Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. ágúst 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við opnun Seyrustaða á Flúðum

Ágætu gestir, sveitarstjórar og sveitarstjórnafulltrúar.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þessa samkomu og taka þátt í vígslu Seyrustaða hér á Flúðum. Einhver hugsar sjálfsagt með sér hvaða ánægju ráðherra gæti haft af meðhöndlun seyru sem dælt er upp úr rotþróm. Jú sjáið til, nýting seyru tengist með beinum hætti stærstu áskorunum samtímans í umhverfismálum.

Eins og við þekkjum öll stendur mannkynið nú andspænis mikilvægasta verkefni sem hugsast getur. Að vinna gegn yfirvofandi loftslagsbreytingum. Við Íslendingar erum eftirbátar margra þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Megináhersla mín og ríkisstjórnarinnar er á loftslagsmálin og við þurfum, sem þjóð, að gera miklu betur. Við þurfum að vinna hratt og við þurfum að vinna saman.

Landsmarkmið íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum er metnaðarfullt.

Þessu markmiði verður ekki náð nema hér á landi komist á virkt hringrásarhagkerfi með vörur, þjónustu og hráefni. Í virku hringrásarhagkerfi eru framleiðsla og neysla sjálfbær, dregið er úr myndun úrgangs, kostir deilihagkerfisins eru nýttir og auðlindir varðveittar með því að halda hráefni í hringrás.

Fyrir rétt rúmu ári síðan gaf ráðuneytið út heildarstefnu í úrgangsmálum og um svipað leyti voru samþykktar mikilvægar lagabreytingar sem eiga að ýta undir framþróun sem þarf að verða á meðhöndlun úrgangs hér á landi.

Þegar horft er til þess að lífrænn úrgangur er stór hluti af þeim úrgangi sem fellur til á Íslandi skyldi engan undra að í lífrænum úrgangi búi miklir möguleikar. Möguleikar til nýtingar, til nýsköpunar og til hringrásar. Lífrænn úrgangur er jafnan fullur af næringarefnum og hringrás næringarefna er ekki síður nauðsynleg í virku hringrásarhagkerfi en hringrás málma, plasts eða glers.

Seyra er einkum rík af næringarefnunum nitri og fosfór. Seyra er að því leytinu til mjög sambærileg kúamykju sem næring fyrir plöntur. Á Íslandi er öll kúamykja nýtt til túnræktar.

Af hverju er ekki öll seyra nýtt til landbóta? Tölulegar upplýsingar um magn úrgangs sem fellur til hér á landi benda til að á landsvísu sé umtalsvert magn af seyru sem er fargað og fer ekki til nýtingar. Það er ótækt að dýrmætum næringarefnum sé sóað með þessum hætti. Í nágrannaríkjum okkar eru dæmi þess að nær öll seyra sé nýtt til uppgræðslu. Nú er lag. Um þessar mundir er verð á tilbúnum áburði í sögulegu hámarki og vegna mikillar eftirspurnar eftir fosfór á heimsmarkaði er verð hans á mikilli uppleið.

Næringarefnin í seyru eru takmörkuð auðlind og aðkallandi að loka hringrás þeirra með því að vinna seyru og nota hana sem áburð. Þá er dýrmætt að geta byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur með rekstrinum hér á Seyrustöðum. Enn fremur er ljóst að nánasta framtíð skólpmála á Íslandi felur í sér meiri hreinsun skólps en hingað til hefur tíðkast. Það leiðir af sér ennþá meira magn seyru á ári hverju. Leita þarf allra leiða til að nýta þessa seyru. Það er auðlindamál.

Mælingar Landgræðslunnar sýna glöggt árangur af notkun seyru við uppbyggingu gróðurþekju á örfoka landi.

Rofið land losar kolefni í andrúmsloftið og rýrir landgæði. Ávinningur af uppgræðslu örfoka lands er því margþættur. Uppgræðsla örfoka lands með seyru er því líka loftslagsmál og náttúruverndarmál.

Hér hef ég nefnt ýmsa kosti þess að nýta seyru en ennþá hef ég ekki minnst á orkuskiptin. Því seyra er líka orkurík. Úr henni er mögulegt að framleiða lífgas sem nýta má sem eldsneyti eða til raforkuframleiðslu. Hagkvæm, innlend orka sem getur komið í stað jarðefnaeldsneytis.

Það besta er að vinnsla á orku úr seyru kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að nýta næringarefnin í seyrunni í kjölfarið. Seyran er jafnvel enn hentugri áburður eftir að búið er að vinna úr henni gas.

Góðir gestir.

Eins og þið heyrið þá skipta verkefni eins og Seyrustaðir miklu máli í hinu stóra samhengi umhverfismálanna. Nýting seyru getur verið allt í senn loftslagsmál, náttúruverndarmál, auðlindamál og hringrásarmál. Það er því ekki að furða að þessi vígsla hér í dag veki ánægju hjá ráðherra umhverfismála.

Verkefnið hefur bein, jákvæð áhrif hér í fjórðungnum og markar jafnframt leiðina fyrir önnur sveitarfélög sem vilja gera betur í þessum efnum. Ég þreytist heldur ekki á að nefna hversu mikilvæg víðtæk samvinna er við úrlausn umhverfismála. Seyrustaðir er skýrt dæmi um farsæla samvinnu sex sveitarfélaga og ríkisstofnunar um uppbyggingu innviða og nýtingu auðlindar sem annars væri sóað.

Ég óska sveitarfélögunum á Suðurlandi sem standa að rekstri Seyrustaða hjartanlega til hamingju með áfangann og það góða frumkvöðlastarf sem þau hafa hér unnið á undanförnum áratug.

Um leið hvet ég sveitarfélögin áfram til góðra verka við frekari nýtingu á seyru og öðrum lífrænum úrgangi, til hagsbóta fyrir umhverfið og komandi kynslóðir.

Góðar stundir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta