Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Orkustofnunar 2022

Kæru gestir,

Það er mér ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á ársfundi Orkustofnunar.

Yfirskrift fundarins er „Sjálfbær Orkuframtíð“, sem er sú sama og heitið á orkustefnu Íslands til 2050 sem unnin var í þverpólitískri sátt og lögð var fyrir Alþingi fyrir um ári síðan.

Í orkustefnu fyrir Ísland er sjálfbærri orkuframtíð lýst svo: Ísland er land hreinnar orku þar sem öll orkuframleiðsla er af endurnýjanlegum uppruna. Endurnýjanleg orkuframleiðsla gegnir grundvallarhlutverki í baráttunni gegn loftslagsvánni. Orkan er nýtt með sjálfbærum hætti samfélagi og almenningi til hagsbóta.

Til viðbótar við framtíðarsýnina er stefnan sett á kolefnishlutleysi og full orkuskipti fyrir árið 2040. Í stuttu máli sagt, full orkuskipti eru endamarkmiðið.

Yfirskrift þessa ársfundar er með vísan í orkustefnuna sem er mjög vel viðeigandi enda gegnir stofnunin burðarhlutverki í að framfylgja stefnu stjórnvalda og leiða okkur inn í nýja framtíð. Orkumál gegna lykilhlutverki í okkar samfélagi og því er nauðsynlegt fyrir okkur að eiga öfluga stjórnsýslustofnun á þessu sviði. Það er ánægjulegt að sjá metnaðinn hjá stofnuninni að fylgja stefnunni fast á eftir. Undanfarin misseri hafa verið viðburðarrík að mörgu leyti og reynt töluvert á okkur.
Á slíkum stundum hefur verið gott að vita af þeirri þekkingu og kunnáttu sem stofnunin býr yfir og að hún sé ávallt boðin og búin til að veita stjórnvöldum faglegan stuðning.

Breytingar á Stjórnarráðinu eftir kosningar endurspegla áherslur í stjórnarsáttmála. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er málaflokkur orkumála í sama ráðuneyti og umhverfis- og loftslagsmál. Ég tel aukna samþættingu málaflokkana vera jákvætt skref en það er einmitt svo að loftslagsmál eru orkumál og orkumál eru loftslagsmál.

Kæru gestir,

Ýmsar áskoranir hafa verið í orkumálum að undanförnu og verða það áfram. Það var nauðsynlegt fyrir þjóðina að fá upplýsingar um hver staðan væri í orkumálunum og hvaða risaverkefni bíða okkar svo hægt sé að uppfylla framtíðarmarkmið í loftslagsmálum og orkuskiptum. Þannig var gerð gangskör í því að upplýsa um stöðu orkumála með útgáfu skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum, eða grænbókinni svokölluðu. Með því náðist að mínu mati að koma umræðunni í betra horf, þar sem hægt er að ræða stöðuna á ígrundaðan hátt með staðreyndum og faglega unnum sviðsmyndum.

Í skýrslunni kemur fram að loftslagsmarkmið Íslands þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning sem er grunnur að framfylgd orkuskipta í samfélaginu. Við orkuskipti bætist orkuþörf til frekari vaxtar atvinnuvega. Orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla. Skýrslan dregur einnig fram lýsingu á núverandi stöðu sem við höfum kynnst á undanförnum misserum.
Það eru orkuskerðingar, takmarkað hefur verið virkjað og við heyrum af töpuðum tækifærum í atvinnuþróunarmálum um land allt vegna takmarkaðs aðgengis að raforku sem heftir lítil sem stór fyrirtæki.

Ágætu fundarmenn,

Við þekkjum stöðuna og horfum nú til framtíðar. Málin hafa því skýrst nokkuð með þessari vinnu og við erum komin með heildrænt stöðumat og framtíðarsýn.

Við þurfum að leita allra leiða til að nýta okkar dýrmætu auðlindir. Aukin orkunýtni og orkusparnaður eru hluti af meginmarkmiðum nýrrar orkustefnu og ættu ávallt að eiga við og ekki síst þegar skórinn kreppir að í orkuframboði eins og nú um stundir. Raforka er dýrasti valkosturinn fyrir húshitun, bæði fyrir neytendur og ríkið sem niðurgreiðir það, auk þess sem raforkan getur ekki farið í verkefni til orkuskipta eða uppbyggingar atvinnulífs á sama tíma. Verst er sömuleiðis ef grípa þarf til olíubrennslu ef orkuskerðingar standa yfir hjá kyntum rafveitum.

Jarðvarminn þarf ávallt að vera fyrsti valkostur í hitun húsa hér á landi. Ég hef nýlega falið Orkustofnun að skoða tækifæri til jarðhitaleitar á svæðum sem nú notast við raforku eða olíu til húshitunar. Á svæðum þar sem ekki er talið að jarðhita sé að finna tel ég mikilvægt að hvetja til notkunar á varmadælum eða öðrum búnaði sem stuðlar að umhverfisvænni orkuöflun og/eða bættri orkunýtingu. Til að hvetja til aukinnar notkunar á slíkum búnaði mælti ég fyrr í vetur fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar sem hefur þann megintilgang að leggja til bætt fyrirkomulag á stuðningskerfi vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun fyrir þá sem hita hús sín með raforku. Ætla má að rafhitun í landinu sé á bilinu 600–650 GWst og af því eru um 320 GWst niðurgreiddar, þar af 225 GWst vegna beinnar rafhitunar. Með varmadælum og öðrum orkusparandi búnaði væri hægt að losa um allt að 110 GWst í aðra notkun, en 110 GWst samsvarar raforkunotkun 50 þúsund rafbíla. Það munar um minna.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á fyrirkomulagi styrkveitinga vegna umhverfisvænnar orkuöflunar. Einfaldara og sanngjarnara kerfi er talið stuðla að aukinni notkun varmadælna og öðrum tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun með tilheyrandi ávinningi fyrir neytendur, ríki, raforkukerfið og orkuskipti.

En það er meira sem þarf til en að nýta orkuna betur.

Orkuskiptin eru stórt verkefni og lykilpartur af því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Til að hægt sé að fara í orkuskipti er hins vegar nauðsynlegt að framleiða meiri orku, en eins og við höfum öll verið vör við þá hefur orkuskortur og skerðing á orku verið mikið til umfjöllunar síðustu vikur og mánuði.

Á þinginu mælti ég fyrir tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða þriðja áfanga rammaáætlunar. Það er von mín að þingið nái að fjalla efnislega um tillöguna og afgreiða hana fyrir þinglok. Við verðum að hafa í huga að við ætlum okkur að uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem stjórnvöld hafa sett sér í loftslagsmálum. Þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg varða á þeirri vegferð. Hún veitir okkur líka leiðsögn um forgangsröðun og á hvaða svæðum ætti alls ekki að vinna að orkuöflun, byggt á mati sérfræðinga á náttúruverndargildi þeirra svæða sem eru til umfjöllunar og mati á mögulegum áhrifum á aðra nýtingu s.s. ferðaþjónustu. Öflun orku getur haft veruleg og óafturkræf áhrif á náttúru landsins og okkur ber að stíga varlega til jarðar og byggja á bestu fáanlegu upplýsingum á hverjum tíma.

Þó hér sé að mestu fjallað um aukna raforkuframleiðslu er einnig brýnt að undirstrika mikilvægi þess að tryggja aðgang að heitu vatni til framtíðar til hitunar húsa og verður að sýna fyrirhyggju í þeim efnum svo ekki komi til skortur þar á komandi árum.

Ágætu gestir,

Hægt er að auka orkuöflun og orkunýtni með lágmarks raski á umhverfi þegar gefið er tækifæri á að hraða aflaukningu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri. Ég mælti fyrr í vetur fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem lögð er til sú breyting að rammaáætlunin tæki ekki til stækkana á virkjunum sem þegar eru í rekstri svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér að óröskuðu svæði verði raskað. Verði frumvarpið að lögum verður hægt að hraða framkvæmdum er lúta að því að auka afkastagetu virkjana sem þegar eru í rekstri. Ég tel mikilvægt að taka það fram að með breytingunum er ekki verið að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra framkvæmda sem undir breytingarnar falla. Stækkanir á virkjunum munu áfram vera háðar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda auk þess sem veiting Orkustofnunar á nýju virkjunarleyfi er áskilin samkvæmt raforkulögum og að auki nýju nýtingarleyfi þegar um er að ræða jarðvarmavirkjanir.

Góðir fundargestir,

Nú um stundir eru viðsjárverðir tímar með stríðsátökum í Evrópu. Við getum verið þakklát fyrir það hér á landi að búa við frið og öryggi og þar með talið orkuöryggi. Fyrri orkuskipti sem landið gekk í gegnum eftir olíukrísurnar á síðustu öld hafa komið okkur í þá öfundsverða og öruggu stöðu að megnið af orkuframleiðslunni er af innlendum uppruna. Við sjáum með enn gleggri hætti en áður virði auðlinda okkar og mikilvægi þess að öðlast fullt orkusjálfstæði með okkar eigin framleiðslu raforku eða rafeldsneytis. En þar til innlenda rafeldsneytið tekur við þá þurfum við að huga að tryggu framboði eldsneytis ef til röskunar kemur.

Í orkustefnu kemur fram að: Nægt framboð eldsneytis sé forsenda öryggis á fjölmörgum sviðum, m.a. fæðuöryggis, almennra samgangna, löggæslu og sjúkraflutninga. Öryggisbirgðir olíu verði tiltækar í því skyni að tryggja orkuöryggi og efnahagslegan stöðugleika þar til orkuskiptum er náð.“

Brýnt er að tryggja olíuöryggi hér á landi með því að bæta birgðastöðu eldsneytis í samræmi við það sem tíðkast í mörgum Evrópuríkjum, skilgreina lágmarksbirgðir, leggja mat á áhættu af mögulegum skorti á eldsneyti hérlendis og áhrif hans á hinar ýmsu greinar og gera viðbragðsáætlanir vegna hugsanlegra truflana á olíuframboði. Ráðuneytið skoðar nú mismunandi leiðir til að tryggja lágmarksbirgðir olíu í samræmi við það sem tíðkast almennt innan Evrópusambandsins og aðildarríkja alþjóða orkustofnunarinnar.

Kæru gestir,

Nokkur orð um orkuskipti. Orkusjóður hefur verið verulega efldur með auknum framlögum, tengt aðgerðaráætlun Íslands í loftlagsmálum. Í ár getur hann styrkt verkefni fyrir um 900 milljónir króna. Umsóknir fyrir síðustu auglýstri styrkúthlutun nema að upphæð fjórum milljörðum króna. Ef við gætum styrkt öll verkefnin erum við að tala um fjárfestingar í orkuskiptum sem nema 12 milljörðum króna, þar sem sjóðurinn styrkir þriðjung í heildarkostnaði verkefna. Það er því alveg ljóst að áhuginn er gríðarlegur og það verður til mikils að vinna að gangsetja sem flest þessi verkefni þar sem þau skila árangri nánast strax við gangsetningu.

Kæru gestir,

Eins og heyra má þreytist ég seint á að ræða orkumálin og það er heiður fyrir mig að fá tækifærið til að vinna að framgangi þeirra á öllum sviðum með ykkur sem hér sitjið. Þau eru mörg orkumálin, oft flókin en yfirleitt spennandi en ávallt mikilvæg þar sem þau eru unnin í þágu þjóðarinnar. Ég hef tæpt á nokkrum hlutum, en hefði getað haldið lengi áfram og fjallað meira um rafeldsneyti, orkugeymslur, snjallvæðingu, samkeppni á raforkumarkaði, smávirkjanir, upprunaábyrgðir, jöfnun orkukostnaðar, flutningslínur, hleðslustöðvar, rafvæðingu hafna, rafflugvélar, leyfisveitingarferla, vindorku á landi og á hafi, kerfisáætlanir, orkupakka, glatvarma, netöryggi og eignarhald Landsnets.
Í öllum þessum verkefnum þurfum við að vinna áfram á samstilltan hátt. Með góðri samvinnu ráðuneytis, stofnunar, hagahafa og almennings munum við ná árangri.

Vil ég nýta tækifærið og þakka starfsfólki Orkustofnunar fyrir frábært starf og farsælt samstarf við ráðuneytið. Ráðuneytið er hér eftir sem áður reiðubúið að vinna með Orkustofnun til að tryggja að stofnunin sé í stakk búin til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem henni er falið.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta