Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. september 2022 Guðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, við afhendingu Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti

„Ef maður er svartsýnn og gerir ekki neitt, þá er það vísasta leiðin til að tapa leiknum. Slík afstaða er því ekki í boði. Það eina sem er í boði er bjartsýni og eldmóður. Auðvitað syrtir oft í álinn. En með bjartsýni og baráttuþreki munum við gera jörðina að betri heimkynnum fyrir komandi kynslóðir og lífríkið allt.“

Svo mælti viðurkenningahafi þessa árs í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum og bjartsýni og eldmóður eru svo sannarlega eiginleikar sem viðurkenningarhafinn deilir með Sigríði Tómasdóttur í Brattholti.

Þetta er í þrettánda sinn sem náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti er afhent, en efnt var til viðurkenningarinnar í fyrsta sinn árið 2010 til handa þeim sem unnið hafa markvert starf á sviði náttúruverndar, í minningu brautryðjandans Sigríðar.

Viðurkenningin hefur um langt skeið verið afhent á Degi íslenskrar náttúru, 16. september sem eignaður er afmælisbarninu og öðrum eldhuga í náttúruvernd, Ómari Ragnarssyni.

Kæru gestir,

Ákveðið var að stofna til Dags íslenskrar náttúru til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar. Í ár, kæru gestir, er það eldhuginn sjálfur, Ómar, sem hlýtur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Ómar fæddist í Reykjavík 16. september 1940 og ólst upp í Holtunum, en fór öll sumur í sveit í Langadal sem krakki. Hann var elstur sex barna þeirra Jónínu Rannveigar Þorfinnsdóttur húsfreyju og Ragnars Edvardssonar bakarameistara.  Áhugi Ómars á íslenskri náttúru kviknaði strax í barnæsku og lærði hann landafræði með því að hlusta á veðurfréttir og skoða kort þegar hann lá rúmfastur lengi sem strákur.

Ómar kvæntist Helgu Jóhannsdóttur árið 1961 og saman eiga þau sjö börn, þau Jónínu, Ragnar, Þorfinn, Örn, Láru, Iðunni og Ölmu og ferðaðist fjölskyldan mikið saman um Ísland. Oft í tengslum við vinnu Ómars, sem þjóðin þekkir sem fjölmiðlamann, flugmann, skemmtikraft, rallýkappa og náttúruverndarsinna.

Það var með Stikluþáttunum sem náttúruunnandinn Ómar kom þjóðinni af alvöru fyrir sjónir. Áður hafði Ómar gert sjónvarpsmyndir um einstaka staði eins og til dæmis sjómennsku á Gjögri.

Fyrsti Stikluþátturinn var sýndur árið 1977 og náðu þættirnir, sem hann hélt áfram að gera til ársins 2005, óhemju vinsældum. Þau Lára dóttir hans tóku svo upp þráðinn árið 2015 og gerðu nokkra þætti til viðbótar.

Þeir sem hafa aldur til, muna vel eftir Stiklum Ómars og vakti þáttur hans um einbúann Gísla í Uppsölum þar eflaust hvað mesta athygli. Þættirnir vöktu þó ekki síður athygli á tilkomumikilli náttúru landsins. Þar sýndu Ómar og flugvélin Frúin, sem oft var með í för, landsmönnum svæði sem stundum voru ekki öðrum aðgengileg en Frúnni og fuglinum fljúgandi.

Ómar hefur fært okkur hvert náttúruundrið á fætur öðru alla leið heim í stofu, ekki bara í gegnum Stiklurnar heldur líka sem fréttaefni. Þannig myndaði hann Holuhraun áður en þar fór að gjósa og kom að Grímsvatnagosinu áður en nokkur annar kom þar að.

Ómar hefur líka gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina „In memorian“ um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul, auk þess að rita bókina Kárahnjúkar - með og á móti sem kom út árið 2006.

Sjálfur sagði Ómar á þessum degi fyrir tveimur árum, þegar hann fagnaði áttræðisafmæli sínu, að baráttan gegn Kárahnjúkavirkun væri það sem hann væri stoltastur af.

Þá hefur Ómar verið ötull við að vekja athygli á rafknúnum farartækjum hin síðari ár og hefur m.a. ferðast um á rafhjóli og litlum rafbíl. Ferðaðist hann til að mynda árið 2015 á rafhjóli frá Reykjavík til Akureyrar, , þá orðinn 75 ára gamall! Með ferðinni setti Ómar nokkur Íslandsmet. Hann fór lengstu vegalengd sem rafhjól hafði þáfarið á eigin afli án þess að skipta út rafgeymum, lengstu vegalengd rafhjóls á sólarhring og lengstu ferðina sem rafhjól hafði á þeim tíma farið hér á landi. Ferðalagið tók einn sólarhring, 15 og hálfa klukkustund og nam kostnaðurinn 115 kr.

Þá er Ómar brautryðjandi í notkun rafbíla á Íslandi, átti ef minnið svíkur ekki rafbíl hér fyrir nokkrum áratugum síðan, og hefur undanfarin ár keyrt um á rafmagnsbílum. Hann sagði einmitt í viðtali fyrir nokkrum árum,  og var því á undan okkur stjórnvöldum sem nú erum að takast á við málið, að það væri ekki nóg að rafmagnsbílar væru bara fyrir þá efnameiri. Huga þyrfti að „rafbíl litla mannsins“.

Kæru gestir,

Íslensk náttúra væri svo miklu fátækari ef ekki væri fyrir eldhuga sem eru tilbúnir að leggja allt í sölurnar fyrir hana. Ég eins og margir Íslendingar erum svo heppin að hafa átt Ómar sem glugga inn í hluti sem eru svo ótrúlega mikilvægir en fáir sinntu. Einstaklingar skipta máli og eitt skýrasta dæmið um það, er Ómar Ragnarsson.

Það verður aldrei hægt að mæla það hvað hann hefur gert, með sínum einstaka hætti, fyrir íslenska náttúru. Hvernig hann hefur vakið áhuga á og beint sjónum Íslendinga að þeim gersemum sem við eigum. Þetta hefur hann gert í áratugi. Ég er af þeirri kynslóð að án Ómars Ragnarssonar þá hefði maður einfaldlega ekki áttað sig á þeirri stórbrotnu náttúru sem við eigum

Kæri Ómar – til hamingju með daginn! Ég vil biðja þig um að taka við náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti árið 2022, um leið og ég vil færa þér þakkir fyrir baráttuþrek þitt og elju við að vernda og vekja athygli á íslenskri náttúru.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta