Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytiðGuðlaugur Þór

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ráðstefnunni "Stolt siglir fleyið mitt - öryggi og grænar lausnir í siglingum"

Ágætu fundarmenn!

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér á Alþjóðasiglingdeginum sem helgaður er öryggi og grænum lausnum í siglingum á ráðstefnu þessari sem haldin er af innviðaráðuneyti og Siglingaráði í samstarfi við Samgöngustofu, Grænu orkuna og umhverfis-, og orku- og loftslagsráðuneytið.

Orkuskipti eru fram undan eins og rækilega er undirstrikað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar og í orkustefnunni höfum við sagt með skýrum hætti að Ísland ætlar að vera fyrst þjóða til að klára sín orkuskipti og vera óháð jarðefnaeldsneyti, á öllum sviðum, fyrir 2040. Í stuttu máli sagt, full orkuskipti eru endamarkmiðið. Jafnframt hefur verið sett fram markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Þetta eru metnaðarfull og ekki síður ótrúlega spennandi markmið sem okkur er falið að vinna að.

Nær okkur í tíma, eða 2030, eru markmiðin um 10% hlutdeild endurnýjanlegrar orku í haftengdri starfsemi og um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands. Ef við umbreytum þeim markmiðum í kolefnistölur þá þarf draga úr losun um 1,3 milljón tonna koltvísýrings á um sjö árum.

Með skýrslunni um stöðu og áskoranir í orkumálum, eða grænbókinni svokölluðu, voru þessi háleitu markmið sett í samhengi við raunveruleikann, þar sem sviðsmyndir lögðu út frá markmiðum með því að tengja þau við nauðsynlega orkuöflun til að anna orkuskiptum, á landi, á hafi og í lofti. Í skýrslunni kemur fram að loftslagsmarkmið Íslands þurfi að móta betur orkuframleiðslu og orkuflutning sem eru grunnur að framfylgd orkuskipta í samfélaginu. Þá þarf hvorki meira né minna að rúmlega tvöfalda orkuframleiðslu landsins fyrir orkuskiptin. Til samanburðar, þá er á heimsvísu þörf á áttföldun framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Nú þegar orkukrísa er í Evrópu, sjáum við með enn gleggri hætti mikilvægi þess að vera ekki bara óháð jarðefnaeldsneyti, heldur óháð öðrum um orku og eldsneyti. Krísan varpar skýru ljósi á nauðsyn endurnýjanlegra orkugjafa og hve mikilvægt þjóðaröryggismál felst í orkusjálfstæði. Við sjáum hve mikil forsjálni og framfararskref það var á sínum tíma að fara í fyrstu orkuskiptin sem voru hitaveituvæðing og rafvæðing landsins. Heita vatnið sparar íslensku samfélagi um 100 milljarða króna á ári og er þá ótalinn umhverfislegur ávinningur sem felst í minni útblæstri og heilsuspillandi mengun. Næstu orkuskipti, sem verða þau síðustu, munu einnig skapa verðmæti fyrir land og þjóð og vinna að tveimur markmiðum samtímis, þ.e. varðandi orkuöryggi og loftslagsmál.

Ágætu fundarmenn,

Orkuskipti á landi eru komin vel á veg og Ísland getur státað sig af því að vera með þeim fremstu á heimsvísu í þeim efnum, samanber nýskráningu rafbíla þar sem Ísland er í öðru sæti (á eftir Norðmönnum). Þjóðin, vegna legu landsins, byggir lífsafkomu sína að miklu leyti á hafinu, með fiskveiðum og flutningum eftir siglingaleiðum. Þegar við horfum á samhengi hlutanna, þá bera flutningaskip ábyrgð á 2,5% losunar á heimsvísu. En á Íslandi ber sjávarútvegur ábyrgð á 20% losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands. Það sýnir glöggt hve stóran hlut starfsemi á hafinu spilar í efnahagskerfi landsins og jafnframt hvar tækifærin í orkuskiptum liggja.

En orkuskiptin í þessum geira eru vissulega krefjandi og því mikilvægt að vera á sama tíma raunsær, því þetta er langhlaup. Fljótlega eftir að ég tók við embætti, var gefin út skýrsla um sviðsmyndir fyrir orkuskipti á hafi sem var unnin af DNV (Det Norske Veritas) í samstarfi orkumálaráðuneytis (ANR), Samorku, SFS og Faxaflóahafna. Þar kemur fram að það eru töluverðar áskoranir og hindranir í vegi og tækniþróun enn skammt á veg komin. Framboð og eftirspurn eldsneytis þarf að samstilla og stjórnvöld geta lagt því lið með stuðningi við verkefni og með því að sýna gott fordæmi með orkuskiptum ríkisskipa og ferja. Mikilvægast er að stjórnvöld stuðli að því að réttir hvatar séu fyrir hendi fyrir orkuskipti og að regluverk standi ekki í vegi fyrir framþróun.

Ég hef þá trú, að við, eyjasamfélagið í Norður-Atlantshafi, höfum alla burði til þess að ná viðlíka árangri í orkuskiptum á hafi og á landi. Þar eru hins vegar annarskonar áskoranir heldur en í orkuskiptum í landi, og farsælt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda að mörgu leyti enn mikilvægara. Ég hef lagt áherslu á í mínu ráðuneyti að tengja betur við atvinnugeirana og virkja þannig frumkvæði og þekkingu þeirra sem standa næst starfseminni. Þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir kalla á nýja nálgun, þannig stendur nú yfir mikilvægt samtal við atvinnulífið um hvernig geirarnir sjálfir geti sett sér mælanleg markmið og lagt okkur lið í þessum efnum.

Kæru gestir,

Ég get með sanni sagt að það sé mikil vakning í gangi á sviði orkuskipta, á öllum sviðum og ekki síst siglingum.

Við sjáum það í þeim fjölmörgu verkefnum sem sækja stuðning til Orkusjóðs. Það er afar hvetjandi að sjá áhugann á orkuskiptum og þann fjölda raunhæfra verkefna sem koma til greina. Eftirspurnin var mjög mikil eða um fjórföld þeirrar upphæðar sem sjóðurinn hafði úr að spila. Styrkveiting Orkusjóðs í ár, 900 m.kr., er sú allra stærsta sem veitt hefur verið til orkuskipta frá sjóðnum. Verkefni sem tengjast skipum eða haftengdri starfsemi hlutu um fimmtung styrkupphæðarinnar. Þá var rafeldsneytisframleiðendum í fyrsta sinn veittur umtalsverður stuðningur, en þeir hlutu um fjórðung styrkjaupphæðarinnar. En segja má að það sé einnig styrkur veittur orkuskiptum á hafi þar sem rafeldsneyti er að miklu leyti ætlað skipum ásamt þungaflutningum á landi. Eitt af áhugaverðu haftengdu verkefnunum sem þar er á ferðinni er umbreyting fiskiskipa þannig að þau gangi fyrir metanóli sem hægt er að framleiða með grænni raforku. Þar má nefna verkefni Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem hyggst breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta. Einnig má nefna landtengingar, rafknúinn þjónustubát, rafvæðingu strandveiðibáta, tvíorkubát og vindmyllugáma.

Það er ánægjulegt að sjá hvernig verkefnin spanna vítt svið og dreifast um landið sem er það sem við vorum að vonast eftir að sjá. Enda mjög mikilvægt að enginn landshluti verði eftir þegar kemur að grænu orkuskiptunum. Sem betur fer er áhugi fjárfesta og frumkvöðla mikill, en þeir leggja til meirihluta fjármagnsins til verkefna á móti sjóðnum. Við þurfum svo sannarlega að virkja áfram þennan slagkraft sem þar er að finna.
Við heyrum af nokkrum verkefnum á dagskránni í dag og Orkusjóður mun vera með viðburð á næstu vikum þar sem þessi fjölbreytta flóra verkefna verður kynnt með örfyrirlestrum.

Yfirskrift fundarins er „stolt siglir fleyið mitt“. Við getum svo sannarlega verið stolt af þeim skipum sem sigla munu á innlendu grænu eldsneyti. Við getum verið stolt af frumkvöðlunum sem taka áhættu, eru þátttakendur í þróuninni, móta framtíðina og ryðja brautina fyrir aðra.

En kæru gestir,

Eins og ég hef ítrekað lýst yfir, þá erum við í kapphlaupi við tímann hvað varðar markmið okkar í loftslags- og orkumálum. Okkur liggur á og vil ég því ekki vera langorður og hægja með neinum hætti á framþróuninni, heldur læt ég staðar numið að sinni, enda bíður okkar dagskrá með áhugaverðum erindum frá þeim sem hafa lausnirnar.

Takk fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta