Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra - Kyrrstaðan rofin

Eftirfarandi grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra birtist í Fréttablaðinu 16. júní 2022.

 

Kyrrstaðan rofin

Nú í vikunni lýkur Alþingi störfum að sinni og verða ýmis mikilvæg mál afgreidd. Meðal þeirra eru þrjú mál sem ég lagði fram á þessu ári. Segja má að kyrrstaðan sé rofin og enn eykst krafturinn loftslagsmálunum.

Helst ber að nefna að þinginu tókst að ná samstöðu um afgreiðslu þriðja áfanga rammaáætlunar. Áætluninni er ætlað að skapa jafnvægi milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda okkar Íslendinga. Þingið á að taka rammaáætlun til umfjöllunar á fjögurra ára fresti. Ekki hefur náðst að afgreiða málið í níu ár en það hefur verið lagt fram fjórum sinnum. Háleit markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og niðurstaða grænbókar um stöðuna í orkumálum virðist hafa gert þingi og þjóð ljóst að ekki stendur lengur til boða að bíða. Markmiðin kalla á græn orkuskipti og afla þarf grænnar orku. Bæði með því að nýta betur þá innviði sem við þegar búum að en einnig með nýjum virkjunum. Það er því sérstakt fagnaðarefni að þinginu hafi loks tekist að klára þetta erfiða verkefni sem rammaáætlun hefur reynst vera.

Þingið samþykkti einnig tvö frumvörp sem eru liðir í að markmið um kolefnishlutleysi og græn orkuskipti náist. Annars vegar að stækkun virkjana á svæðum sem nú þegar eru röskuð þurfi ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar sem auðveldar aukningu á afköstum virkjana sem nú þegar eru til staðar. Hins vegar frumvarp um niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar sem felur í sér breytt fyrirkomulag stuðningskerfis vegna umhverfisvænnar orkuöflunar og bættrar orkunýtingar fyrir þá sem hita hús sín með raforku. Núverandi stuðningskerfi hefur reynst flókið og óskilvirkt og er þessi breyting því kærkomin.

Ljóst er að þau háværu gífuryrði sem heyrst hafa úr ranni stjórnarandstöðunnar um að ríkisstjórnin aðhafist ekkert til að ná loftslagsmarkmiðum Íslands eru rangar. Við sýnum það með verkum okkar að okkur er full alvara.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta