Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands

Kæru starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa og aðrir gestir.

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að ávarpa ykkur í dag.
Náttúrufræðistofnun Íslands er ein af grundvallarstofnunum ráðuneytisins í rannsóknum og vöktun á náttúru og lífríki Íslands.

Stofnunin á hafa yfirlit um náttúru landsins uppruna, ástand og þróun hennar og varðveitagögn og upplýsingar um muni, rannsóknir og vöktun á náttúru landsins.

Starfssvið stofnunarinnar er geysi víðtækt og eins og gefur að skilja getur verið erfitt að sinna öllum þáttum íslenskrar náttúru innan stofnunarinnar miðað við fjölda sérfræðinga í dag og undanfarna áratugi. Oft á tíðum hefur verið unnið á ákveðnum og afmarkaðri sviðum og að verkefnum sem aðkallandi hefur verið að sinna.

Vert er að minnast stórra verkefna undanfarinna ára eins og greiningar og kortlagningar vistgerða landsins og afmörkun mikilvægra fuglasvæða og tillagna á B-hluta náttúruminjaskrár. Nú er stofnunin að vinna að tillögum um svæði á C-hluta og mikilvægt er að ná til sem flestra tegunda náttúruverndarsvæða á landi og sjó, innan landhelginnar.

Samvinna og samstarf stofnunarinnar við náttúrustofur sveitarfélaganna sem grundvallað er í lögum um stofnunina hefur reynst mikilvægt skref í að auka og bæta rannsóknir, vöktun og náttúruvernd svæðisbundið og fyrir landið í heild. Sérhæfing í starfi náttúrustofanna hefur gefið tækifæri á að kafa dýpra í einstaka rannsóknar- og vöktunarþætti og leitt af sér betri þekkingu og skilning á viðkomandi málefnum. Rannsóknir og vöktun tengist oftar en ekki nýtingu náttúrunnar, svo sem veiðum á fuglum og hreindýrum, tjóni af völdum dýra, annarri nýtingu eða framkvæmdum sem hafa áhrif á náttúruna.

Nú stendur yfir fundur aðildarríkja AEWA samningsins þar sem meðal annars er til umfjöllunar tillögur um aukna verndun votlendisfugla svo sem grágæsar og annarra gæsategunda og sjófugla. Öflugt rannsóknar- og vöktunarstarf gerir gæfumuninn þegar fjallað er um og teknar ákvarðanir um verndun og nýtingu náttúrunnar. Það er mikilvægt í þessu sambandi að við vinnum stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir einstakar tegundir og eða tegundahópa, einkum til að byrja með þeirra sem eiga undir högg að sækja og þeirra sem við höfum verið að nytja.

Undanfarin sex ár hefur vöktun fugla, rjúpunnar þó lengur, byggst á þriggja ára áætlunum og nú liggur fyrir að endurnýja þessar áætlanir í lok ársins. Ráðuneytið telur mikilvægt að leggja sérstaka áherslu á tegundir sem eru í hættu, m.a. tegundir sem AEWA samningurinn flokkar í mesta hættu og að grágæsin verði tekin til sérstakrar skoðunar í vöktunaráætlunum fyrir gæsir, vegna mikillar fækkunar í stofninum. Það er því mikilvægt að ljúka vinnslu verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir grágæs sem fyrst, og ljúka áætlun fyrir rjúpuna. Náttúrufræðistofnun gegnir þar lykilhlutverki við að meta stofnstærðir, veiðiþol, og ýmis stofnviðmið fyrir sjálfbæra nýtingu. Mikilvægt er að verkaskipting og samvinna milli Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar í þeirri vinnu sé skýr.

Grænbók um stefnumótun um líffræðilega fjölbreytni liggur fyrir og er að fara í samráðsgátt stjórnarráðsins til athugasemda og ábendinga.
Í framhaldinu verður unnið áfram að mótun nýrrar stefnu fyrir líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem ætlunin er að ljúka og samþykkja í lok ársins. Því miður hefur vinna við stefnumótunina hér á landi dregist en við vonumst til að hún líti dagsins ljós snemma á næsta ári.

Ráðuneytið vill þakka stofnuninni fyrir framlag hennar við vinnslu grænbókarinnar og greinargott yfirlit um náttúru landsins sem fylgir grænbókinni.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur veigamiklu hlutverki að gegna við gerð nýrrar náttúruminjaskrár, tók saman tillögur fyrir B-hluta skrárinnar og skilaði þeirri vinnu til ráðuneytisins árið 2018 og vinnur nú að söfnun upplýsinga og úrvinnslu fyrir tilnefningu svæða á C-hlutann í samvinnu við fagráð náttúruminjaskrár.

Það er mikilvægt að við getum lokið vinnslu beggja þessara hluta skrárinnar fljótlega en B-hlutinn fer fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Fljótlega eftir að ég settist í stól umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setti ég í gang vinnu við endurskoðun stofnanaskipulags ráðuneytisins. Í þeirri vinnu er verið að skoða hvernig við getum nýtt þau samlegðaráhrif sem til staðar eru, nýtt fjármagn betur og þétt raðirnar, bæði stofnanirnar og ráðuneytið. Gert er ráð fyrir að tillögur um mögulegar sameiningar stofnana muni liggja fyrir síðari hluta desember.

Kæru gestir.

Dagskráin hér í dag er spennandi og mörg áhugaverð erindi á dagskrá. Ég vona að þið eigið ánægjulegan dag og njótið þess fallega umhverfis sem Borgarfjörðurinn býður upp á.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta