati faghópa og verkefnisstjórnar rammans á virkjunarkostum.

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að rammaáætlunin íslenska er á margan hátt nýsköpunarverkefni. Hún er gerð að norskri fyrirmynd en var ekki tekin upp óbreytt þaðan heldur aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Aðferðafræðin er í stöðugri mótun og því eðlilegt að alltaf megi gera betur – eins og reyndar má segja um flest mannanna verk.

Það er mér því sérstaklega mikið fagnaðarefni að hér séum við samankomin í dag til að hlýða á nokkra af okkar færustu sérfræðingum velta fyrir sér nákvæmlega þessu – hvernig skuli meta umhverfisgæði og samfélagslegan ábata í tengslum við rammaáætlun. Þetta málþing er afar tímabært og talar beint inn í þá miklu umræðu sem hefur verið um orkumálefni á undanförnum misserum.

Grænbók um orkumál, sem unnin var fyrir ráðuneyti mitt nú í vor, sýnir svo ekki verður um villst að mikil þörf er á að halda áfram að virkja okkar grænu orku, svo við getum náð fullum orkuskiptum og náð okkar metnaðarfullu markmiðum í loftslagsmálum. Í stuttu máli sagt vitum við að eftirspurn eftir grænni orku mun halda áfram að aukast á næstu árum. Þörfin á öflugu stjórntæki til að aðstoða við að ákveða hvar verði virkjað og hvar ekki er sem sagt síst að minnka.

Umræðan um orkumál á Íslandi er auðvitað að mjög miklu leyti samofin umræðu um stjórntækið rammaáætlun – sem hefur einnig farið mikið fyrir að undanförnu. Samkvæmt stjórnarsáttmála á að endurskoða lögin um rammaáætlun og á vettvangi Alþingis eru til meðferðar tillögur verkefnisstjórnar þriðja áfanga áætlunarinnar. Verkefnisstjórn fjórða áfanga vannst ekki tími til að fullgera tillögur sínar að flokkun virkjunarkosta en lét drögin í hendur nýrrar verkefnisstjórnar 5. áfanga, sem skipuð var fyrir rétt rúmu ári síðan. Sú verkefnisstjórn hefur þegar látið til sín taka í opinberri umræðu, en hún boðaði til opins kynningarfundar sem haldinn var í gær. Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um málefni rammans á undanförnum mánuðum, og svo mætti lengi áfram telja.

Öll þessi umræða er að mínu mati mjög af hinu góða. Umræðan getur verið erfið og hún getur orðið áköf en hún getur einungis hjálpað okkur áfram á þeirri vegferð að ná sátt um nýtingu landsins gæða, hverrar gerðar sem þau kunna að vera. Það er nefnilega eftir sem áður höfuðviðfangsefni okkar stjórnmálafólks að skapa sátt um auðlindanýtinguna. Það er á endanum okkar að tryggja að jafnræði ríki milli verndunar náttúrunnar og nýtingar hennar. Við verðum að losa rammaáætlun úr þeim lás sem hún hefur verið í undanfarin ár – og við verðum að ákveða hvernig við viljum haga þessum málum í framtíðinni.

Kæru gestir. Ég fagna því mjög að fólk og fræðimenn séu virk í því að leita allra leiða til að gera rammann að enn betra stjórntæki en hann þegar er. Ég er kominn hingað til þess að hlusta og læra og ég vona að okkur auðnist að finna farsæla lausn á þessu risavaxna viðfangsefni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta