Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á umhverfisþingi Framkvæmdasýslunnar - ríkiseigna

Ágætu starfsmenn Framkvæmdasýslunnar

Það er sérstök ánægja fyrir mig að ávarpa ykkur hér í dag á umhverfisþingi Framkvæmdasýslunnar - ríkiseigna.

Eins og við þekkjum öll stendur mannkynið nú andspænis mikilvægasta verkefni sem hugsast getur. Að vinna gegn yfirvofandi loftslagsbreytingum. Við Íslendingar erum eftirbátar margra þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Megináhersla mín og ríkisstjórnarinnar er á loftslagsmálin og við þurfum, sem þjóð, að gera miklu betur. Við þurfum að vinna hratt og við þurfum að vinna saman.

Landsmarkmið íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 eru metnaðarfull. Til að ná þeim markmiðum þurfa allir að leggjast á eitt hvort heldur sem er atvinnulífið, stjórnvöld, sveitarfélög og einstaklingar. Mikilvægt er að loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar séu höfð í huga við alla stefnumótun opinberra stofnanna og í ykkar tilfelli er það sérstaklega mikilvægt. Í þeim verkefnum sem ykkur hefur verið falin felast gríðarleg tækifæri til að hafa áhrif á þetta mikilvæga málefni. Eignasafnið hjá stofnuninni samanstendur af 350 fasteignum sem samtals eru um 530 þúsund fermetrar. Þá sýslið þið með 300 jarðir, rúmlega 100 þróunar- og framkvæmdaverkefni sem og aðrar auðlindir s.s. jarðhita, vatnsréttindi og jarðefni. Ef þau verkefni sem þið eigið aðkomu að taka mið af áherslum stjórnvalda í loftslagsmálum þá er stórt skref stigið.

Áætlað hefur verið að á heimsvísu sé byggingariðnaðurinn ábyrgur fyrir um 40% af heildarkolefnislosun heimsins. Í bókhaldi Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda er ekki auðvelt að rekja loftslagsáhrif byggingariðnaðarins en stærsti hluti hennar virðist eiga sér stað á byggingartíma og tengist efnisvali, innflutningi byggingarefna og notkun véla og tækja, meðal annars vegna flutninga á jarðefni. Aðeins lítill hluti losunarinnar, það er að segja notkun véla og tækja, fellur undir beinar skuldbindingar Íslands auk losunar vegna orkunotkunar á rekstrartíma bygginga. En við verðum að hugsa í stóra samhenginu og leggja okkar af mörkum til að draga úr losun sama hvar hún er bókfærð.

Loftslagið er að breytast og það mun snerta okkar byggða umhverfi. Aðlögun að þeim breytingum sem ekki er hægt að koma í veg fyrir er óhjákvæmileg og mikilvægt að byggja upp viðnámsþrótt samfélagsins og þar skiptir hið byggða umhverfi máli.
Ráðuneytið undirbýr landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum og þar verður einnig mikilvægt að eiga ykkur að.

Að lokum vil ég hrósa ykkur fyrir að vera komið með fjórða skrefið í Grænum skrefum í ríkisrekstri en þar eru þið í góðum hópi 16 stofnana sem hafa lokið því skrefi. Ég er ánægður að heyra að þið ætlið til að ganga alla leið og stíga fimmta og síðasta skrefið en það skref tekur á þeim aðgerðum sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi hjá stofnuninni. Umhverfisstjórnunarkerfi er góð viðleitni í að gera umhverfismálum hátt undir höfði og stuðla að því að þeim markmiðum sem þið setjið ykkur í umhverfismálum nái fram að ganga en þau miða að því að draga úr notkun náttúruauðlinda og lágmarka skaða á jarðvegi, vatni og lofti.

Ég þakka fyrir tækifærið að fá að ávarpa ykkur í dag og óska ykkur góðs umhverfisþings.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta